Sigríður Arndís Jóhannsdóttir
Sigríður Arndís Jóhannsdóttir
Eftir Sigríði Arndísi Jóhannsdóttur: "Taka verður tillit til áhugasviðs og aðstæðna og gera ungu fólki raunverulega kleift að fara á þeim hraða í gegnum nám sitt sem hentar."

Fyrir mörgum árum færðist sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár. Þetta er flestum ljóst en þó er engu líkara en að samfélagið þurfi að minna sig á þessa staðreynd við og við. Ungmenni á þessum aldri eiga skýlausan rétt á ýmsum stuðningi frá hinu opinbera. Ég tel að við getum gert mun betur til að tryggja þann stuðning en ekki síður tel ég mikilvægt að allar breytingar sem varða þennan aldurshóp séu mjög vel ígrundaðar og helst af öllu ákveðnar í samráði við hópinn sjálfan.

Glíma við kvíða og heilbrigður lífsstíll

Við vitum að ungmenni glíma við kvíða og þunglyndi í meiri mæli en áður, bæði í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Fleiri hverfa brott frá námi en eðlilegt þykir og sá hópur fær lítinn stuðning frá hinu opinbera og hefur fáa möguleika til félagslegrar virkni. En ekki má gleyma þeim jákvæðu staðreyndum að ungir Íslendingar velja sífellt fleiri heilbrigðan lífsstíl án vímuefna, eru virkir í tómstundum og íþróttum og eru mikilvægar fyrirmyndir í sínu nærumhverfi.

Það fara ekki allir sömu leið

Ég hef áhyggjur af hópnum sem hverfur brott frá námi og þær áhyggjur hafa ekki minnkað við styttingu náms til stúdentsprófs. Þeim spurningum hefur ekki verið svarað hvaða áhrif styttingin gæti haft á ungmenni með tilliti til félagslegra þátta og velferðarsjónarmiða. Það gefur augaleið að styttingin eykur álag í námi, á kostnað þess að njóta og fá nauðsynlegt svigrúm til að þroskast. Það var gagnrýnivert að stytta námstíma á framhaldsskólastigi á sama tíma og dregið var úr möguleikum fólks til að setjast aftur á skólabekk. Er hugsanlegt að þetta valdi kvíða hjá ungmennum? Enginn vafi er á því að þessar breytingar hafa valdið auknum kvíða hjá ungmennum. Að mínu mati vorum við á góðu róli enda kláruðu getumiklir námsmenn framhaldsskólann á þremur árum, stór hópur á fjórum árum og enn aðrir síðar og jafnvel með hléum.

Á meðan staðreyndin er sú að við höfum hærra hlutfall nemenda sem hverfur brott frá námi vegna einhverra orsaka þá er mikilvægt að stórauka stuðning eigi róttæk breyting á borð við styttingu náms til stúdentsprófs að vera farsæl. Við eigum ekki að gera ráð fyrir því að allir fari sömu leið, við verðum að bjóða ungu fólki raunverulega möguleika á fjölbreyttri menntun.

Stefna Reykjavíkurborgar

Í frístundastefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var síðastliðið haust er meðal annars talað um að styðja skuli við 16 til 18 ára sem eru í áhættuhópi, svo sem vegna brotthvarfs úr námi, neyslu eða félagslegrar stöðu. Lögð verður áhersla á að auka framboð á skipulögðu frístundastarfi sem muni gegna mikilvægu hlutverki í forvörnum og að efla félagslega stöðu ungmenna í samstarfi við framhaldsskólana og félagasamtök.

Menntun er velferðarmál

Þeir sem fátækastir eru í okkar samfélagi eiga það oft sameiginlegt að vera með litla formlega skólagöngu að baki. Ef við styðjum við ungmennin okkar á menntaveginum hefur það veruleg jákvæð áhrif á velferð og lífsgæði fólks til frambúðar. Við þurfum að skapa samfélag fólks með ólíka menntun, reynslu og þekkingu. Möguleikar til menntunar eiga að vera fjölbreyttir, aðgengilegir og án aðgreiningar. Þeir þurfa að vera formlegir, óformlegir og í formi sí- og endurmenntunar. Taka verður tillit til áhugasviðs og aðstæðna og gera ungu fólki raunverulega kleift að fara á þeim hraða í gegnum nám sitt sem hentar. Sérstaklega þarf að hlúa vel að 16-18 ára gömlum ungmennum, sem við berum sameiginlega ríka ábyrgð á. Gleymum því ekki.

Höfundur er verkefnisstjóri og skipar 13. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Sigridur.Arndis.Johannsdottir@reykjavik.is