Pálmi Stefánsson
Pálmi Stefánsson
Eftir Pálma Stefánsson: "Innlend lífdísilolía yki þjóðarkökuna og mikill akkur í að losna við baneitraða jarðdísilolíu og laga kolefniskvótann um leið."

Fyrir 10 árum var ég með í að kanna hvort rækta mætti vetrarrepju og nepju hér á landi og vinna jurtaolíu úr fræjunum til framleiðslu á lífdísilolíu sem kæmi í stað jarðolíu fyrir fiskiskipin. Verkefnið var þríþætt: ræktun og uppskera, þresking og vinnsla jurtaoliu og fóðurs úr fræjunum og svo umestrun jurtaolíunnar með metanóli. Niðurstöður tilraunanna voru gefnar út 2010 af Umhverfisstofnun sem hafði veg og vanda af þessu. Skýrsluna má sjá á netinu: bond.lbhi.is/lisalib/getfile.aspx?heimild=4646. Vetrarafbrigði og nepja hentuðu vel til ræktunar einkum á Suðurlandi og var fræmagn jafnt eða meira en þar sem ræktun er annarsstaðar í Evrópu. Þresking tókst líka vel og pressun olíu úr fræjum í litlum mæli tókst með ágætum, þau innihéldu allt að 40% olíu og svo hratið eða afgangur fræjanna sem er ágætis dýrafóður.Yfir 3 t CO 2 gróðurhúsalofttegundarinnar koma frá hverju tonni innfluttrar jarðolíu sem brennd er. Þetta er því gjaldeyrissparandi og atvinnuskapandi framkvæmd og renndi fleiri stoðum undir landbúnað og iðnað. Hér er reiknað með 3 t fræja af hektara og er þá bundið um 6 t CO 2 úr andrúmsloftinu, helmingur í jurtaolíunni og restin í hratinu eða fóðurmjölinu. Þá er ótalinn sá hluti sem binst í stöglum og rótum en alls gæti þetta orðið 11,5 t CO 2 binding á hektara. Hér er gengið út frá að fengjust 860 kg jurtaolíu, 1.875 kg fóðurs og 5.600 kg lífmassa af einum hektara með lotuvinnslu. Með útleysingu jurtaolíunnar með t.d. hexan-leysi mætti auka olíumagnið í allt að 1.145 kg af hektara sem hentaði stærri framleiðslueiningum fyrir lífdísil. Þá gefur kaldpressuð repjuolía ekkert eftir hollustu ólífuolíu í matargerð en markaður er bara 1-2000 t hérlendis.

Lífdísill er hreint, óeitrað og óeldfimt lífrænt efni. Það brotnar niður í náttúrunni á 2-3 vilkum og er skaðlaust gróðri og dýrum. Þá mengar það ekki jarðvatn eða jarðveg og er ekki hættulegur farmur í flutningum. Sem eldsneyti er yfir 80% minna útslepp krabbmeinsvaldandi efna borið saman við hefðbundið jarðdísil. Bara NOx lofttegundir eru þó um 10% meiri (oxun niturloftsins í brunahólfi vélarinnar). Þar sem nær ekkert er af brennisteini í repjulífdísil er unnt að nota hefðbundna tækni óbreytta til að fjarlægja NOx gösin. Lífdísilolía er talin hafa 30% meiri smureiginleika i dísilvélum en jarðdísill. Um 10% meira magn þarf þó af lífdísilolíu til að fá söma varmaorku og úr jarðdísil. Geyma má lífdísilolíu í sömu tönkum og jarðdísil en forðast skyldi snertingu við eir, blý, tin, sink auk gúmmís en teflon hentar vel.

Með því að losa fitusýrurnar frá glýserólinu og estra þær með metanóli sem kallast þá RME (repjumetanólestrar) lækkar seigja jurtaolíunnar tífalt og blossamark um 100°C og því unnt að nota beint á dísilvélar í stað jarðolíu eða blanda í jarðdísilolíu í öllum hlutföllum. Eina vandamálið með lífdísil er að undir frostmarki á 100% lífdísil (B100) til að mynda útfellingar sem geta stíflað síur og þarf hitun olíunnar eða íblöndunarefni til að losna við þetta. Þetta er þó ekki vandamál með blöndur lífdísilolíu og jarðolíu.

Iðnaðarframleiðsla getur verið einfalt og ódýrt lotuferli við minni framleiðslu eða stórt alsjálfvirkt ferli. Um 10% glýseról fellur til við estrunina og má breyta í því í metanól með vetni. En ýmis not eru önnur fyrir glýseról, m.a. blöndun í dýrafóður eða í sápu . Er því um mjög hreina vinnslu að ræða. Þá má nota etanól, ísóprópanól eða bútanól í stað metanóls ef ódýrara og losna við metanólið. Við lotuferli er hvatinn einota kalí- eða natríumlútur en „eilífðarhvati“ við samfellt ferli. Heimsframleiðslan er orðin yfir 70 milljón tonn og stærst eru Kína og Kanada, nánast jafnstór með um 50% en 11 Evrópulönd með um 36% og restin svo Indland, Ástralía og BNA. Hér er því stórkostlegt tækifæri sem hrinda mætti í framkvæmd og tryggja umhverfisvænan orkugjafa á dísilvélar til frambúðar.

Höfundur er efnaverkfræðingur.