Gaza Palestínumaður beitir handslöngvu gegn ísraelskum hermönnum sem eru handan landamæragirðingarinnar. Tugþúsundir íbúa á Gaza þyrptust að girðingunni til að mótmæla opnun sendiráðs Bandaríkjanna í Jerúsalem.
Gaza Palestínumaður beitir handslöngvu gegn ísraelskum hermönnum sem eru handan landamæragirðingarinnar. Tugþúsundir íbúa á Gaza þyrptust að girðingunni til að mótmæla opnun sendiráðs Bandaríkjanna í Jerúsalem. — AFP
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Sendiráð Bandaríkjanna í Jerúsalem var opnað kl. 13.00 í gær að íslenskum tíma.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Sendiráð Bandaríkjanna í Jerúsalem var opnað kl. 13.00 í gær að íslenskum tíma. Að minnsta kosti 55 Palestínumenn féllu fyrir skotum ísraelskra hermanna í hörðum mótmælum við girðinguna á milli Gaza og Ísraels, að sögn palestínskra embættismanna. Tilefni mótmælanna var opnun sendiráðsins í Jerúsalem, að sögn AFP-fréttastofunnar. Auk þeirra sem féllu særðust yfir 2.700 í átökunum sem voru þau blóðugustu sem orðið hafa á svæðinu frá því í Gaza-stríðinu 2014.

Yusuf al-Mahmoud, talsmaður stjórnar Palestínu, krafðist þess að alþjóðasamfélagið gripi inn í til að stöðva hin „hræðilegu fjöldamorð“. Mannréttindasamtökin Amnesty International sögðu að blóðbaðið við landamæri Gaza og Ísraels væri „viðbjóðslegt brot“ á alþjóðalögum og mannréttindum á Gaza. Þau kröfðust þess að endi yrði bundinn á átökin þá þegar. Federica Mogherini, yfirmaður utanríkismála ESB, hvatti til „ýtrustu stillingar“ til að afstýra frekari blóðsúthellingum.

Viðkvæm staða Jerúsalem

Um 800 gestir voru viðstaddir opnun sendiráðsins. David Friedman, sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael, opnaði það formlega. Donald Trump forseti ávarpaði samkomuna um fjarfundabúnað og fagnaði opnuninni. Benjamin Nethanyahu, forsætisráðherra Ísraels, talaði einnig. John Sullivan aðstoðarutanríkisráðherra fór fyrir bandarískri sendinefnd við opnunina. Auk hans voru í henni Ivanka Trump og eiginmaður hennar Jared Kushner, auk Steven Mnuchin fjármálaráðherra.

Staða Jerúsalem er eitt viðkvæmasta deilumál Ísraela og Palestínumanna. Ísrael telur borgina vera höfuðborg sína en Palestínumenn líta á Austur-Jerúsalem sem höfuðborg framtíðarríkis þeirra.