[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýskaland Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is „Það var mjög þægilegt að ná fram sigri í deildinni á þessum tíma,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður Wolfsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Þýskaland

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Það var mjög þægilegt að ná fram sigri í deildinni á þessum tíma,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður Wolfsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Wolfsburg tryggði sér í fyrradag þýska meistaratitilinn eftir 2:0 sigur á Essen í 1. deild kvenna þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni en framundan hjá Söru Björk eru tveir mikilvægir úrslitaleikir.

„Núna getum við einbeitt okkur að úrslitaleikjunum sem eru framundan. Við eigum leik við Bayern München í úrslitum þýska bikarsins á laugardaginn og svo mætum við Lyon í úrslitum Meistaradeildarinnar 24. maí þannig að það var fínt að tryggja sér sigur í deildinni í fyrradag.“

Miklir yfirburðir í Þýskalandi

Wolfsburg hefur nánast verið óstöðvandi í þýsku 1. deildinni á þessari leiktíð og hefur liðið einungis tapað einum leik í deildarkeppninni.

„Ef ég á að vera hreinskilin þá finnst mér við hafa haft mikla yfirburði í deildinni á þessu tímabili. Í fyrra var deildin jafnari, en í ár náðum við mjög vel saman sem lið og við höfum verið í miklum ham. Við erum með frábæra einstaklinga í okkar liði og liðsheildin er orðin betri og það hefur í raun ekkert lið náð að stoppa okkur.“

Frábært tímabil og 12 mörk

Sara hefur verið einn besti maður Wolfsburg á tímabilinu og er hún komin með 12 mörk á tímabilinu í öllum keppnum.

„Þetta hefur verið betra hjá mér persónulega en í fyrra. Ég kem hingað á síðasta ári og næ að vinna mig strax inn í liðið en fyrsta tímabilið er alltaf aðeins öðruvísi. Það tekur tíma að koma sér inn í nýtt lið og nýja deild, þetta er allt öðruvísi en í Svíþjóð. Á þessu ári hef ég náð að blómstra meira og mér hefur tekist betur að sýna mína helstu styrkleika.“

Wolfsburg sigurstranglegra liðið gegn Bayern

Wolfsburg hefur unnið þýska bikarinn undanfarin þrjú ár en liðið hefur háð harða baráttu við Bayern München um yfirráð í þýsku 1. deildinni undanfarin ár.

„Leikirnir við Bayern München eru alltaf erfiðir. Þær eru með hörkulið og góða einstaklinga. Það eru alltaf mikil gæði í leikjum þessara liða en ég tel okkur eiga góða möguleika á móti þeim. Bikarleikir eru hins vegar alltaf snúnir og það getur auðvitað allt gerst í þessum leikjum en ég tel okkur vera sigurstranglegra liðið í þessari viðureign.“

Eiga harma að hefna gegn Lyon

Lyon hefur unnið Meistaradeildina undanfarin tvö ár en franska liðið vann Wolfsburg í úrslitum keppninnar árið 2016 og sló þær svo úr leik í átta liða úrslitum keppninnar í fyrra.

„Tölfræði okkar gegn Lyon er kannski ekki sú besta en við höfum bætt okkur mikið síðan í fyrra og hittifyrra. Í átta liða úrslitunum í fyrra töpuðum við heima en unnum þær úti. Þær skoruðu hins vegar fleiri mörk og fóru áfram. Núna erum við í góðri stöðu til þess að vinna þær finnst mér. Þetta verður hörkuleikur, það er klárt mál en ég er fyrst og fremst bara spennt að mæta þeim aftur.“

Draumurinn um þrennuna

Sara Björk á góða möguleika á því að vinna þrefalt í ár en engum Íslendingi hefur tekist það áður í alþjóðaknattspyrnu.

„Markmiðið frá því í byrjun árs hefur verið að vinna deildina, bikarinn og svo Meistaradeildina. Núna er þetta orðið miklu raunverulegra og við færumst nær draumnum um að vinna þrennuna í ár. Það er auðvitað mikið í húfi en maður er búinn að leggja afar hart að sér til þess að ná þessum markmiðum sínum og vonandi tekst það.“

Ísland á HM

Sara er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins og á liðið góða möguleika á því að tryggja sér sæti á HM í Frakklandi næsta sumar.

„Ég er ekki að hugsa mikið um landsliðið eins og staðan er í dag. Það er mjög mikið í gangi hjá mínu félagsliði og ég er mjög einbeitt á verkefnin framundan með Wolfsburg. Að því sögðu þá mæti ég með fullan fókus í öll landsliðsverkefni og ég geri mér fulla grein fyrir því hvað er undir þar. Við viljum upplifa þann draum að komast á HM í fyrsta skiptið og ég tel okkur eiga góða möguleika á því. Þetta ár hefur verið mjög jákvætt fyrir mig, það er mikið í gangi og ég get ekki kvartað.“

Frábært að fylgjast með ungu stelpunum

Þjálfarar í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu hafa verið ófeimnir við að gefa ungum stelpum tækifæri í deildinni í ár og telur Sara þetta vera frábæra þróun fyrir íslenskan kvennafótbolta.

„Ég hef aðeins reynt að fylgjast með íslenska boltanum og það er frábært að sjá hversu margir ungir leikmenn eru að fá tækifæri með sínum liðum í úrvalsdeildinni. Meðalaldurinn hjá Breiðabliki sem dæmi hefur sjaldan verið jafn lágur. Ég hef mikla trú á þeim í sumar og ég er handviss um að þær muni blanda sér í toppbaráttu í ár. Þetta er mjög jákvæð þróun og það er frábært fyrir þessa ungu leikmenn að fá spilatíma og aukið sjálfstraust og þetta eru góðar fréttir fyrir íslenska landsliðið. Við þurfum fleiri unga leikmenn sem eru tilbúnir til þess að stíga upp.“

Það getur allt gerst í framtíðinni

Sara er afar sátt í Þýskalandi en útilokar þó ekki að færa sig um set, áður en ferlinum lýkur.

„Núna er ég mjög sátt í Þýskalandi. Aðstæðurnar hjá Wolfsburg eru frábærar og ég tel mig geta haldið áfram að bæta mig sem leikmaður og íþróttamaður hér. Ég er í umhverfi sem alla dreymir um en fótboltinn getur stundum verið skrítinn líka og maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ég er fullkomlega sátt í Þýskalandi og mér líður mjög vel hérna en maður veit aldrei hvað gerist í framtíðinni eða hvar maður mun enda,“ sagði Sara Björk að lokum.