[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðjón Sigurbjartsson: "Sérhagsmunahópar ná oft sínu fram á kostnað neytenda og almennings, með aðstoð löggjafans! Afleiðingin er lakari lífskjör."

Sumir hagsmunir hópa stangast á en sumir eru sameiginlegir. Þegar svo háttar og hagsmunir neytenda eru annars vegar ættu þeir jafnan að hafa forgang svo að lífskjör batni. Því miður eru mörg dæmi um að „sérhagsmunahópar“ nái sínu fram á kostnað almennings, jafnvel með aðstoð löggjafans!

Þetta og fleira veldur því að við höfum það ekki eins gott og nágrannaþjóðirnar enda hafa síðustu áratugi fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess, en í staðinn hefur fólk frá fátækari löndum flust hingað, sem er bót í máli, sjá graf um búferlaflutninga.

Almannahagur

Fyrir neytendur skiptir miklu máli að hafa aðgang að úrvali af gæðavörum á góðu verði. Hér er verð vöru og þjónustu almennt umtalsvert hærra en í nágrannalöndunum og úrval minna vegna smæðar markaðarins og legu landsins en einnig vegna þess að löggjafinn bætir ofurtollum á innflutt matvæli. Einnig erum við skyldug að nota lítinn, óstöðugan hávaxta gjaldmiðil sem kostar okkur í lífskjörum, meira að segja að mati Seðlabankans.

Þótt við neytendur séum fjölmennasti hagsmunahópurinn og hagsmunir okkar samanlagt mestir, náum við ekki samtakamætti. Litlir, sterkir hagsmunahópar ná oft sínu fram á okkar kostnað.

Aðild að Neytendasamtökunum er frjáls og ávinningur hvers og eins af því að leggja fé í hagsmunagæslu fyrir heildina er lítill. Árgjaldið er 5.800 og virkir félagar tæplega 7.000 og tekjurnar því um 40 milljónir á ári sem gefur ekki mikinn slagkraft.

Á síðustu árum hafa reyndar Neytendastofa, Samkeppnisstofnun, MAST og fleiri stjórnsýslustofnanir sem tengjast veru okkar í EES, styrkt neytendavernd. En betur má ef duga skal því hagsmunir neytenda eru oft forsmáðir.

Sérhagsmunir

Seljendur vöru og þjónustu leitast við að hafa hag af viðskiptum. Við heilbrigðar markaðsaðstæður gengur þeim best sem bjóða góða vöru á góðu verði.

Eðlilega leita sumir að syllu þar sem þeim tekst að halda uppi háum verðum en aðrir leita skjóls fyrir samkeppni með tollum og sérleyfum. Því miður hjálpar löggjafinn sumum til við þetta þó það komi niður á neytendum.

Jafnvel litlir sérhagsmunahópar ná oft miklum slagkrafti með fjárhagslegum styrkleika, skylduaðild, sérleyfi eða slíku. Stuðningur löggjafans byggir yfirleitt á misvægi atkvæða eða spillingu.

Freklega gengið á hag neytenda

Bændasamtökin hafa mun meiri slagkraft en Neytendasamtökin. Bændur eru um 3.000 en í heild starfa um 9.000 við landbúnað að meðtöldum vinnslugreinum. Landbúnaðurinn er því um þriðjungur af ferðaþjónustunni, (sjá neðar). Löggjafinn lætur skattgreiðendur styrkja bændur um 15 milljarða kr. á ári og neytendur styðja bændur og vinnslur um 25 milljarða kr. á ári vegna tolla á matvælum. Samtals eru þetta um 40 milljarðar kr. sem veitt er í þessa litlu óarðbæru atvinnugrein og er þá ekki allt talið.

Matartollarnir þýða að verð kjöts, osta og eggja er um 35% hærra en ella og fjölbreytni og gæði minni. Engin þróuð þjóð hefur jafn háa matartolla, enda kemur hátt matarverð verst niður á fátækum neytendum. Evrópumarkaður er til dæmis galopinn landa á milli sem tryggir lág verð og mikið úrval af matvælum.

Ferðaþjónustan er stærsta atvinnugreinin. Hún veitir um 30.000 manns vinnu og færir ríkissjóði og sveitarfélögum árlega um 65 milljarða kr. í skatttekjur og þjóðinni um 500 milljarða í gjaldeyristekjur. Hátt verðlag fækkar dvalardögum ferðamanna, mest á landsbyggðinni. Með því að fella niður tolla af matvælum og lækka áfengisgjöld má bæta verulega um fyrir ferðaþjónustunni. En löggjafinn lætur fámennan hagsmunahópi bænda ganga fyrir hag neytenda og stærstu atvinnugreinarinnar ferðaþjónustu þó hún hafi burði til að snúa við byggðaþróuninni, sem landbúnaðurinn hefur ekki.

Mörg fleiri dæmi eru um að hagsmunir neytenda víkja fyrir sérhagsmunum minni hópa. Afleiðingin eru lakari lífskjör en í nágrannalöndunum. Það þarf að rétta hlut neytenda og spyrja oftar um einstök mál: Er það er neytendum í hag?

Höfundur er viðskiptafræðingur og bóndasonur. gudjonsigurbjartsson@gmail.com

Höf.: Guðjón Sigurbjartsson