Helga Áslaug Þórarinsdóttir var fædd í Reykjavík 14. júlí 1927. Hún lést mánudaginn 23. apríl 2018.

Hún var dóttir hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur húsmóður, f. 4.1. 1900, d. 20.6. 1989, og eiginmanns hennar, Þórarins Magnússonar skósmiðs, f. 29.3. 1895, d. 18.3. 1982. Systkini Helgu voru Guðmundur íþróttakennari, f. 24.3. 1924, d. 29.11. 1996, Magnús, smiður og síðar sviðsstjóri Þjóðleikhússins, f. 4.1. 1926, d. 11.6. 1996, Guðbjörg Ólína ritari, f. 30.11. 1929, d. 13.7. 2016, og Þuríður Þórarinsdóttir húsmóðir, f. 10.3. 1932, d. 26.7. 2017.

Helga útskrifaðist frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1945 og fór þá að vinna hjá Ríkisútvarpinu og Sjúkratryggingum Íslands en fór síðan í Kennaraskólann og útskrifaðist sem handavinnukennari 1963. Þá hóf hún störf í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði og vann þar í 25 ár en kenndi samhliða námi í Kvennaskólanum og síðar svo í Hagaskóla. Helga var virkur félagi í Þjóðdansafélaginu og kenndi þar dans í áratugi. Helga starfaði einnig mikið í Farfuglum, Heimilisiðnaðarfélaginu o.fl. félagasamtökum. Hún hafði unun af ferðalögum, hvort sem var innanlands, í Þórsmörk eða berjamó fyrir norðan, eða utan, og hafði farið til 48 landa og tvisvar kringum hnöttinn. Helga var ógift og barnlaus.

Helga Áslaug verður jarðsungin frá Háteigskirkju í dag, 15. maí 2018, klukkan 15.

Helga frænka kvaddi sátt síðust af systkinum sínum og búin að eiga góða og viðburðaríka ævi. Hún var vel lesin, mikið sigld og virk kona. Miðað við konur af hennar kynslóð hafði hún ferðast óvenjumikið bæði innan og utanlands og tekið þátt í ótal ráðstefnum, þingum, námskeiðum og hverju því sem hennar fjölbreyttu áhugamál tengdust. Hún var ákveðin kona, ekki allra, en vinamörg og lét ekkert stoppa sig í því sem hún hafði ákveðið að gera sem kristallaðist í að fara á níræðisafmælinu sínu í Þórsmörk og smala í fulla rútu af fólki af því að hún var ekki búin að kveðja mörkina og Slyppugilið. Hún samsamaði sig ekki við sína kynslóð, taldi sig eiga meira sameiginlegt með fólki í kringum fertugt. Það var þessi trú og lífskraftur sem kom henni alltaf aftur á lappirnar þó að hún fengi slag, mjaðmagrindarbrotnaði eða hvað það var. Hún var mikill Borgfirðingur þó að hún hefði alið manninn í Reykjavík fram yfir áttrætt og bar sterkar taugar til upprunasveitar fjölskyldunnar.

Síðustu mánuðir og ár hafa verið henni erfið þar sem hún fann vanmátt sinn og að skrokkurinn væri að eldast þó að hugurinn héldist ferskur og var nú í lokin tilbúin að slaka á og gefa sig svefninum langa á vald. Megi hún hvíla í friði.

Sigrún Björg Þorgrímsdóttir.

Hún Helga okkar Þór hefur kvatt þetta líf. Hún átti langt og fjölbreytt líf. Helga var Farfugl í orðsins fyllstu merkingu. Hún var virkur félagi í Farfuglafélaginu og ferðaðist mikið erlendis á þeirra vegum og tók þátt í mörgum alþjóðlegum mótum. Hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík og skaraði fram úr í handavinnu.

Hún fór að vinna hjá Tryggingastofnuninni og færði sig síðan yfir til útvarpsins í Útvarpshúsið við Austurvöll. Þá fór hún í Kennaraskólann og gerðist síðan handavinnukennari.

Hún var ein af stofnendum Þjóðdansafélags Reykjavíkur 1951. Hún fór strax í fyrsta sýningarflokk félagsins enda góður dansari.

Hún fylgdist vel með öllu sem fram fór í félaginu og tók þátt í sýningum og gerðist danskennari. Hún fór með í flestar sýningar erlendis. Þjóðdansafélagið tók þátt í samstarfi Norðurlanda um þjóðdansa, músík og búninga. Fyrsta ferð félagsins var á alþjóðlegt mót í þjóðdönsum 1955. Helga var með í þeirri ferð. Næsta ferð var á Norðurlandamót í Osló 1963. Þá voru saumaðir íslenskir þjóðbúningar á alla herrana og það voru saumaðir 6 faldbúningar og nokkrir upphlutir af eldri gerð (19. aldar) og Helga saumaði sinn faldbúning. Þetta var í fyrsta sinn sem eldri gerðir af íslenskum þjóðbúningum (eftirgerðir) voru kynntar og vöktu þær mikla athygli. Eftir Norðurlandamótin 1966 og 1970 var farið í Evrópuferð og sýnt í Þýskalandi, Hollandi, Belgíu, Austurríki og Ungverjalandi. Seinna var farið til fleiri Evrópulanda.

