Góður fyrri Valdís Þóra Jónsdóttir var í toppbaráttu eftir fyrri hringinn.
Góður fyrri Valdís Þóra Jónsdóttir var í toppbaráttu eftir fyrri hringinn. — Ljósmynd/LET
Atvinnukylfingarnir Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni og Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili freistuðu þess í gær að vinna sér sæti á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi, einu risamótanna fimm, en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Atvinnukylfingarnir Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni og Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili freistuðu þess í gær að vinna sér sæti á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi, einu risamótanna fimm, en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Um var að ræða sérstakt úrtökumót á Buckhinghamshire-vellinum í Englandi þar sem leiknir voru tveir hringir og fjórir efstu kylfingarnir unnu sér inn sæti á Opna bandaríska meistaramótinu. Guðrún Brá endaði í 39. sæti á +13 höggum en Valdís Þóra í 42. sæti á +14 höggum. Þær hefðu þurft að leika á +3 höggum eða betur til að fá einn af boðsmiðunum fjórum. Guðrún lék fyrri hring sinn á +6 höggum og seinni á +7, en á báðum hringjum reyndist 10. hola henni erfið þar sem hún fékk skramba. Valdís lék mjög vel á fyrri hring sínum eða +2 höggum og var í toppbaráttunni, en allt fór úrskeiðis á seinni hringnum þar sem hún lék meðal annars 6. braut á fjórum höggum yfir pari og 7. braut á þremur höggum yfir pari.

Valdís endaði í 3.-5. sæti á mótinu í fyrra og það skilaði henni á endanum boði á Opna bandaríska meistaramótið. Hún varð þar með fyrst Íslendinga til að keppa á mótinu.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur þegar tryggt sér keppnisrétt á Opna bandaríska mótinu í ár. sindris@mbl.is