Tækniþróun Notkun gríðargagna (e. BigData) og gervigreindar breytir starfsemi á fjármálamarkaði, að mati forstjóra Persónuverndar.
Tækniþróun Notkun gríðargagna (e. BigData) og gervigreindar breytir starfsemi á fjármálamarkaði, að mati forstjóra Persónuverndar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is B úast má við gríðarlegum breytingum á persónulegri fjármálaþjónustu þegar nýja evrópska tilskipunin um greiðsluþjónustu tekur gildi hér á landi en hún er sögð marka upphafið að opinni bankastarfsemi í Evrópu.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

B úast má við gríðarlegum breytingum á persónulegri fjármálaþjónustu þegar nýja evrópska tilskipunin um greiðsluþjónustu tekur gildi hér á landi en hún er sögð marka upphafið að opinni bankastarfsemi í Evrópu. Reyna mun mjög á reglur um persónuvernd og öryggi fjárhagsupplýsinga ekki síst vegna örra tæknibreytinga.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, fór ítarlega yfir þessi mál á Lagadegi lögfræðinga, lögmanna og dómara á dögunum og vakti máls á fjölmörgum álitaefnum. Hún sagði að með tilkomu nýrrar tækni væri að verða mikil breyting á hefðbundinni fjármálaþjónustu. Gríðargögn (e. BigData), gervigreind og ýmiss konar tækni með skynjurum hefur leitt til nýrra viðskiptamódela og fjármálatækni.

,,Aðgangur að persónuupplýsingum, m.a. frá samfélagsmiðlum, smáforritum og mismunandi skynjurum, hefur leitt til kapphlaups um að eiga sem mest af upplýsingum um viðskiptavininn. Upplýsingarnar hafa verið nýttar til að greina hegðun, óskir og þarfir viðskiptavina,“ sagði hún m.a. í erindi sínu. Við þessar aðstæður eru tæknirisar eins og Facebook, Google og aðrir á leið inn á fjármálamarkaðinn, m.a. til að greina hegðunarmynstur.

,,Allt þetta hefur ákveðnar áskoranir í för með sér tengdar persónuvernd. Hversu langt munu þessi fyrirtæki og fjármálastofnanir geta gengið í að safna upplýsingum, greina hegðun, o.s.frv.?“ spurði hún.

Veitir betri vernd

Nýja persónuverndarlöggjöfin í Evrópu mun veita einstaklingum betri vernd og gegnir lykilhlutverki í þessari framtíð því uppfylla þarf kröfur hennar m.a. varðandi söfnun og vinnslu persónuupplýsinga. Fram kom í máli Helgu að þegar nýja tilskipunin um greiðsluþjónustu hefur tekið gildi muni nýir aðilar geta sinnt greiðsluþjónustu við einstaklingana ,,og þeir fá þannig inngöngu inn í upplýsingar og innviði banka. Þessi aðilar munu geta haft upplýsingar um innkomu okkar, greiðslusögu og vinahóp – auk þess að vita um hversdagsrútínu, áhugamál og skoðanir – sem sagt, hafa allar upplýsingar til að geta veitt persónulega fjármálaþjónustu,“ sagði hún.

Sjálfvirkninni fylgja fjöldamörg álitamál. Fram kom í máli Helgu að notkun gríðargagna og gervigreindar breytir starfsemi á fjármálamarkaði. Allar þær ólíku upplýsingar sem mögulegt er að safna og greina gera það mögulegt að sjá fyrir hegðunarmynstur. ,,Þetta hefur áhrif á alla þá þjónustu sem undir er á fjármálamarkaði, þ.e. hefur áhrif á gerð persónusniðs, flokkun viðskiptavina, áhættu- og greiðslumat, markaðsherferðir, vöruþróun, verðlagningu vöru og þjónustu, aðferðafræði við svik og peningaþvætti, og hefur áhrif á auðkenni og þjónustu fyrir viðskiptavini,“ sagði hún.

Með hjálp frá sjálfvirkri ákvarðanatöku véla væri þannig t.d. fyrirsjáanlegt að bankar muni sjálfvirknivæða ferla þegar kemur að umsóknum um lán, og eru jafnvel þegar byrjaðir að einhverju leyti.

,,Í fjármálageiranum hafa fyrirtæki verið að færa sig inn á þetta svið þannig að áhættumat, t.d. á því hvort viðkomandi eigi eftir að greiða reikninga, er metið út frá nethegðun. Sem sagt, með því að safna saman og skilgreina hegðun eru búnir til algrímar sem geta fundið út hvort kúnninn sé góður borgunarmaður, eða ekki. Sporin á netinu geta þannig komið upp um hvort um óábyrgan eða ábyrgan neytanda er að ræða. Við erum sem sagt að fara að lifa þá staðreynd að ákvörðun um lán gæti verið byggð á nethegðun.“