[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Við finnum fyrir mjög miklum áhuga.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Við finnum fyrir mjög miklum áhuga. Það eru viðræður í gangi um nokkrar íbúðir, þótt þær séu ekki komnar í formlega sölu,“ segir Þorvaldur Gissurarson, forstjóri og eigandi ÞG verks, um nýjar íbúðir á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur.

Áformað er að hefja sölu íbúða í júní og afhenda í árslok.

Alls eru þetta 69 íbúðir í fimm húsum. Samkvæmt nýjum söluvef, Hafnartorg.is, er meðalstærð 60 íbúða um 102 fermetrar. Stærð 9 þakíbúða er ekki gefin upp.

Það eru þrjár þakíbúðir í tveimur húsum, Geirsgötu 2-4, og tvær í hverju húsi á Tryggvagötu 21-25.

Að sögn Þorvaldar eru hugmyndir um að sameina fjórar þakíbúðir í húsinu G1 í eina. Hann segir þakíbúðirnar sambærilegar við sérbýli hvað varðar stærð og gæði.

Á bilinu 7-8 milljarðar

Fram hefur komið að samanlagt eru íbúðirnar um 7.900 fermetrar. Miðað við að fermetrinn kosti að meðaltali 800 þús. er söluverðmæti íbúðanna alls 6,3 milljarðar. Með hliðsjón af verði þakíbúða er þetta hóflegt mat. Líklegra er að verðmætið sé 7-8 milljarðar. Með því er verkefnið eitt það stærsta sinnar tegundar í miðborginni.

Spurður um fermetraverð segir Þorvaldur að það sé ekki frágengið. Nokkur munur verði milli hæða. Það hækki eftir því sem ofar dregur.

Á aðra milljón króna

Hann staðfestir hins vegar að fermetraverð í þakíbúðum verði vel á aðra milljón. Samkvæmt því gæti 440 fermetra þakíbúð í G1 kostað rúmar 400 milljónir. „Við höfum tekið frá hluta af íbúðunum á efstu hæð og endurhannað þær, stækkað og sameinað,“ segir Þorvaldur og staðfestir að þetta sé gert að ósk væntanlegra kaupenda. Hann segir íbúðirnar í hæsta gæðaflokki.

„Hönnun og frágangur á íbúðum verður í hæsta klassa sem þekkist hérlendis. Það er sérstaklega vandað til innréttinga sem eru sérsmíðaðar. Í öllum íbúðum er loftræstikerfi sem tryggir betri innivist, sömuleiðis þráðlaus kerfisstýring fyrir ljós og búnað. Í flestöllum íbúðum eru tvö baðherbergi og þá er meiri lofthæð en gengur og gerist. Í öllum íbúðum eru mjög vönduð rafmagnstæki og hreinlætistæki. Sömuleiðis eru gólfefni, flísar og allt efnisval og frágangur af mjög vandaðri gerð,“ segir Þorvaldur og leggur áherslu á að staðsetningin sé einstök. Íbúðirnar séu góð fjárfesting.

„Þetta er einstakt tækifæri. Það verður ekki meira byggt á þessum stað. Þetta er í hjarta miðbæjarins og inni í þessum nýja hluta miðbæjarins sem mun gjörbreyta miðbæjarstemningunni í Reykjavík. Að mínu mati vantaði slíkan klasa í miðbæinn. Þá ekki síst til að styðja við og draga fram Hörpuna. Allt þetta svæði mun taka mið af henni. Þetta er svipað og í stórborgum víða erlendis. Þar eru víða miklar og ráðandi glæsibyggingar eins og óperuhús. Það má segja að Harpa sé okkar óperuhús.“

Bílastæðamálin í skoðun

Þorvaldur segir mögulegt að kaupa bílastæði með íbúðunum. Undir Hafnartorginu og Austurhöfninni sé „stærsti bílakjallari landsins“ með 1.100 til 1.200 stæðum. Útfærslan sé í vinnslu. Það sé ekki ólíklegt að farin verði svipuð leið og í nýjum íbúðaturni í Bríetartúni 9-11. Þar eru stæðin leigð.

„Þetta verður líflegt svæði og mikið mannlíf í átt við það sem fólk þekkir frá erlendum stórborgum. Þar þykir vinsælt og eftirsóknarvert að eiga íbúðir við ákveðnar götur þar sem verslun, veitingahús og þess háttar þjónusta er til staðar. Við erum að vinna út frá svipaðri hugmynd. Þetta hefur heppnast gríðarlega vel í öðrum borgum. Þar má til dæmis nefna Ósló, Stokkhólm, Helsinki og Kaupamannahöfn.“

Umhirðan í hæsta gæðaflokki

Þorvaldur segir umhirðu og hreinsunarstarf í hæsta gæðaflokki. Íbúar muni njóta þess að Reykjavíkurborg og rekstraraðilar á jarðhæð munu taka þátt í þrifum á sameiginlegu rými.

„Það verður tryggt að öll þjónusta og umhirða verður til fyrirmyndar á svæðinu. Hún er samtengd á öllum lóðunum, þar með talið Hörpu,“ segir Þorvaldur og vísar til Hafnartorgs og Austurhafnar. Varðandi þrif á íbúðum segir hann til skoðunar að bjóða kaupendum að kaupa þrif. Samhliða íbúðunum eru samtals 6.100 fermetrar af skrifstofurými til leigu í tveimur húsum sem snúa að Arnarhóli. Þorvaldur segir mikinn áhuga fyrir skrifstofurýmum á svæðinu. Nú þegar séu í gangi viðræður um útleigu á stórum hluta þeirra. Að auki eru verslunar- og þjónusturými á jarðhæð allra sjö bygginganna á svæðinu.