Sigurhróp Gísli Eyjólfsson fagnar sigurmarki sínu af mikilli innlifun.
Sigurhróp Gísli Eyjólfsson fagnar sigurmarki sínu af mikilli innlifun. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Smáranum Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.is Sigurganga Breiðabliks í upphafi móts heldur áfram en liðið lagði Keflavík að velli, 1:0, í 3. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli á laugardaginn var.

Í Smáranum

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

Sigurganga Breiðabliks í upphafi móts heldur áfram en liðið lagði Keflavík að velli, 1:0, í 3. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli á laugardaginn var. Leikurinn reyndist nokkuð bragðdaufur og einkenndist af baráttu frekar en gæðum en að lokum réð glæsimark Gísla Eyjólfssonar úrslitum.

Blikar voru nokkuð léttleikandi og skemmtilegir í fyrstu tveimur umferðunum en agaðir Keflvíkingar reyndust afar erfiðir viðureignar. Það mun vera jákvætt fyrir Blika að þeir sýndu það og sönnuðu að liðið er fullfært um að vinna þessa svokölluðu „ljótu sigra“.

Keflvíkingar gáfu ekkert eftir og voru bersýnilega klárir í slaginn. Það vantaði oft herslumuninn í sóknarleik þeirra og Jeppe Hansen, sem á að skora mörkin í þessu liði, var ansi einangraður og einmana í framlínunni. Það er fátt sem bendir til annars en að Keflavík verði í fallbaráttu, en hugarfarið og baráttan sem liðið sýndi á laugardaginn er akkúrat það sem Suðurnesingar munu þurfa í stórum stíl í allt sumar til að forðast fallið sjálft.