Samstarfskona Víkverja var að tala um konu á fundi um daginn og hnýtti því við, til að setja konuna í skýrara samhengi, að hún væri kona Höskuldsstaða. Ha, kona Höskuldsstaða? spurði Víkverji hvumsa enda óvanur því að konur gangi að eiga heilt...

Samstarfskona Víkverja var að tala um konu á fundi um daginn og hnýtti því við, til að setja konuna í skýrara samhengi, að hún væri kona Höskuldsstaða.

Ha, kona Höskuldsstaða? spurði Víkverji hvumsa enda óvanur því að konur gangi að eiga heilt bóndabýli. Sísona.

„Já,“ svaraði samstarfskonan eins og ekkert væri.

Í eitt augnablik var Víkverji í myrkrinu en síðan kviknaði ljós; konan var vitaskuld ekki kona Höskuldsstaða, heldur Höskulds Daða. Það er allt önnur Ella.

Þetta minnir á söguna um pabbann sem sendur var til Egilsstaða að sækja son sinn í afmæli. Hann muldraði eitthvað fyrir brjósti sér en lagði svo snúðugur af stað. Þegar komið var til Egilsstaða kom hins vegar í ljós að drengurinn var í næstu götu í Reykjavík, á heimili vinar síns, Egils Daða.

Gaman hefði verið að sjá svipinn á pabbanum á leiðinni til baka.

Annars er Höskuldur helvíti gott nafn; kraftmikið og hljómfagurt. Víkverji talar nú ekki um ef því fylgir ættarnafn, eins og hjá fréttamanninum knáa hjá Stöð 2 og Bylgjunni, Höskuldi Kára Schram. Mest heldur Víkverji raunar upp á tilbrigðið við nafnið sem Höskuldur Kári notar þegar hann hefur umsjón með hádegisfréttum á Bylgjunni: „Það er komið að hádegisfréttum á Bylgjunni. Höskuldur Kári Schramles.“

Schramles leiðir hugann að Shameless, einhverjum bestu sjónvarpsþáttum síðari tíma. Þar heitir að vísu ekki nokkur maður Höskuldur, enda sjaldgæft nafn í Bandaríkjunum, en þátturinn er ekki verri fyrir því. Í Shameless þarf enga undraheima, hobbita, álfa eða ofurhetjur til að halda manni við efnið. Þetta er bara fólk í venjulegum aðstæðum sem hefur þessa líka kostulegu sýn á tilveruna.