Sigurmarkið Sanne Troelsgaard skorar sigurmarkið gegn Linköping með skalla og Glódís Perla Viggósdóttir er tilbúin fyrir aftan hana.
Sigurmarkið Sanne Troelsgaard skorar sigurmarkið gegn Linköping með skalla og Glódís Perla Viggósdóttir er tilbúin fyrir aftan hana. — Ljósmynd/Rosengård
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svíþjóð Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is „Það var mjög sætt að vinna þennan bikarmeistaratitil og þetta var verðskuldað. Við vorum sterkari aðilinn í þessum leik og áttum sigurinn skilinn.

Svíþjóð

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Það var mjög sætt að vinna þennan bikarmeistaratitil og þetta var verðskuldað. Við vorum sterkari aðilinn í þessum leik og áttum sigurinn skilinn. Leikirnir á móti Linköping eru alltaf stórir og jafnir, það var þess vegna gaman að klára þennan leik og það er virkilega ánægjulegt hversu vel okkur gengur þessa dagana,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og nýkrýndur bikarmeistari í Svíþjóð, í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Það myndaðist mjög góð stemning á vellinum og það voru um 1.200 manns sem mættu á leikinn sem er töluvert meira en vanalega hjá okkur. Þetta er auðvitað öðruvísi reynsla, samanborið við Ísland þar sem bikarúrslitin eru spiluð á óháðum velli og það er alltaf skrítið að spila bikarúrslitaleik á heimavelli annars hvors liðsins. Það er erfitt að bera þetta saman við Ísland, þetta er ekki jafn stór leikur hérna úti og fyrir mitt leyti þá er skemmtilegra að spila bikarúrslitaleik á Íslandi. Í fyrra fór leikurinn fram á heimavelli Linköping og það var skrítið að taka titilinn þar, það var ekki mikið partí í leikslok. Það var hins vegar mun skemmtilegra að vinna bikarinn um helgina á okkar heimavelli, fyrir framan okkar stuðningsmenn og að geta fagnað með þeim í leikslok var auðvitað rúsínan í pylsuendanum.“

Jafnari deild en annars staðar

Rosengård hefur farið vel af stað í sænsku úrvalsdeildinni og situr í öðru sæti deildarinnar með 10 stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar, tveimur stigum minna en Piteå sem er á toppnum.

„Sænska deildin hefur það fram yfir aðrar deildir að allir leikir í deildinni eru tiltölulega jafnir. Þetta er jöfn deild og það geta öll liðin hérna tekið stig hvert af öðru, ólíkt til dæmis frönsku og þýsku deildinni þar sem þú ert með lið sem eru mun sterkari en lakari liðin í deildinni.

Við sem lið settum okkur markmið í febrúar, þegar tímabilið hófst, að bæta okkur í hverjum leik og við höfum gert það. Það er góð harmonía í liðinu sem hefur fylgt okkur inn í leikina og fólk hefur talað um það hérna í Svíþjóð að þetta sé eitthvað sem hefur vantað inn í lið Rosengård, undanfarin ár og það er ótrúlega gaman að vera þátttakandi í þessari endurkomu félagsins.“

Allt í uppnámi í fyrra

Glódís viðurkennir að fyrstu mánuðir hennar hjá félaginu hafi verið henni erfiðir en hún samdi við Rosengård í júlí í síðasta ári þegar EM í Hollandi var í fullum gangi.

„Ég kom til félagsins á mjög skrítnum tíma, á miðju tímabili og gengið var ekki búið að vera gott og það var ósætti með þjálfarann hérna. Hann var svo látinn fara mánuði síðar og aðstoðarþjálfarinn tekur við og allt í einhverju uppnámi. Það voru margir leikmenn sem yfirgáfu svo félagið í lok tímabilsins og þetta var allt saman mjög skrítið og ég hef aldrei upplifað svona hluti áður á mínum ferli. Það er þess vegna gaman að upplifa þennan viðsnúning hjá félaginu, það kemur nýr þjálfari hérna inn með mikinn kraft og liðið er mjög samstillt núna og með skýr markmið og þetta er allt miklu skemmtilegra núna.“

Erfitt að vinna þær svona stórt

Rosengård vann stórsigur á Eskilstuna, fyrrverandi félagi Glódísar í 3. umferð deildakeppninnar, og viðurkennir varnarmaðurinn að það hafi verið erfitt að vinna gamla liðsfélaga sína með níu mörkum gegn engu.

„Það er alltaf gaman að vinna fótboltaleiki en á sama tíma var erfitt að vinna gömlu liðsfélagana, sérstaklega svona stórt. Við vorum mjög góðar í þessum leik á meðan þær náðu aldrei neinum takti í sína spilamennsku en eins og við ræddum eftir leikinn þá verður þetta ekki svona næst þegar við spilum við þær enda eru þær með gott lið og þessi úrslit gefa ekki rétta mynd af getustiginu á milli þessara tveggja liða.“

Snýst um Meistaradeildina

Rosengård hefur ekki riðið feitum hesti í Meistaradeildinni á undanförnum árum og hefur félagið aldrei náð að komast alla leið í úrslitaleik keppninnar.

