Þórunn Ingimarsdóttir fæddist í Reykjavík hinn 21. janúar 1926. Hún andaðist hinn 30. apríl 2018 á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Reykjavík.

Þórunn fluttist ung að árum úr miðbæ Reykjavíkur með foreldrum sínum og systkinum að Laugarási við Laugarásveg í Reykjavík og stunduðu foreldrar hennar þar búskap í mörg ár.

Foreldrar Þórunnar voru Sólveig Jóhanna Jónsdóttir, f. 1895 í Reykjakoti í Ölfusi, d. 1982, og Ingimar Ísak Kjartansson, f. 1891 á Svalbarða á Álftanesi, d. 1973. Þau hjón fengu úthlutað landsvæði í Laugaráslandinu og tóku þá ákvörðun að flytja upp í sveit og hefja búskap á bænum Laugarási í nágrenni við Þvottalaugarnar, þar sem þau bjuggu næstu fimmtíu árin og ólu upp tíu börn. Það sem réð mestu um ákvörðunina var að börn þeirra voru þá orðin fimm talsins og erfitt reyndist fyrir fjölskylduna að fá leiguhúsnæði í bænum með svo mörg börn.

Þórunn ólst upp í stórum systkinahópi og var hún fimmta í röðinni af 10 systkinum.

Þórunn bjó lengst af við æskustöðvar sínar í Laugarási og hefur búið í nágrenni Laugardalsins nær alla sína ævi, en nú síðustu ár á Hjúkrunarheimilinu í Seljahlíð í Breiðholti í nágrenni við son sinn.

Þórunn starfaði í mörg ár í Verslunarbanka Íslands við Bankastræti sem síðar varð að Íslandsbanka eða þar til hún lét af störfum sökum aldurs.

Synir Þórunnar eru: 1) William Þór Dison, f. 1944, kona hans er Kristín Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru Eðvarð Þór, f. 1970, í sambúð með Sigurbjörgu Sigurðardóttur. Synir þeirra eru William Þór, Nökkvi Þór og Hrannar Þór.

Gunnar Örn, f. 1974, sem lést af slysförum árið 1995. Stefanía Sif, f. 1975 í sambúð með Óskari Þór Gunnarssyni. Dætur Stefaníu eru Snædís Líf og Elísa. Sonur Óskars er Eiríkur Þór. 2) Bjarni Brandsson, f. 1961, kona hans er Anna María Valdimarsdóttir, börn þeirra eru Ingimar Alex Baldursson, f. 1985. Dætur hans eru Magnea Mjöll, Sara Fanný og Eydís Anna. Ísak, f. 1993. Georg, f. 1999.

Útför hennar fer fram frá Áskirkju í dag, 15. maí 2018, klukkan 13.

Systir okkar Þórunn (Tóta) kvaddi þetta líf hinn 30. apríl. Hún var sjötta af okkur tíu systkinunum og áttunda sem kveður. Hún Tóta var mér kær systir því hún dvaldi með mér lengi vel í foreldrahúsum með strákana sína Þór og Bjarna. Þegar hægðist um hjá henni fór hún í sína eigin íbúð og ól upp strákana sína með miklum sóma. Meðan Tóta var heima sinnti hún mömmu okkar af kostgæfni. Maður gat alltaf leitað til Tótu með hvað sem var. Hún Tóta giftist ekki en átti sínar góðu stundir og kom sér vel alls staðar. Þegar aldur og veikindi fóru að steðja að flutti hún í Seljahlíð og átti góð ár á því heimili. Ég þakka þér samfylgdina, Tóta mín. Hvíldu í friði.

Erla Ingimarsdóttir.

Nú er elsku Tóta mín farin, nú hittir hún systkini sín og foreldra á betri stað, því trúi ég.

Tóta móðursystir mín var mér eins og móðir öll mín uppvaxtarár, hún og móðir hennar, Sólveig amma mín, hjálpuðust að við að koma mér til manns. Á ég elsku Tótu mikið að þakka. Hún var ein af þessum góðu konum sem ættu að vera til í hverri fjölskyldu, þá væri heimurinn betri.

Tóta var alltaf til staðar og hjálpsöm, alveg sama hver í fjölskyldunni þurfti á aðstoð að halda.

Ekki hægt að hugsa sér betri manneskju, sem sést best á því að þegar ég var að ala mína stráka upp vantaði aldrei að hún væri tilbúin að koma og hjálpa.

Ég á svo góðar og skemmtilegar minningar um þessa góðu konu, hún var líka svo góð vinkona mín, þótt aldursmunurinn væri 18 ár fann maður aldrei fyrir því.

Hún fylgdist svo vel með því sem fram fór í fjölskyldunni og þjóðfélaginu og hafði sterkar og skemmtilegar skoðanir á því.

Eftir að Tóta flutti á Seljahlíð er mér svo minnisstætt hvað hún hélt áfram að hugsa vel um sig, klæddi sig í falleg föt og hafði gaman af að punta sig. Alltaf svo flott með fallega hvíta þykka hárið sitt og flottu rauðu neglurnar, svo fín alltaf þessi fallega móðursystir og vinkona mín.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég kveðja þig elsku Tóta mín og minningin lifir í hjarta mínu um frábæra og góða konu.

Ég votta elsku frændum mínum Þór og Bjarna og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.

Kolbrún og fjölskylda.

Nú kveðjum við Þórunni Ingimarsdóttur, Tótu frænku. Ég vil þakka Tótu fyrir margt sem hún hefur aðstoðað mig með í gegnum lífið. Hún hefur oft verið til staðar þegar ég þurfti á að halda.

Nokkur dæmi koma sterkt upp í hugann. Tóta vissi hvað var að vera einstæð móðir og sleppti stundum skemmtilegum verkefnum sem hún var búin að skipuleggja til að hjálpa mér þegar guttinn minn var lasinn. Hún vissi að mig vantaði aðstoð til að gæta hans svo ég kæmist til vinnu.

Hún hjálpaði mér að taka slátur eftir að mamma féll frá, eða nei líklega hefur allt legið á henni, hún hefur tekið slátur fyrir okkur fjölskylduna og ég hjálpað til.

Eitt sinn var ég að mála hjá mér stofuna og var við það að gefast upp. Birtist þá ekki Tóta í málningargallanum með málningarrúllu komin til að hjálpa mér að klára að mála. Hún vissi hvað það var að vera einn við að gera og græja hlutina.

Tóta föðursystir mín hefur alltaf verið hluti af okkar lífi. Við bjuggum í sama húsi í tvígang, annars vegar á Kirkjuteigi 23 og mörgum árum síðar á Kirkjuteigi 9 í Reykjavík. Það rifjast núna upp þegar ég horfi yfir farinn veg þegar hún fékk son sinn Bjarna til að hlaupa upp og sækja mig þegar jólasveinninn hafði birst hjá þeim. Það var nú fjör og ég örugglega lítil í mér og hangið í pilsfaldi Tótu.

Tóta var alltaf dugleg og vinnusöm kona. Hún tók vel á móti öllum sem heimsóttu hana, hvort sem hún bjó ein eða með ömmu.

Tóta var okkur fjölskyldunni kær. Við kveðjum Tótu með þakklæti og kærleika í huga.

Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til nánustu fjölskyldu hennar.

Björg Vigfúsína

Kjartansdóttir.