Meðan Þjóðdansafélagið var með árlegar vorsýningar kenndi Helga erlenda dansa og lagði sig fram um að hafa allt sem réttast. Hún fékk dansara til að taka þátt í samstarfi um gerð búninganna, því reynt var að dansa í búningum frá viðkomandi landi, þannig njóta dansarnir sín best. Þegar sýndir voru dansar frá Panama og Suður-Ameríku þurfti oft að útbúa blómaskreytingar og kransa. Helga var óþreytandi í þessu öllu. Hún fór til Japans og þá voru sýndir japanskir dansar í japönskum búningum. Einn dans var frá Mexíkó, dansaður af átta herrum, allir þurftu að styðja sig við staf því þetta var öldungadans og allir í eins búningum.

Helgu langaði að halda upp á 90 ára afmælið í Þórsmörk, hún fékk rútu og tókst að framkvæma það. Þetta var eftirminnileg ferð, þrátt fyrir rigningu.

Það var punkturinn yfir i-ið að fá að vera með í þeirri ferð.

Nú er skarð fyrir skildi á mörgum sviðum og við eigum eftir að sakna hennar. Blessuð sé minning hennar og við sem höfum starfað með henni á ýmsum sviðum vottum aðstandendum dýpstu samúð.

Dóra G. Jónsdóttir.

Það eru orðin mörg ár síðan við Helga hittumst fyrst. Þátttaka í dansi með Þjóðdansafélagi Reykjavíkur leiddi okkur saman og síðar meir þegar hún gerðist handavinnukennari.

Helga vann alla tíð mikið og óeigingjarnt starf fyrir Þjóðdansafélag Reykjavíkur. Hún var góður danskennari og listakona við að sauma íslenska búninga. Hún kunni ógrynni af erlendum þjóðdönsum og lagði sig mjög eftir að vita sem mest um íslensku vikivakana, vefaradansinn og gömlu dansana svo eitthvað sé nefnt. Margvísleg tónlist þurfti að vera til svo hægt væri að kenna bæði börnum og fullorðnum erlendu dansana og ekki miklir peningar hjá Þjóðdansafélaginu til að greiða hljóðfæraleikurum við danskennsluna, svo að við Helga tókum okkur til og söfnuðum erlendu þjóðlögunum inn á segulbandsspólur, flokkuðum tónlistina eftir því hvort nota ætti spólurnar við barnakennslu eða fyrir fullorðna. Fleiri eftirmiðdaga sátum við á stofugólfinu heima hjá mér við þessa vinnu, sem var að sjálfsögðu sjálfboðavinna sem gæti nýst hjá Þjóðdansafélaginu.

Veturinn 1962–1963 fórum við að leggja leið okkar ásamt fleirum á Þjóðminjasafnið þar sem Elsa Guðjónssen sá um gömlu íslensku búningana. Til stóð að við tækjum þátt í norrænu þjóðdansamóti á vegum Þjóðdansafélagsins vorið 1963 og nú skyldu bæði herrar og dömur

klæðast þjóðbúningum eins og þeir hefðu verið á 18. og 19. öld. Við fengum aðstoð frá Elsu til að skoða gömlu búningana, tókum upp snið og teiknuðum upp mynstur og í framhaldi af því fór Helga að knippla blúndur, spjaldvefa bönd, sauma blómstursaum og baldera. Hún varð snillingur í allri þessari gömlu handavinnu og síðan hefur hún gefið Þjóðdansafélaginu kyrtilbúninga og fleiri búninga og búningshluta sem hún vann sjálf. Hún sá líka í mörg ár um viðhald og útleigu á búningum félagsins. Hún gat líka alltaf tekið fyrirvaralaust að sér að stjórna dansæfingum því að hún kunni dansana sem verið var að æfa hvort sem þeir voru íslenskir eða erlendir. Ef við Jón tókum að okkur smá danssýningar innan þeirra félaga sem við höfum unnið með, gátum við alltaf leitað til Helgu og hún kenndi okkur hvort sem það var franskur menuett, grískir dansar eða sænski uxadansinn og auðvitað skaffaði hún okkur tónlistina líka. Þetta var ómetanlegt fyrir okkur að geta alltaf leitað til Helgu.

Á áttunda áratug síðustu aldar fór Helga með okkur Jóni í eftirminnilega gönguferð um Hornstrandafriðland. Við Jón vorum með börnin okkar 8 og 14 ára og vorum 6 fullorðin saman. Á þeim tíma voru bakpokarnir með grind og svefnpokarnir teppispokar, lítið um þurrmat og regngallarnir þungir, við vorum því með þungar byrðar. Þetta var vikuferð að mestu í þoku og rigningu, en Helga var reynd ferðakona og var okkur mikill styrkur, alltaf í góðu skapi, þrekmikil og ráðagóð.

Við höfum átt margar góðar stundir með Helgu bæði hérlendis og erlendis til dæmis á norrænum þjóðdansamótum og þökkum henni þær góðu stundir og ómetanlega vináttu.

Blessuð sé minning hennar,

Matthildur Guðmundsdóttir.