Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir
Eftir Karenu Elísabetu Halldórsdóttur: "Til lengri tíma eru fyrirbyggjandi inngrip í lýðheilsu mjög árangursrík. Það að lifa betra og heilsusamlegra lífi er eftirsóknarvert."

Það er sameiginlegt markmið samfélagsins að halda fólki hraustu og öflugu. Við viljum að eldri borgarar geti búið heima eins lengi og vilji er fyrir. Tímabil hinna gullnu ára verður sífellt lengra og hópurinn sem því nær stækkar með hverju árinu. Í dag telur þessi hópur rúmlega 42 þúsund einstaklinga og ef miðað er við mannfjöldaspá til ársins 2033 mun þessi hópur verða tæplega 69 þúsund. Beinn efnahagslegur kostnaður af dvöl eldri borgara á stofnunum í dag er 50,6 milljarðar á ári og mun aukast um 61% á næstu 15 árum.

Við eigum öll að leggjast á árarnar til þess að fjölga hjúkrunarrýmum og stytta biðlista eftir dagþjónustu en það er fleira sem sveitarfélag eins og Kópavogur getur gert til þess að bæta líðan og heilsu eldri borgara og um leið dregið úr efnahagslegum kostnaði samfélagsins við dvalarrými. Það er áleitin spurning að í stað þess að bregðast í sífellu við einkennum og sjúkdómum sem mætti draga úr eða jafnvel koma alfarið í veg fyrir, ættum við að stórauka og efla verkefni sem viðhalda heilbrigði langt fram eftir aldri.

Til lengri tíma eru fyrirbyggjandi inngrip í lýðheilsu mjög árangursrík. Það að lifa betra og heilsusamlegra lífi er eftirsóknarvert fyrir einstaklinginn og dregur úr þrýstingi á almenn útgjöld til heilbrigðismála.

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi ætlar að innleiða íþróttastyrki til eldri borgara ásamt því að skoða fjölþætt heilsueflandi verkefni. Fyrirmynd af slíkum verkefnum má finna t.d. í Hafnarfirði og Reykjanesbæ. Árangur af slíkum verkefnum er ekki eingöngu mældur í þörfinni á minni aðstoð heima fyrir heldur einnig í öflugri einstaklingum sem halda sér virkum og hraustum mun lengur en ef ekki væri um slík skipulögð inngrip í heilsufar þeirra að ræða.

Geðheilbrigði áskorun 21. aldarinnar

Það er ljóst að þjóðfélagið þarf að bregðast við auknu þunglyndi, kvíða, ótta og jafnvel í sömu andrá aukinni notkun vímuefna ásamt því sífellt fleiri taka sitt eigið líf með óbætanlegum afleiðingum fyrir þá sem sitja eftir. Aukin lyfjanotkun er staðreynd og það er hávært kall um að betur þurfi að hugsa um þá sem eiga við geðrænan vanda að stríða. Við greinum þennan vanda og sem sveitarfélag finnum við hann helst innan menntakerfisins og velferðarsviðsins.

Hvernig getum við sem sveitarfélag brugðist við þessari válegu aukningu í vanlíðan í samfélaginu? Horfa þarf til forvarna, fræðslu og meðferðarúrræða. Auka þarf sálfræðistuðning innan skólanna ásamt því að það þarf að efla snemmtæka íhlutun innan leikskólanna er vanda verður vart. Athyglisvert væri jafnvel að innleiða hugleiðslukennslu um núvitund innan skólanna í upphafi dags. Það er mikið álag á ungu fólki í dag og stafrænn heimur verður til þess að viðbragðstími okkar við öllu áreiti styttist sífellt með tilheyrandi hraða.

Það er hins vegar sífellt ljósara að heilbrigðiskerfið nær ekki að taka utan um alla þá sem þjást og því hefur þörfin sífellt vaxið fyrir frjáls félagasamtök til stuðnings þeim sem eiga um sárt að binda. Hér sem dæmi eru nefnd örfá s.s. Hugarafl, Hugarfrelsi, Pieta, Geðhjálp, Klúbburinn Geysir og Stígamót.

Slík samtök hafa átt undir högg að sækja með húsnæði og hafa mörg þeirra fengið utanaðkomandi mikilvægan styrk frá fyrirtækjum eða hinu opinbera til þess að starfa áfram að málefnum um bætta líðan og stuðning til almennings.

Hressingarhælið á Kópavogstúni var vígt og byggt 1926 fyrir tilstuðlan Hringskvenna sem vildu láta gott af sér leiða fyrir sitt samfélag. Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni og hafa staðið yfir undanfarin ár framkvæmdir við endurnýjun á þessu merka húsi sem var friðað í október 2012. Við í Sjálfstæðisflokknum sjáum fyrir okkur að innan veggja Hressingarhælisins mætti opna nýja geð- og lýðheilsumiðstöð. Þannig væri þessu húsi mikill sómi sýndur vegna sögu þess og upphaflegs tilgangs. Slík geð- og lýðheilsumiðstöð myndi veita félagasamtökum skjól um leið og þau myndu geta aðstoðað okkur, ásamt því að stunda sinn rekstur, innan mennta- og velferðarkerfisins við að halda betur utan um fræðslu, forvarnir og almennan stuðning við þá sem til okkar leita og þurfa aukna leiðsögn. Samstarfsverkefni þar sem sveitarfélag útvegar öruggt húsnæði um leið og það veitir frjálsum félagasamtök tækifæri á því að geta haldið áfram að efla og bæta geðheilbrigði og lýðheilsu væri öllu samfélaginu í hag og afar áhugavert í framkvæmd.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Kópavogi. karen.halldors@kopavogur.is