Píratar í Reykjavík Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borginni.
Píratar í Reykjavík Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borginni. — Morgunblaðið/Eggert
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Efst á stefnuskrá Pírata í Reykjavík er að verða málsvarar ungs fólks og að auka lífsgæði ungs fólks.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Efst á stefnuskrá Pírata í Reykjavík er að verða málsvarar ungs fólks og að auka lífsgæði ungs fólks. Í stefnuskrá flokksins, sem kynnt var fyrir helgi í Petersen-svítunni, segir að ungt fólk hafi vantað málsvara og hafi sumir flokkar „beinlínis verið í stríði gegn ungu fólki“.

Píratar vilja að Reykjavík verði samkeppnishæf við stórborgir nágrannalandanna svo ungt fólk yfirgefi ekki landið til frambúðar. Til þess að ná þessu markmiði ætla þeir m.a. að fjölga stúdentaíbúðum og gera vistvænni ferðamáta að raunverulegum valkosti. „Ungt fólk tekur sjaldnar bílpróf en áður og vill geta tekið strætó og notið nærþjónustu í hverfunum. Það er dýrt að reka bíl og skipulag borgarinnar á forsendum einkabílsins er á forsendum eldri kynslóða.“ Þá vilja Píratar einnig að kosningaaldurinn verði lækkaður í 16 ár á sveitarstjórnarstigi og að sálfræðiþjónusta verði aðgengileg í skólum.

Skipulagt húsnæði fyrir alla

Þá ætlar flokkurinn að leita allra mögulegra leiða til að taka á bráðavandanum á byggingarmarkaði og tryggja húsnæði á viðráðanlegu verði. „Við leggjum áherslu á stöðugleika á byggingarmarkaði, að auka framleiðni og styðja við iðnnám. Píratar hafa lagt hornstein í stjórnsýslu Reykjavíkur á líðandi kjörtímabili sem styttir boðleiðir, rafvæðir ferla og skilar okkur skilvirkari stjórnsýslu fyrir alla borgarbúa, líka uppbyggingaraðila.“

Segist flokkurinn ætla að skipuleggja húsnæði fyrir alla aldurs- og félagshópa innan áhrifasvæðis borgarlínu og skapa þannig nútímalega og spennandi menningarborg. Verður skipulagt húsnæði fyrir stúdenta, ungt fólk, eldri borgara, félagslegar íbúðir og leiguíbúðir í tengslum við borgarlínu.