Grímur Thomsen fæddist á Bessastöðum á Álftanesi 15.5. 1820. Foreldrar hans voru Þorgrímur Tómasson, gullsmiður, ráðsmaður á Bessastöðum og alþingismaður, og k.h., Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja.

Grímur Thomsen fæddist á Bessastöðum á Álftanesi 15.5. 1820. Foreldrar hans voru Þorgrímur Tómasson, gullsmiður, ráðsmaður á Bessastöðum og alþingismaður, og k.h., Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja.

Eiginkona Gríms var Jakobína Jónsdóttir en sonur Gríms og Magdalene Thoresen var Axel Peter Jensen, f. 1843.

Grímur var ekki í Bessastaðaskóla en lærði hjá Árna Helgasyni prófasti í Görðum og biskupi og lauk hjá honum stúdentsprófum 1837. Hann hóf nám í lögfræði við Hafnarháskóla en snéri sér brátt að heimspeki og bókmenntum, lauk mag.art.-prófi 1845, með ritgerð um Byron lávarð. Það rit varð helsta kynning sem Danir fengu af Byron og var gerð að doktorsritgerð með konungsúrskurði 1854. Hann vakti einnig eftirtekt Dana á Johan Ludvig Runeberg og kenndi þeim að meta sinn helsta snilling á þeim tíma, H.C. Andersen.

Grímur hlaut konungsstyrk til kynnisfarar um Evrópu árið 1846 og stóð sú ferð í tvö ár. Hann starfaði í danska utanríkismálaráðuneytinu 1848-66, var m.a. aðstoðarmaður sendiherra Dana í Brüssel og Lundúnum og síðast skrifstofustjóri. Hann flutti síðan heim, keypti Bessastaði og var bóndi frá 1868 til æviloka. Hann var ritstjóri Ísafoldar 1878-79, var alþingismaður Rangæinga 1869-74, Gullbringu- og Kjósarsýslu 1874-80, og Borgfirðinga 1880-92.

Síðast en ekki síst var Grímur eitt helsta ljóðskáld þjóðarinnar á sínum tíma og ljóðaþýðandi. Ljóð hans hafa yfirleitt elst vel. Hann var laus við landlæga mærðina sem einkenndi um of síðrómantíkina, orti sjaldan undir fornum háttum sem þá var þó í tísku, en var formsnillingur, bjó yfir mögnuðum mannlýsingum og var hnitmiðaður í orðavali. Hann var mikill heimsmaður, höfðinglegur í fasi og klæðaburði, íhaldssamur, forn í hugsun, oft orðhvass og meinhæðinn og varð aldrei orðafátt.

Grímur lést 27.11. 1896.