Eftir Erlu Björnsdóttur: "Aukin streita hefur verið í umræðunni. Hvað gerir samvinna, hvernig getum við hámarkað gæði þjónustunnar?"

Niðurstöður ýmissa rannsókna benda til þess að langvarandi streita leiði til líkamlegra einkenna og kulnunar þegar fram í sækir. Streita er í grunninn eðlilegt fyrirbæri og er viðbragð tauga- og hormónakerfa líkamans við yfirvofandi hættu eða álagi. Hún er yfirleitt tímabundið viðbragð en þegar hún verður viðvarandi þá er hún neikvæð og getur haft varanleg áhrif ef ekkert er að gert. Streita hefur mikið verið í umræðunni þessa dagana, börn mælast með aukinn kvíða, starfsmenn víða í samfélaginu upplifa mikið álag og reyna sitt besta til að klára vinnudaginn og gera sig klára fyrir þann næsta. Streita hefur fengið athygli mögulega vegna þess að af henni hlýst kostnaður. Veikindi aukast meðal starfsfólks, vinnuframlag minnkar sem hefur síðan áhrif á rekstur fyrirtækja.

En hvað er til ráða?

Mitt starf síðustu ár hefur falist í því að samræma og straumlínulaga skráningu heilbrigðisfagfólks innan rafrænna sjúkraskrárkerfa. Þar skiptir hver mínúta máli þar sem áhersla er lögð á að skjólstæðingur fái viðeigandi þjónustu á sem stystum tíma. Mikilvægt er að gögn rati á rétta staði innan heilbrigðisstofnunarinnar og milli heilbrigðisstofnana, skráning sé góð og kerfið styðji við ferlið. Ég er fylgjandi því að ræða hlutina opinskátt og af hreinskilni. Það gefur mér betri sýn á hlutina, aukinn skilning og að auki svör. Svör sem oft á tíðum róa hugann, leysa ýmis vandamál og/eða koma verkefnum mínum áfram.

Það er kominn tími til að við endurhugsum hlutina í víðara samhengi. Brjótum niður veggi stofnana t.a.m. skóla, félagsþjónustunnar, heilsugæslu og heilbrigðisstofnana, nýtum þau úrræði sem eru til staðar í samfélaginu og aukum samvinnu. Straumlínulaga þarf vinnulag milli stofnana og auðvelda þarf gagnavinnslu og ferli gagna. Markmiðið er að hámarka gæði þjónustunnar.

Hverju vandamáli/verkefni fylgir áskorun og í raun tækifæri. Við eigum ótrúlega hæft fólk í okkar samfélagi. Samvinna færir okkur aukinn skilning á vandamálum/verkefnum og starfi stofnana. Samvinna bætir samskipti, eykur flæði og hámarkar afköst hvers starfsmanns. Þegar einstaklingur hvort sem hann er starfsmaður eða notandi þjónustunnar upplifir stuðning og að á hann sé hlustað, dregur það úr álagi. Upplýsingagjöf er einnig mikilvæg en með auknu gegnsæi í þjónustu þá ættu bæði skjólstæðingur og starfsmaður að hafa allar upplýsingar hjá sér. Það eykur öryggistilfinningu en hún er ein af grunnþörfum mannsins. Öryggistilfinningin gefur okkur andrými til þess að ræða okkar á milli og komast að niðurstöðu. Samræmingin og samvinnan ætti að spara okkur dýrmæta fjármuni og ekki síst það sem ég tel enn mikilvægara – minnka álag og streitu.

Velferðarráðuneytið stóð fyrir ráðstefnu nýleg um snemmtæka íhlutun í málefnum barna á Íslandi. Þar var því lýst yfir að íslenskt þjóðfélag yrði að sameinast í þessu verkefni. Á ráðstefnunni var kynnt svokallað Austurlandslíkan sem er fyrirmynd nýborgaramódels þar sem sex sveitarfélög á Austurlandi standa að. Þetta módel gengur út á aukið samstarf fagaðila, skóla heilsugæslu og félagsþjónustunnar. Við í Sjálfstæðisflokknum á Akureyri skorumst ekki undan og teljum samfélagsábyrgðina mikla, hér er tækifæri til betrunar. Í okkar stefnuskrá er áhersla á forvarnir og heilsueflandi aðgerðir í lýðheilsumálum. Við munum auka samvinnu milli ríkis og sveitarfélags og beita okkur fyrir því að efla þjónustuna og vinna markvisst að því að draga úr streitu og auka vellíðan bæjarbúa.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri og skipar 20. sæti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. erlab@sak.is

Höf.: Erlu Björnsdóttur