Grjótkrabbi Fannst fyrst hér fyrir 12 árum.
Grjótkrabbi Fannst fyrst hér fyrir 12 árum. — Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Til stendur að gera breytingar á fyrirkomulagi krabbaveiða með það að markmiði að gefa áhugasömum útgerðum kost á krabbaveiðum án takmarkana.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Til stendur að gera breytingar á fyrirkomulagi krabbaveiða með það að markmiði að gefa áhugasömum útgerðum kost á krabbaveiðum án takmarkana. „Í ljósi lítillar veiði er til skoðunar breytt fyrirkomulag krabbaveiða, sem hefði það markmið að gefa áhugasömum útgerðum kost á krabbaveiðum án takmarkana,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur því óskað eftir athugasemdum við drög að nýrri reglugerð fyrir 25. maí. Reiknað er með að nýtt fyrirkomulag taki gildi 1. september í haust.

Þrjú leyfi í gildi á innanverðum Faxaflóa

Krabbaveiðum við strendur landsins er nú stjórnað annars vegar með reglugerð um veiðar á kröbbum í innanverðum Faxaflóa og hins vegar reglugerð um takmarkanir á heimild til veiða á kröbbum. Þannig er krabbaveiðum utan Faxaflóa stjórnað með tilraunaleyfum og eru þau veitt af ráðneytinu skv. umsókn viðkomandi. Öllum bátum á aflamarki eða krókaaflamarki er heimilt að sækja um slíkt leyfi.

Í innanverðum Faxaflóa byggjast veiðar á reglugerð og eru veiðarnar takmarkaðar. Á svæðinu eru í gildi þrjú veiðileyfi og má hver bátur vera með 500 gildrur í sjó og skylda er að landa fjórum tonnum til að halda forgangi við úthlutun veiðileyfa.

Í upplýsingum á vefnum kemur fram að sérleyfi um veiðar á kröbbum í innanverðum Faxaflóa hafa ekki verið nýtt sem skyldi og veiðarnar lítt verið stundaðar. Tilgangur eldri reglugerðar hafi verið að skapa útgerðum ákveðinn fyrirsjáanleika og rými til veiða.

Samkvæmt drögum að nýrri reglugerð verður tekið upp nýtt leyfisveitingakerfi. Samkvæmt því skal Fiskistofa gefa út leyfi til krabbaveiða óháð svæðatakmörkunum eða fjölda leyfa. Sérreglur vegna innanverðs Faxaflóa verða þannig felldar niður og tilraunaleyfi ráðherra utan Faxaflóa verða óþörf. Gert er ráð fyrir sérreglum um veiðarfæri, vitjun og merkingu lagna, afladagbækur, vigtun, skráningu og samsetningu afla eins og var í eldri reglugerð.

Hröð útbreiðsla

Samkvæmt yfirliti á vef Fiskistofu hefur Fjóla GK 121 verið afkastamest við veiðar á grjótkrabba síðustu ár, að undanskildu fiskveiðiárinu 2016-17. Það sem af er þessu ári hefur báturinn komið með hátt í sex tonn að landi. Grjótkrabbinn fannst fyrst við Ísland árið 2006 í Hvalfirði og hefur aukning útbreiðslu hans hefur verið mjög hröð.