Ég hef í höndum lítið kver nýútkomið, – „Vorlaukar, ljóð og litlar sögur“, sem Ljóðahópur Gjábakka í Kópvogi gefur út. Þetta er 18.

Ég hef í höndum lítið kver nýútkomið, – „Vorlaukar, ljóð og litlar sögur“, sem Ljóðahópur Gjábakka í Kópvogi gefur út. Þetta er 18. ljóðabókin sem þessi hópur gefur út og hefur verið skemmtilegt að fylgjast með hvernig skáldskapurinn hefur þroskast og þróast með árunum. Ritstjóri er Sigurlín Hermannsdóttir og höfundar ellefu. Ég get ekki stillt mig um að grípa niður í bókinni og fyrir valinu verða „Sólstafir“ eftir ritstjórann Sigurlínu, sem ég skil svo að halla taki ævideginum:

Á vesturhimni er gluggi í skýjaglóðum,

þar gylltir stafir sólar dofna óðum,

því líður senn að lokum þessa dags.

Ef fengið gæti staf frá hennar hlóðum,

þá hjálp hann yrði ferðalangi móðum,

er þokast æ í átt til sólarlags.

Í ljóðinu „Ég er svo heppinn“ bregður Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson upp þessum myndum:

Bátur í skýli

man gráslepputímann,

ósáttur stendur þar

bundinn við stein.

Nú læðist hér kisa, með villidýrs eðli,

en bráðin rétt sleppur,

kisan of sein.

„Sumar“ nefnist þetta ljóð Huldu Jóhannesdóttur:

Af blágresi ljómar brekkan senn,

blánar í sunnanþeynum

hugurinn litast af landinu enn,

líkist blómum og steinum,

kliður af fuglum, konur og menn

kætast og pískra í leynum.

„Ferðbúast“ eftir Ingu Guðmundsdóttur:

Samfelldur kliður,

vængjatök og tíst

í trjágróðrinum,

smáfuglarnir safna forða

fyrir langflug

til fjarlægra landa.

Hér kemur „Góður kostur!“ eftir Rögnu Guðvarðardóttur:

Auðargrundin ástarfundi eiga vildi,

engum bundin enn þó var,

einatt hrundu vonirnar.

Heimanmundinn hafði sprundin heldur vænan,

átti hund og hænur tvær,

hest og stundum nokkrar ær.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is