Markahrókur Mauro Icardi hefur raðað inn mörkum fyrir Inter í vetur.
Markahrókur Mauro Icardi hefur raðað inn mörkum fyrir Inter í vetur. — AFP
Mauro Icardi og Paulo Dybala, tveir af þremur markahæstu leikmönnum ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu, eru báðir í 35 manna hópnum sem Jorge Sampaoli hefur valið í argentínska landsliðið fyrir HM í Rússlandi.

Mauro Icardi og Paulo Dybala, tveir af þremur markahæstu leikmönnum ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu, eru báðir í 35 manna hópnum sem Jorge Sampaoli hefur valið í argentínska landsliðið fyrir HM í Rússlandi. Icardi og Dybala hafa samtals skorað 50 mörk á Ítalíu í vetur en samt sem áður telja argentínskir fjölmiðlar líklegt að framherjarnir tveir verði meðal þeirra tólf sem Sampaoli fjarlægir úr hópnum áður en hann tilkynnir endanlegan 23 manna hóp sinn á mánudag.

Sérstaklega þykir ólíklegt að Icardi verði í 23 manna hópnum, þrátt fyrir að hafa skorað 28 mörk fyrir Inter í vetur. Hann á aðeins 4 A-landsleiki að baki og þykir hegðun hans utan vallar eiga stærstan þátt í því. Icardi er kvæntur Wöndu Nara en samband þeirra hófst þegar Nara var eiginkona Maxi López, fyrrverandi liðsfélaga Icardis. Icardi mun því ekki vel liðinn í argentínska landsliðshópnum en þar á López marga félaga. Sérstök þörf gæti hins vegar reynst á kröftum Icardis jafni Sergio Agüero sig ekki af meiðslum sínum í tæka tíð fyrir HM en Argentína mætir Íslandi 16. júní. Lionel Messi, Gonzalo Higuaín, Cristian Pavón og Lautaro Martínez eru aðrir sóknarmenn 35 manna hóps Argentínu. sindris@mbl.is