Rannveig Ragnarsdóttir fæddist í Hallfríðarstaðakoti í Hörgárdal 17. mars 1932. Hún lést á heimili sínu 6. maí 2018.

Foreldrar hennar voru Magnea Elín Jóhannsdóttir, f. 12. apríl 1898, og Ragnar Guðmundsson, f. 16. apríl 1898.

Rannveig átti fimm alsystkini. Þau voru í aldursröð: Rannveig Jórunn, Jóhann Hallmar, Septíma Dalrós, Sigrún Jónína og Marín Hallfríður. Dalrós lifir systur sína. Rannveig átti einn hálfbróður samfeðra. Hann hét Baldur og er látinn.

Hinn 26. júní 1954 giftist Rannveig Friðfinni Friðfinnssyni frá Baugaseli í Barkárdal, f. 26. júní 1917, d. 23. janúar 2011. Foreldrar hans voru Una Zóphoníasdóttir, f. 24. júní 1894, og Friðfinnur Steindór Sigtryggsson, f. 13. desember 1889. Börn Rannveigar eru: 1) Ragnar Eyfjörð, f. 19.9. 1951, maki Ingibjörg Sigurðardóttir. Þau eiga þrjá syni og fimm barnabörn. 2) Elín Una, f. 26.12. 1954. Hún á tvo syni. 3) Erla Hrund, f. 1.5. 1956, maki Páll Baldursson. Þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn. 4) Elsa Björk, f. 9.10. 1959. Hún á eina dóttur og tvö barnabörn. 5) Emil Steindór, f. 12.12. 1966, maki Sabine Friðfinnsson. Þau eiga tvö börn.

Rannveig sá ung um heimilið í Hallfríðarstaðakoti vegna veikinda móður sinnar. Húsmóðurstarfið var alla tíð hennar aðalstarf. Eftir að fjölskyldan flutti frá Baugaseli til Akureyrar 1965 vann Rannveig einnig ýmis verkamannastörf.

Útför Rannveigar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 15. maí 2018, klukkan 13.30.

Elsku amma, símtalið sem ég fékk að morgni 6. maí s.l. var heldur óvænt, þegar mamma hringdi í mig og sagði mér að þú værir dáin.

Upp í huga mér komu ótal minningar. Þakklæti er mér ofarlega í huga þegar ég hugsa til baka, ein af bestu minningunum mínum er tíminn sem við áttum saman þegar við fórum að kaupa jólagjafirnar fyrir alla afkomendur þína. Yndislegur tími sem endaði langoftast á kaffihúsaferð, svo ég tali nú ekki um dagana sem við áttum saman við að pakka þessu öllu inn. Mikið sem var spjallað og hlegið á meðan, stundum það mikið að við vorum ekki alveg með hugann við það sem við vorum að gera og klúðruðum merkimiðum, en vorum farnar að læra á okkur og keyptum því ríflega af þeim.

Þú varst snillingur í höndunum. Ég er glöð yfir því að eiga verk og hluti eftir þig. Vænst þykir mér um harðangursdúkinn sem þú saumaðir og færðir mér fyrir 10 árum á þrítugsafmælinu mínu.

Við áttum gott samband sem ég er afar þakklát fyrir. Alltaf var hægt að leita til þín. Það voru ófá símtölin sem við höfum átt og verður skrítið að taka ekki upp símann og heyra í ömmu. Þú varst alltaf svo jákvæð og glöð, ánægð og stolt af fólkinu í kringum þig. Ég ætla svo sannarlega að vona, amma mín, að ég muni verða eins yndisleg og þú.

Ansi oft fékk ég að heyra hvað ég væri lík þér og þykir mér vænt um það.

Elsku amma, ég er líka stolt af því að hafa verið fyrst af barnabörnum þínum til að gera þig að langömmu, þegar Elva Rún fæddist árið 1998. Þú varst börnum okkar Árna góð, þau hafa nú misst góða langömmu.

Þessi tími sem við áttum með þér er okkur ómetanlegur og dýrmætur.

Við munum styðja hvort annað í sorginni, og ég trúi því að þú passir vel upp á okkur. Við söknum þín öll.

Þú munt alltaf eiga stað í mínu hjarta, elsku amma mín.

Þín ömmustelpa,

Kristín Pálsdóttir (Kittý).

Elsku langamma mín.

Ég á mjög erfitt með að trúa því að þú sért farin frá okkur. Símtalið sem ég fékk 6. maí síðastliðinn frá mömmu var mjög óvænt. Það tók virkilega á að fá þessar fréttir að þú hefðir orðið bráðkvödd þá um morguninn. Þú varst og verður alltaf fyrirmyndin mín í einu og öllu, þú kenndir mér svo margt. Minningarnar okkar eru ótal margar og eru þær mér ofarlega í huga nú um þessar mundir. Þegar það var frí í skólanum fékk ég oft að koma í pössun til þín. Í hádeginu tókum við gjarnan göngutúr í Hrísalund og keyptum okkur mat úr heita borðinu, jú og ekki má gleyma því að það var yfirleitt ís í eftirrétt.

En það sem mér er kærast eru verkin eftir þig og myndirnar sem ég á af okkur saman og mun ég varðveita það vel. Hann er mér líka mikils virði tíminn þegar ég bjó í blokkinni á móti þér í Tjarnarlundinum. Oft beiðst þú í eldhúsglugganum á kvöldin til þess að vinka til mín áður en þú færir að sofa. Þessir litlu hlutir eru mér nú mikils virði.

Takk, elsku langamma mín, fyrir allt sem þú kenndir mér, takk fyrir alla góðu tímana sem við áttum saman bara við tvær. Takk fyrir að vera alltaf til staðar ef það var eitthvað að hrjá mig og síðast en ekki síst takk fyrir að vera þú. Það var og er enginn eins og þú. Þú varst frábær í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur og gerðir allt mjög vel. Þú föndraðir öll mín afmæliskort og það síðasta núna í október s.l. þá 85 ára gömul. Ég mun varðveita þessi kort. Þú varst og verður alltaf hetjan mín. Ég hef alltaf og mun alltaf elska þig af öllu mínu hjarta. Þér þótti svo vænt um alla í kringum þig, sérstaklega fjölskyldu og vini. Þú vildir öllum gott og studdir alla áfram í því sem þeir vildu taka sér fyrir hendur. Þú ert manneskjan sem dæmdir ekki, sagðir bara hvað mætti betur fara og hrósaðir alltaf. Þú varst alltaf svo glöð og jákvæð.

Nú ert þú komin til langafa og trúi ég því að þið vakið yfir okkur.

Elsku langamma, ég mun sakna þín.

Þín langömmustelpa,

Elva Rún Árnadóttir.