Hraustur Júlían J.K. Jóhannsson lyfti 400 kg. í réttstöðulyftu.
Hraustur Júlían J.K. Jóhannsson lyfti 400 kg. í réttstöðulyftu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kraftlyftingar Kristján Jónsson kris@mbl.is Júlían Jóhann Karl. Jóhannsson úr Ármanni stóð á laugardaginn í Pilzen í Tékklandi uppréttur með 400 kíló í höndunum.

Kraftlyftingar

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Júlían Jóhann Karl. Jóhannsson úr Ármanni stóð á laugardaginn í Pilzen í Tékklandi uppréttur með 400 kíló í höndunum. Með því innsiglaði Júlían sigur sinn í réttstöðulyftu á Evrópumeistaramótinu og náði í raun árangri sem jafngildir heimsmeti í stakri grein. Lyftan verður hins vegar ekki skráð sem heimsmet í réttstöðulyftu þar sem Júlían var dæmdur úr leik í hnébeygju. Gerði þar ógilt að mati dómaranna er hann reyndi við 400 kíló og var því úr leik í samanlögðu. Júlían tók þó þátt í bekkpressunni einnig og ýtti þar upp 312,5 kílóum sem er hans besti árangur í bekknum.

Júlían er enn tiltölulega ungur miðað við afreksmenn í kraftlyftingum eða 25 ára gamall. Hann undirskrikaði eina ferðina enn í Tékklandi að hann hefur burði til að verða fremsti kraftlyfingamaður heims í +120 kg flokki á komandi árum.

Viktor Samúelsson úr KFA nældi einnig í gullverðlaun í stakri grein en hann keppti -120 kg flokki. Viktor hafnaði í 4. sæti í samanlögðu en hann lyfti 380 kg í hnébeygju, 307,5 kg í bekkpressu og 322,5 kg í réttstöðu. Viktor varð Evrópumeistari í bekkpressunni, hafnaði í 4. sæti í samanlögðu og lyfti þar tonni og 10 kílóum betur. Er það hans besti árangur á alþjóðlegu móti samkvæmt upplýsingum frá Kraftlyfingasambandinu. Þar kemur jafnframt fram að Viktor hafi einnig náð sínu besta í bæði hnébeygjunni og réttstöðunni á alþjóðlegu móti.