[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Börk Gunnarsson: "Á einu ári, frá árinu 2016 til 2017, jókst tala þeirra sem voru óstaðsettir í hús úr 425 í 553. Það er fjölgun um 128 á einu ári."

Ljóst er að vandi utangarðs og/eða heimilislausra hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Langflestir þeirra eru í Reykjavík. Það var gerð kortlagning á vandamálinu 2012 og aftur 2017. Meginniðurstöður kortlagningarinnar árið 2017 eru að fjölgað hefur í hópi þeirra sem teljast utangarðs og/eða heimilislausir. Fjölgunin á milli 2009 og 2012 var 45%. Fjölgunin á milli 2012 og 2017 var 95%.

95% aukning er alltof hátt og þarf Reykjavíkurborg að beina sjónum sínum að þessum vanda, skilja hvað veldur og taka á því.

Á einu ári, frá árinu 2016-2017 jókst tala þeirra sem voru óstaðsettir í hús úr 425 í 553. Það er fjölgun um 128 á einu ári. Aðeins hluti þeirra er samt á götunni. Inni í þessum tölum eru til dæmis einnig þeir sem eru í gistiskýlum eða á svipuðum stofnunum.

Í framhaldi af umræðum á Alþingi árið 2004 var stofnaður samráðshópur til að skilgreina heimilisleysi og árið 2005 skilaði hann eftirfarandi skilgreiningu:

„Húsnæðislaus er sá sem ekki hefur aðgang að hefðbundnu húsnæði, hann hefur ekki húsaskjól að staðaldri á sama stað og gistir þar sem kostur er hverja nótt, þar með talið í gistiskýli, á gistiheimili eða inni á öðru fólki. Þeir sem koma úr tímabundnu húsaskjóli, svo sem úr fangelsi eða úr vímuefnameðferð, eiga sögu um margháttaða húsnæðis- og félagslega erfiðleika og eiga ekki tryggt húsaskjól einum til tveimur mánuðum áður en þeir fara úr hinu tímabundna húsnæði, eru taldir hér með“ (Félagsmálaráðuneytið, 2005).

Helsti vandi þeirra sem eru utangarðs og/eða heimilislausir er ofneysla áfengis og/eða annarra vímuefna og geðrænn vandi.

Stærsti hópurinn í þessum tölum býr við ótryggar aðstæður, en samt eru hátt í hundrað á götunni og á annað hundrað í gistiskýlum.

Athuga ber að annmarkar eru á þessum rannsóknum og upplýsingarnar ekki tæmandi um hagi utangarðsfólks og/eða heimilislausra. En ljóst er að vandamálið hefur vaxið gríðarlega frá árinu 2009.

Höfundur er 1. varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Börk Gunnarsson