Jón Hjaltalín Magnússon
Jón Hjaltalín Magnússon
Eftir Jón Hjaltalín Magnússon: "Miðflokkurinn leggur til samfélagssáttmála um aukna verk- og tæknimenntun í skólum landsins til að mæta kröfum nýrra starfa í framtíðinni."

Reykjavík sem höfuðborg á að vera leiðandi í rekstri grunn- og leikskóla og setja ríkar kröfur um gæði þeirra skóla sem sveitarfélagið á og rekur og sérstaklega kennara. Miðflokkurinn fagnar endurskipulagningu menntastefnu Reykjavíkurborgar varðandi grunnskóla með tilliti til reynslu undanfarinna ára.

Fjárfesting í menntun

Um 50% allra útgjalda Reykjavíkurborgar fara í gegnum Skóla- og frístundasvið borgarinnar enda yfir 5,000 kennarar og aðrir starfsmenn í öllum grunn- og leikskólum borgarinnar auk fjölda sérskóla, einkum tónlistarskóla, sem njóta stuðnings borgarinnar. Samkvæmt samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga frá 1996 þá tóku sveitarfélögin að sér rekstur grunnskóla með því að fá leyfi til aukins útsvars borgaranna. Tímabært er að endurskoða þetta samkomulag þannig að ríkið taki verulegan þátt í rekstri skóla.

Gjaldfrjáls grunnskóli

Fagna ber að börn borgarinnar fá gjaldfrjáls námsgögn nú til haustsins en heildarútgjöld þeirra eru aðeins um kr. 70 milljónir Miðflokkurinn vill ganga lengra í þessa átt þannig að öll börn grunnskóla fái gjaldfrjálsan, hollan og góðan mat! Áætlaður kostnaður matsins er um kr. 1.200 milljónir á ári sem greiðist af sparnaði í rekstri á öðrum sviðum. Foreldrar allt of margra barna hafa ekki ráð á að borga fyrir mat barna sinna, sem bitnar á námsárangri þeirra.

Nemandinn í fyrsta sætið

Stefna Miðflokksins í skólamálum í Reykjavík er að setja nemandann í fyrsta sætið og veita þeim sem þess þurfa einstaklingsmiðað nám til að efla færni þeirra sem eiga erfitt með bóklegt nám og auka námsframboð þeirra sem eiga auðvelt með námsefnið. Þá þarf að efla úrræði fyrir nemendur með sérþarfir. Skipuleggja þarf kennslu nemenda með langvarandi veikindi, t.d. með heimsóknum kennara og fjarrkennslu bæði í heimahúsum og spítölum svo og markvissa notkun kennsluforrita.

Fjölmenning í skólum

Núna eru börn í grunnskólum Reykjavíkur af 80 þjóðernum og tala 50 mismunandi tungumál. Fjölmenning er staðreynd og fagna ber áherslum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur á að takast á við þessa áskorun. Í einum skóla í Reykjavík eru núna 80% barna af erlendum uppruna en í sama skóla voru þau aðeins 30% fyrir 10 árum. Leggja ber mikla áherslu á að foreldrar þessara barna nýti Frístundakort þau sem þau hafa rétt á til að börn þeirra taki þátt í íþróttum og öðrum frístundastarfi sem boðið er uppá. Þá þarf að stórefla bókasöfn þessara skóla með barna- og unglingabókum á sem flestum tungumálum.

Þjóðarsátt um aukna verk- og tæknimenntun

Miðflokkurinn leggur til samfélagssáttmála um aukna verk- og tæknimenntun í skólum landsins til að mæta kröfum nýrra starfa í framtíðinni. Miðflokkurinn ætlar að auka kennslu í skapandi greinum og verkmenntun á sem flestum sviðum og auka áherslu á tölvutengt nám (t.d. grafíska hönnun, forritun og fleira) með tilheyrandi aðgengi að atvinnulífinu, bættum tækjabúnaði í skólum og hæfum leiðbeinendum. Móta skal framtíðarstefnu um framboð á náms- og kennsluefni á þessu sviði. Skapa skal sérstaka hvata fyrir nemendur til að sækja slíkt nám og auka verulega framlög ríkissjóðs til þessa náms. Mikilvægt er að ráða tæknimenntað fólk inn í skólana með markvissum hætti og bættum kjörum kennara.

Auka skal sveigjanleika til náms með það að markmiði að ná til flestra þeirra er hafa hug á því að snúa aftur í skóla óháð efnahag, aldri og búsetu. Horft skal sérstaklega til náms án staðsetningar. Kostnaður verði sá sami og við dagskóla í hefðbundnu námi. Styrkja skal háskólastofnanir utan höfuðborgarsvæðisins sérstaklega til að verða miðstöðvar náms án staðsetningar um allt land eins og Keilir á Ásbrú.

Um 15 prósent íslenskra nemenda fara í starfsnám að loknum grunnskóla á sama tíma og hlutfallið er 50 prósent í ríkjum Evrópusambandsins. Á Íslandi er hlutfall þeirra sem ljúka námi úr iðn- og starfsgreinum í kringum 12 prósent en í Noregi um 40 prósent. Það hefur lengi verið lítil aðsókn í iðngreinar hér á landi. Það er ein af af ástæðum þess að það er stöðugur skortur á iðnlærðu starfsfólki. Samhliða lítilli aðsókn í iðngreinar er mikið brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum. Hlutfall þeirra sem hverfa frá námi er 19 prósent hér á landi en 7-10 prósent annars staðar á Norðurlöndum og meðaltalið í Evrópu er 11 prósent. Tengsl eru á milli lítillar eftirspurnar eftir iðnnámi og brotthvarfs úr framhaldsskólum.

Bætum heilbrigði nemenda

Hreyfingarleysi barna og ofþyngd er stærsta heilsufarsvandamál á Íslandi og flestra vestrænna þjóða. Miðflokkurinn vill í þessu sambandi tvöfalda Frístundakort svo öll börn og unglingar geti stundað gjaldfrjálst eina íþróttagrein eða tekið þátt í fleirri greinum.

Áhugaverðir vinnu- og verkmenntaskólar

Miðflokkurinn ætlar að efla verulega Vinnuskóla Reykjavíkur með fjölbreyttu og auknu starfsvali unglinga á aldrinum 13-18 ára í samstarfi við fyrirtæki svo nemendur eigi þess kost að kynnast sem flestum starfsgreinum. Ekki bara að reyta arfa! Miðflokkurinn styður við öfluga verkmenntaskóla í höfuðborginni sem og á landsbyggðinni.

Höfundur er verkfræðingur og frambjóðandi Miðflokksins í Reykjavík. jhm@simnet.is