Álftanes Svona gæti miðsvæðið litið út verði fyrirliggjandi hugmyndir að veruleika. Bessastaðir eru til hægri.
Álftanes Svona gæti miðsvæðið litið út verði fyrirliggjandi hugmyndir að veruleika. Bessastaðir eru til hægri. — Samsett mynd/Eyþór Kristleifsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Farið er fram á með undirskriftarsöfnun sem hafin er að Garðabær falli frá áformum um að heimilt verði að reisa þriggja hæða fjölbýlishús á svonefndu miðsvæði á Álftanesi, eins og tillaga að deiliskipulagi sem kynnt var nýlega gerir ráð fyrir. Þess í stað er farið fram lágreista byggð, helst einnar hæðar og í mesta lagi tveggja hæða húsa, en sá er svipur aðliggjandi byggðar í Suðurtúni, Skólatúni og Kirkjubrekku. Eyþór Kristleifsson, íbúi á Álftanesi, stendur fyrir söfnun undirskriftanna, sem í gær voru orðnar um 100 talsins. Undirskriftasöfnunin stendur út júnímánuð.

Andspænis Bessastöðum

Viðhorf Eyþórs er að þriggja hæða fjölbýlishús á áðurnefndum stað, sem er á vinstri hönd þegar ekið er inn í byggðina á Álftanesi og beint andspænis Bessastöðum, byrgi fyrir útsýni íbúa í aðliggjandi byggð. Því fylgi rýrnun á virði fasteigna á svæðinu og skerði jafnframt lífsgæði, enda feli tillögur Garðabæjar í sér verulega breytingu á hæðarlínu byggðarinnar á svæðinu.

Ætlunin er að reist verði níu fjölbýlishús á svæðinu sem í dag er beitiland fyrir hesta auk þess sem mikið fuglalíf er á svæðinu. „Það ríkir óánægja meðal íbúa á svæðinu með þessi áform; breytingar sem munu hafa umtalsverð áhrif á ásýnd byggðarinnar,“ sagði Eyþór í samtali við Morgunblaðið og bætir við:

„Sú byggð sem þarna stendur til að reisa er til frambúðar og mun um ókomna tíð blasa við öllum gestum Bessastaða, svo sem erlendum þjóðhöfðingjum. Þetta varðar því ekki aðeins ímynd Álftaness heldur jafnframt ímynd Bessastaða og Íslands. Manni er auðvitað spurn hvort bæjarstjórn Garðabæjar ætli sér virkilega að reisa minnisvarða um húsnæðisskortinn 2018 beint á móti Bessastöðum.“

Umferð einkabíla mun aukast

Hugmyndir um þéttingu byggðar á Álftanesi segir Eyþór að eigi ekki við og bendir í því sambandi á að í byggðinni sé hvorki verslun né þjónusta. Íbúar verði að sækja allt slíkt í Hafnarfjörð eða á miðbæjarsvæðið í Garðabæ og þangað séu um fimm kílómetrar.

Þessi spotti verði ekki farinn öðruvísi en á einkabíl, það er um þá einu leið sem á Álftanes liggur enda séu almenningssamgöngur þar götóttar. Jafnframt séu á henni flöskuhálsar sem geti valdið höfum. Verði á svæðinu reist fjölbýlishús með alls 380 íbúðum muni það ganga gegn öllum viðteknum hugmyndum um að draga úr umferð einkabíla. Fyrrgreindur íbúafjöldi muni sennilega leiða til þess að bílum íbúa á Álftanesi muni fjölga um 600 til 800. Eyþór minnir á í erindi sem hann hefur sent bæjaryfirvöldum í Garðabæ vegna þessa að umtalsvert dýrara sé fyrir sveitarfélög að þétta byggð á svæðum eins og Álftanesi vegna samgangna; það er uppbyggingu vega og viðhalds þeirra. Nú þegar virðist bæjarfélagið eiga í vanda með að sinna eðlilegu viðhaldi á vegum á þessum slóðum. Því eigi Garðabær að einbeita sér að þéttingu byggða á þeim svæðum í sveitarfélaginu þar sem hagrænir hvatar til slíks séu til staðar.

Tillögurnar sem fyrir liggi séu sömuleiðis ekki líklegar til þess að auka verðmæti eigna á Álftanesinu, heldur þvert á móti. Allra hagur sé að því sé áfram strjálbýlt, en á svæðinu búa í dag um 2.700 manns.