Gægst inn um glugga Halla Kristín og Auður Ösp gægjast inn um gluggana.
Gægst inn um glugga Halla Kristín og Auður Ösp gægjast inn um gluggana. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Smáhúsavinnustofur fyrir börn hafa annað slagið skotið upp kollinum í Hönnunarsafni Íslands og víðar. Forsprakkarnir eru Auður Ösp Guðmundsdóttir og Halla Kristín Hannesdóttir vöruhönnuðir.

Smáhúsavinnustofur fyrir börn hafa annað slagið skotið upp kollinum í Hönnunarsafni Íslands og víðar. Forsprakkarnir eru Auður Ösp Guðmundsdóttir og Halla Kristín Hannesdóttir vöruhönnuðir. Á námsárunum byrjuðu þær að byggja smáhús fyrir alls konar fólk, sem var þeim með öllu óviðkomandi og svolítið sér á parti.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Þótt vinkonurnar og vöruhönnuðirnir Auður Ösp Guðmundsdóttir og Halla Kristín Hannesdóttir byggju til skamms tíma sitt hvorum megin á hnettinum, sameinuðust þær um að skapa alls konar fólki heimili við hæfi. Ímynduð heimili að vísu, en hönnuð fyrir alvörufólk úti um allan heim, sem þær þekktu ekki hætishót en höfðu lesið um og þótti skemmtilega sérviskulegt. Það batt ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir eins og sagt hefði verið í gamla daga.

Þær stöllur hófu að setja myndir og frásagnirnar af lífsmáta þessa fólks á vef sem þær einar höfðu aðgang að og smám saman fóru þær að skiptast á hugmyndum um heppilega hluti og heimili fyrir þetta fólk. Og skemmtu sér konunglega.

„Þessi iðja okkar varð kveikjan að því að við hófum í sameiningu að byggja smáhús og agnarsmá húsgögn og húsbúnað eins og okkur fannst henta íbúunum, sem við gáfum okkur að byggju í húsunum,“ segir Auður Ösp og útskýrir nánar:

Smáhús fyrir skrýtinn karl

„Við byggðum til dæmis smáhús fyrir karl, sem ég las um og vann hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem hann klæddist alltaf stöðluðum og leiðinlegum jakkafötum. Heima hjá sér gerði hann sér það helst til dundurs að sauma á sig fatnað úr húsgagnaáklæði og skrýddist slíkum flíkum alltaf nema í vinnunni.“

Áhöld kunna að vera um hvort athæfið sé skrýtnara, karlsins hjá SÞ eða þeirra Auðar Aspar og Höllu Kristínar. En þær kærðu sig kollóttar. Auður Ösp var á þessum árum í meistaranámi í leikmynda- og búningahönnun í Tékklandi og Halla Kristín í meistaranámi í hönnun í Sydney í Ástralíu. Þær eru svo til nýkomnir heim, starfa báðar sjálfstætt, meðal annars við kennslu og hafa hvor um sig sinnt ýmsum verkefnum á sínu sviði og hafa nóg að gera. Áhuginn á smáhúsum með tilheyrandi smámunum er þó enn fyrir hendi og saman hafa þær haldið vinnustofur fyrir börn sem vilja gera lítil hús í Hönnunarsafni Íslands og víðar.

„Þau hús eru af allt öðrum toga en við byggðum þegar við vorum báðar staddar á landinu og sýndum á Hönnunarmars fyrir nokkrum árum. Þá bjuggum við allan húsbúnað til á staðnum og létum þannig eins og fólkið væri að flytja inn og koma sér fyrir í húsunum sínum,“ segir Auður Ösp. Á sýningunni tefldu þær fram fimm eintökum af númeruðum smáhúsum úr viðarplötum, sem öll stóðu á mahónífótum og voru þrjár hæðir og ris. Svona álíka stórt og vænt hefðbundið dúkkuhús. Einnig byggðu þær þrjú minni hús eins og þær eru enn að þróa og framleiða í smáum stíl.

Dúkkuhús verða furðuskrín

Sem vöruhönnuðir eru þær vanar að vinna módel af öllu mögulegu í smækkaðri mynd, en þó ekki jafn agnarsmárri og húsbúnaðurinn í smáhúsin. „Maður er auðvitað miklu frjálsari að búa til smáútgáfur af hlutunum heldur en að vinna þá í eðlilegri stærð. Lítið mál að snara upp innréttingum í herbergi á einum degi ef það er bara 20 fersentímetrar og búa það ýmsum smámunum samkvæmt þörfum og smekk þeirra sem við ímynduðum okkur að eigi herbergið. Stóru húsin sáum við meira fyrir okkur sem dúkkuhús, sem eigendurnir gætu síðar meir notað sem skrín fyrir ýmsa hluti sem þeim eru kærastir í lífinu. Nokkurs konar furðuskrín eða safngripir.“

Smáhúsin, sem þær kenna krökkum og fjölskyldum þeirra að setja saman og innrétta á vinnustofunum draga að mörgu leyti dám af fyrrnefndu húsunum fimm. Enda leiddi eitt af öðru í smáhúsagerð vinkvennanna.

Nammibarinn og sköpunargáfan

„Við mætum til leiks með nammibarinn okkar, eins og við köllum efniviðinn, sem samanstendur af þremur tilsniðnum veggjum og gólfi auk húsgagna, tilsniðinna borð- og stólfóta, timburs, tannhjóla, víra, textíls, og alls konar dóts til að prýða herbergin. Oftast hafa krakkarnir frjálsar hendur, en stundum felum við þeim að innrétta herbergi fyrir ákveðna manngerð, til dæmis uppfinningamanneskju, sem gæti hafa fundið upp hina fullkomnu kleinu eða hvað annað sem væri. Verkefnin fara alveg eftir hópunum sem koma á námskeiðin,“ segir Auður Ösp.

Gluggarnir í smáhúsunum eiga sér fyrirmyndir því þeir eru gerðir eftir ljósmyndum sem vinkonurnar tóku á ferðum sínum um Vesturbæ Reykjavíkur og Hlíðarnar áður en þær héldu utan í meistaranámið. Áhuginn á hinu smáa hefur nefnilega lengi blundað í þeim – og blundar enn. „Við höfum ekki auglýst smáhúsavinnustofurnar, en svörum kalli þegar við getum. Garðabær hefur til dæmis fengið okkur til að halda vinnustofur fyrir börn í vetrarfríi, en þær henta mjög vel fyrir tíu ára börn og eldri. Betra er að þau yngri komi í fylgd með foreldrum sínum, sem oft hafa ekki síður gaman af að spreyta sig. Þroska sköpunargáfuna og eiga góða stund með börnum sínum.“