Tröllatök Ísak Rafnsson, Ágúst Birgisson, og Arnar Freyr Ársælsson taka vel á Kára Kristjáni Kristjánssyni
Tröllatök Ísak Rafnsson, Ágúst Birgisson, og Arnar Freyr Ársælsson taka vel á Kára Kristjáni Kristjánssyni — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Eyjum Guðmundur Tómas Sigfússon sport@mbl.is ÍBV vann fyrsta leikinn gegn FH í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik en leikurinn fór fram á laugardag.

Í Eyjum

Guðmundur Tómas Sigfússon

sport@mbl.is

ÍBV vann fyrsta leikinn gegn FH í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik en leikurinn fór fram á laugardag. Aron Rafn Eðvarðsson var frábær í markinu eins og vanalega en hann varði 20 skot, tvöfalt meira en kollegi hans, Ágúst Elí Björgvinsson, í marki gestanna.

Lykillinn að sigri ÍBV var ótrúlegur kafli liðsins í síðari hálfleik en þeir voru 14:11 undir og sneru því í 19:15, þar spilaði stemningin í stúkunni inn í dæmið. Andrúmsloftið í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja var hreint magnað á laugardaginn og þá sérstaklega á þessum kafla. Hvítu riddararnir, stuðningsmannasveit ÍBV, voru engum líkir en þeir héldu öllum á tánum allt til loka leiksins.

Fyrri hálfleikurinn var sérstakur en einungis tveir leikmenn FH-inga skoruðu mark í honum, Óðinn Þór Ríkharðsson, með sjö mörk úr tíu skotum, og Einar Rafn Eiðsson með fimm mörk, þar af tvö af vítalínunni. Óðinn var afleitur í síðari hálfleik þar sem hann skoraði einungis eitt mark úr fimm skotum. Gísli Þorgeir Kristjánsson var góður í seinni hálfleik en sást ekki í fyrri, FH-ingar þurfa meira frá honum til þess að sigra Eyjamenn.

Róbert Aron Hostert var fjarverandi í fyrri hálfleiknum og lék virkilega illa, hann stökkbreyttist þó í seinni hálfleik þar sem hann skoraði sjö mörk og var hreint magnaður. Hann var einnig með flestar stoðsendingar í leiknum, fimm talsins. Dagur Arnarsson hefur stigið mikið upp í síðustu leikjum og sýnir fólki að breiddin er góð hjá ÍBV, hann skilaði sex mörkum úr sjö skotum í leiknum.

Breidd Eyjamanna hefur komið meira og meira í ljós undanfarið en aftur á móti þurfa FH-ingar að virkja breiddina sína sem er vonandi til staðar, því annars verður þetta úrslitaeinvígi ekki skemmtilegt. Það var blóðtaka fyrir FH-inga snemma leiks þegar Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði þeirra, fór af velli meiddur, hann virðist hafa komið með þau meiðsli inn í leikinn. Vonandi fyrir hinn almenna áhugamann um handknattleik verður hann með þegar liðin mætast á ný, á þriðjudag.

FH-ingar léku virkilega vel í fyrri hálfleiknum, í vörninni, en brotnuðu gjörsamlega í þeim síðari, þegar þeir fóru að tapa boltanum í sókninni og hættu að keyra til baka niður í vörnina. Það er hægt að skrifa á þreytu þar sem leikmenn FH voru flestir að spila stóran hluta leiksins. Þrír útileikmenn FH-inga spiluðu minna en mínútu í leiknum á meðan allir útileikmenn ÍBV tóku virkan þátt í leiknum, jafnt í fyrri og síðari hálfleik.

Það er þó gaman að hugsa til þess að liðin eiga nokkra leikmenn inni, sem spiluðu ekki vel í fyrsta leik. Það verður því gaman að sjá hvað Agnar Smári Jónsson gerir í leiknum en hann skoraði einungis eitt mark úr níu skotum á laugardag.