Geir Þorsteinsson
Geir Þorsteinsson
Eftir Geir Þorsteinsson: "Þessi hækkun um 57 milljónir króna á ári frá 2014 til 2017 til 11 manna telst væntanlega óhófleg á öllum almennum mælikvörðum og telja verður að hún endurspegli ranga forgangsröðun bæjarfulltrúa."

Miðflokkurinn leggur áherslu á betri rekstur, aðhald og skynsamlega nýtingu fjármuna Kópavogsbæjar í stefnu sinni í komandi sveitarstjórnarkosningum en þó með skýra sýn á forgangsröðun ákveðinna málefna, sérstaklega þegar kemur að fjölskyldum með ung börn. Það vekur athygli að laun kjörinna bæjarfulltrúa og bæjarstjóra hafi á yfirstandandi kjörtímabili hækkað um 75% skv. ársreikningum bæjarins, en það er mesta hækkun launa á því kjörtímabili meðal sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Álykta má af þessari hækkun að bæjarfulltrúar í Kópavogi sinni verkefnum sínum því í fullu starfi. Á skrifstofum Kópavogsbæjar starfa um 150 manns sem framfylgja stefnu bæjarstjórnar undir stjórn bæjarstjóra. Svo öflug starfsemi kallar varla á að bæjarfulltrúar sem sinna stefnumótun auki starfsgildi sitt.

Skref í átt að betri og hagkvæmari rekstri væri að endurskoða 75% hækkunina til 11 manna en laun þeirra með launatengdum gjöldum fóru úr 76 milljónum króna árið 2014 í 133 milljónir króna árið 2017. Ef gert er ráð fyrir að laun og launatengd gjöld bæjarstjóra hafi verið á fjórða tug milljóna króna á starfsárinu 2017, má sjá að aðrir bæjarfulltrúar hafi fengið að meðaltali tæplega 10 milljónir króna í árslaun 2017 og þá eru líklega ekki talin með laun fyrir setu í sumum nefndum. Þessi hækkun um 57 milljónir króna á ári frá 2014 til 2017 til 11 manna telst væntanlega óhófleg á öllum almennum mælikvörðum og telja verður að hún endurspegli ranga forgangsröðun bæjarfulltrúa. Þeir hafi einfaldlega brugðist þeirri skyldu að ganga fram með góðu fordæmi og fara vel með fjármuni almennings. Með því að draga til baka a.m.k. fjórðung þessarar hækkunar á launum bæjarfulltrúa og bæjarstjóra má spara a.m.k. 150 milljónir króna á næstu fjórum árum komandi kjörtímabils. Fái Miðflokkurinn brautargengi í komandi kosningum mun hann leggja fram tillögu í bæjarstjórn um að launin verði lækkuð auk þess að öll laun bæjarfulltrúa og nefndarmanna verði birt opinberlega jafnhliða ársreikningi ár hvert. Til að ná árangri í fjármálum Kópavogsbæjar þurfa bæjarfulltrúar að ganga á undan með góðu fordæmi og þóknanir þurfa að vera gagnsæjar. Skilgreina þarf vel starfshlutfall bæjarfulltrúa og miða við t.d. ákveðin flokk reiknaðs endurgjalds skv. ákvörðun ríkisskattsjóra eða meðallaun starfsmanna Kópavogsbæjar frá fyrra ári. Gott væri að bæjarstjórn birti skýringu á þessum upphæðum fyrir komandi kosningar til að auka gagnsæi og koma í veg fyrir misskilning, sé hann til staðar, en erfitt er að greina þessar tölur án þess. Þetta eru einfaldlega það háar upphæðir að bæjarbúar eiga rétt á skýringum.

Höfundur skipar 1. sæti á framboðslista Miðflokksins í Kópavogi.

Höf.: Geir Þorsteinsson