Borgarastríðið í Jemen hefur valdið ómældum þjáningum

Rúmlega þrjú ár eru liðin síðan borgarastríðið í Jemen braust út, með tilheyrandi hörmungum fyrir almenna borgara þar. Engu að síður hafa átökin þar ekki beint verið í sviðsljósi fjölmiðla á Vesturlöndum og illa hefur gengið að stilla þar til friðar. Átökin eru að ýmsu leyti orðin að hálfgerðu „skuggastríði“ á milli Sádi-Araba og Írana, sem hvorir um sig styðja sinn aðila með ýmsum hætti.

Átökin hafa ekki síst bitnað á þeim sem minnst mega sín, en áætlað er að um 11,3 milljón börn í Jemen þurfi á aðstoð að halda vegna átakanna. Þar af eru nærri því tvær milljónir barna sem þjást af vannæringu, auk þess sem fjöldi barna þarf að glíma við hræðilega sjúkdóma sem engin aðstaða er til að takast á við í Jemen vegna átakanna.

UNICEF á Íslandi hefur nú hafið sérstaka söfnun fyrir stríðshrjáð börn í Jemen undir yfirskriftinni „Má ég segja þér soldið?“ en átakinu er ætlað að vekja athygli á þeim hörmungum sem fylgt hafa borgarastríðinu, með áherslu á börnin.

Framlögin sem safnast fara í ýmis bráðnauðsynleg verkefni eins og að reyna að koma í veg fyrir sjúkdóma, bæði með aðgangi að hreinlætisaðstöðu og með bólusetningum og að reyna að tryggja það að börnin hljóti menntun þrátt fyrir skelfilegar aðstæður í landinu. Um er að ræða þarft verkefni sem vonandi verður til að lina þjáningar saklausra borgara í Jemen.