Það er ekki langt síðan undurfallegt grenitré stóð úti í skógi. Grenitréð litla var bráðlátt: „Ó, að ég væri nú orðið stórvaxið tré,“ sagði það og stundi við.

Það er ekki langt síðan undurfallegt grenitré stóð úti í skógi. Grenitréð litla var bráðlátt: „Ó, að ég væri nú orðið stórvaxið tré,“ sagði það og stundi við. Tréð gat ekki hugsað sér neitt betra en að vera höggvið niður eins og stóru og fallegu trén.

Þegar það spurði fuglana hvað yrði um tré sem væru höggvin svöruðu þeir að þau væru sett á mitt gólf í heitri stofu; prýdd með fegurstu hlutum, gylltum eplum, glitrandi englum og mörgum hundruðum ljósa.

„Og svo?“ spurði grenitréð með titringi í öllum sínum greinum; „og svo? Hvað verður svo?“ En það vissu fuglarnir ekki.

„En skyldi nú þessi ljómandi lífsbraut liggja fyrir mér?“ spurði tréð. Og svo var það höggvið einn veturinn, flutt til Reykjavíkur, sett inn í stofu og varð skínandi fallegt.

Börnin dönsuðu kringum tréð og tóku upp hverja jólagjöfina á fætur annarri. Eldra fólkið ræddi um hvílík kynstur af pappír og umbúðum fylgdu leikföngunum.

Gráskeggjaður maður sagði: „Þetta fyllir hjá okkur sorptunnurnar. Nú eru þær bara sóttar á hálfs mánaðar fresti eftir að borgin ákvað að bæta þjónustuna með því að fá okkur til þess að fara oftar í Sorpu. Einu sinni kom öskubíllinn í hverri viku.“

Jú, sumir mundu eftir því og þrekvaxin kona bætti við: „Og einu sinni sótti borgin jólatrén daginn eftir þrettándann.“ En unga fólkið mundi ekki eftir því frekar en jólaeplunum í skólanum.

Á þrettándanum var skrautið tínt af jólatrénu, húsbóndinn snaraði því á öxlina og bar það út. Á leiðinni hrundi mest af barrinu þegar tréð rakst í dyrastafina og húsfreyjan hristi höfuðið yfir aðförunum.

Þá var tréð komið ofan í húsgarðinn og hugsaði: „Nú er vetur úti. Mennirnir geta ekki sett mig niður, þess vegna á ég að standa hér í skjóli til vorsins. Ó, hvað mennirnir eru góðir!“ Gullpappírs-stjarnan sat enn í toppnum og glitraði í glaðasólskininu.

En tréð hafði aldrei heyrt um meirihlutann í Reykjavík sem vildi ekkert með gömul jólatré hafa. Þannig lá það í reiðileysi dögum saman því að fólkið í húsinu hafði gleymt því úti í garðshorni innan um illgresi og netlur.

Allt í einu kom fjúk og tréð hófst á loft. Visnar og gular greinarnar voru eins og vængir og tréð hugsaði: „Nú flýg ég eins og fuglarnir,“ og það var frá sér numið af fögnuði og taldi sig hafa upplifað einstaka sælu.

Í því lenti það á stofuglugga og mölbraut hann. Húseigandinn kippti sér ekki upp við það, stökk út á hjólið sitt, vippaði trénu á bögglaberann og hjólaði á næstu móttökustöð, yppti öxlum og sagði: „Þetta er hluti af því að vera Reykvíkingur.“

Hefði tréð verið borið út eftir að Viðreisn kemst í borgarstjórn hefði það verið sótt daginn eftir þrettándann, kubbað niður í eldsneyti og endað ævina öllum til gleði.

Nútímaútgáfa af dæmisögu H.C. Andersens um Grenitréð.

Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar.

Höf.: Benedikt Jóhannesson