„Allt í kringum félagið í dag snýst um það að ná árangri í Meistaradeildinni og að við getum staðið í þessum stóru liðum sem spila í keppninni. Þjálfarinn er mjög innstilltur á það að ná árangri í Meistaradeildinni og þegar það verður dregið í haust þá viljum við vera á þeim stað að okkur sé í raun nokkuð sama hvaða andstæðing við fáum í keppninni því við teljum okkar eiga góða möguleika á móti öllum þessum liðum. Liðið var í molum þegar við mættum Chelsea í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð og við áttum ekkert skilið út úr þeirri viðureign. Við vorum á slæmum stað og þær voru mun betri en við og áttu sigurinn skilinn. Það væri hins vegar gaman að mæta þeim aftur í ár og sjá þá hvar við stöndum þar sem við teljum okkur eiga fullt erindi í þær eins og staðan er í dag.“

Lengi að jafna mig eftir EM

Gengi Íslands á EM í Hollandi olli miklum vonbrigðum og segir Glódís að mótið hafi setið lengi í henni.

„Undir lokin hjá Eskilstuna fann ég að mér gekk ekki eins og vel og ég hefði viljað. Ég segi það bara hreint út, ég var mjög lengi að jafna mig eftir EM þar sem okkur gekk ekki vel eins og alþjóð veit. Mótið sat lengi í mér og þegar ég kem til Rosengård þá er ég ekki á góðum stað. Ég kem inn í nýtt lið á miðju tímabili þar sem voru aðrar áherslur. Ég náði mér einhvern veginn aldrei á strik þannig að ég þurfti aðeins að taka mig saman í andlitinu og ég gerði það. Ég setti mér ný markmið um jólin og það hefur gengið mjög vel hjá mér síðan þá.“

Þurfum að vera í besta standi

Það er nóg framundan hjá íslenska kvennalandsliðinu á næstu mánuðum en liðið á góða möguleika á því að tryggja sér sæti á HM í Frakklandi næsta sumar.

„Ég veit alltaf af þessum leikjum og þetta gætu orðið mjög stórir leikir í september, ef við klárum Slóveníu í júní. Það skiptir máli að standa sig vel með sínu félagsliði og ég er alltaf með það á bak við eyrað að ef ég stend mig vel með Rosengård mæti ég full sjálfstrausts í landsleikina. Við þurfum allar að vera í okkar besta standi ef við ætlum að fá eitthvað út úr þessum leikjum og lykillinn að því er að standa sig vel með sínu félagsliði. Þetta verða tveir hörkuleikir en við vitum jafnframt að við getum unnið Þýskaland, við höfum gert það núna og það hjálpar vissulega mikið fyrir svona mikilvægan leik.“

Held alltaf með HK/Víkingi

Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu hófst í byrjun maí og telur Glódís að nýliðar HK/Víkings, sem er hennar uppeldisfélag, muni koma á óvart í deildinni í sumar.

„Ég reyni að fylgjast vel með deildinni heima, sérstaklega þessum stóru leikjum. Það er gaman að sjá þessar ungu og efnilegu stelpur fá tækifæri, ég var sjálf mjög ung þegar ég fékk mína eldskírn. Það er frábært fyrir þær að reyna sig í hæsta gæðaflokki og þetta er líka mjög jákvæð þróun fyrir deildina og ég tel að þetta muni bara gera hana jafnari. Ég held alltaf með HK/Víkingi og það væri frábært ef þær ná að halda sér uppi. Þær eru með mjög flott lið núna. Þær eru með margar uppaldar stelpur í bland við eldri og reyndari leikmenn og ég held að þær muni gera góða hluti í sumar. Það eru ekki margir sem hafa trú á þeim en ég held að þær verði mjög flottar.“

Vil taka stærra skref

Glódísi líður vel í Svíþjóð en er þó spennt fyrir því að reyna fyrir sér í stærri deild, síðar á ferlinum.

„Ég er sátt hjá Rosengård eins og staðan er í dag. Ég vil eiga gott tímabil hérna og halda áfram að bæta mig sem leikmaður en ef ég horfi fram í tímann þá vil ég auðvitað gera betur og taka stærra skref einhverntímann á ferlinum og spila í stærri deild.

Mér líður ótrúlega vel í Malmö. Það er frábært að búa hérna og veðrið hefur verið frábært að undanförnu sem gerir þetta ennþá betra. Það er einhvernveginn þannig að það er allt betra þegar veðrið er gott og ég get ekki kvartað. Umgjörðin í kringum klúbbinn er frábær og maður getur bæði æft og lifað eins og atvinnumaður og það er ekki hægt að biðja um mikið meira en það,“ sagði Glódís Perla kampakát að lokum.