Á morgun verður aðeins mánuður þar til flautað verður til fyrsta leiks Íslands í lokakeppni heimsmeistaramóts í knattspyrnu. Messi og félagar í argentínska landsliðinu mæta okkar mönnum í Moskvu 16. júní.
Á morgun verður aðeins mánuður þar til flautað verður til fyrsta leiks Íslands í lokakeppni heimsmeistaramóts í knattspyrnu. Messi og félagar í argentínska landsliðinu mæta okkar mönnum í Moskvu 16. júní.

Í gær rann út fresturinn til að skila nöfnum í 35 manna hópum til FIFA og við sáum íslenska hópinn strax á föstudag. Reyndar endanlega 23 manna hóp og tólf til vara.

Króatar hafa verið sérstakir „vinir“ okkar undanfarin ár og sigurinn á þeim á Laugardalsvelli síðasta sumar er einhver sá sætasti og mikilvægasti í sögu karlalandsliðsins okkar.

Þeir létu sér 32 manna hóp duga og þar eru mörg kunnugleg nöfn á ferð. En það er ekki laust við að smá hrollur fari um mann við að lesa yfir nöfn félagsliðanna sem þeir leika með.

Real Madrid (tveir), Barcelona, Juventus, Inter Mílanó (tveir), Liverpool, AC Milan, Schalke, Napoli, Atlético Madrid, Frankfurt, Leverkusen, Sampdoria eru m.a. á þeim lista.

Argentína er með snjalla leikmenn frá Barcelona, Manchester United, Manchester City, Juventus, Atlético Madrid, Roma, Sevilla og París SG, svo fátt eitt sé nefnt í þeim stjörnufansi.

Hjá Nígeríu er þetta aðeins hófstilltara, svona eins og millistig frá hinum tveimur að því íslenska. En Nígeríumenn skarta mönnum frá t.d. Chelsea, Arsenal, Leicester og Torino.

En þó að í byrjunarliði Íslands verði leikmenn frá Val, Randers, Bristol City og Reading þá gera nöfnin sem betur fer ekki útslagið eftir að flautað verður til leiks!