Hátt verðlag Dýrari flugmiðar gætu haft áhrif á fjölda farþega sem stoppa stutt á leið yfir hafið.
Hátt verðlag Dýrari flugmiðar gætu haft áhrif á fjölda farþega sem stoppa stutt á leið yfir hafið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir hækkandi olíuverð geta haft víðtækari afleiðingar en birtast í bensínverðinu. Það geti t.d. bitnað á flugfélögunum.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir hækkandi olíuverð geta haft víðtækari afleiðingar en birtast í bensínverðinu. Það geti t.d. bitnað á flugfélögunum.

„Hækkandi heimsmarkaðsverð á eldsneyti er þegar farið að hafa áhrif á eldsneytisverð hér á landi. Verð á bensíni og díselolíu hérlendis hefur hækkað um ríflega 3% að jafnaði frá byrjun apríl samkvæmt okkar mælingum. Eldsneytisverð vegur rúm 3% í vísitölu neysluverðs, og því jafngildir þessi hækkun 0,1% heildaraukningu á neysluútgjöldum heimilanna undanfarnar vikur.“

Veldur kostnaðarþrýstingi

„Áhrif af hækkun eldsneytisverðs á verðlag eru þríþætt. Fyrst koma bein áhrif á dæluverðið á innlendum bensínstöðvum. Þau áhrif skila sér að mestu á 1-3 mánuðum. Því næst koma áhrif á ýmsa liði þar sem eldsneyti vegur þungt í kostnaði, eins og til dæmis flugfargjöld. Loks skilar hækkun eldsneytisverðs sér í almennum kostnaðarþrýstingi vegna hærri flutningskostnaðar á innfluttum vörum og kostnaðarauka við samgöngur almennt. Heildaráhrifin koma að stærstum hluta í gegn á hálfu ári eða svo og geta orðið talsvert meiri en þau beinu áhrif sem við finnum fyrir á eldsneytisdælunni.“

Jón Bjarki segir dýrari olíu geta dregið úr eftirspurn eftir flugi.

Ýtti undir vöxt ferðaþjónustu

„Það hefur verið talið samband milli þess hvað olíuverðið féll hratt, úr 100 dölum tunnan í 30 frá miðju ári 2014 til ársbyrjunar 2016 annars vegar og uppgangs lággjaldaflugfélaga hins vegar í flugi yfir hafið. Þetta er langt flug og eldsneytiskostnaður vegur töluvert í heildarkostnaði. Lágt eldsneytisverð hefur því gert WOW air, Norwegian og öðrum lággjaldaflugfélögum kleift að keppa út frá sterkari grunni með tiltölulega lágum flugfargjöldum.“

Jón Bjarki segir aðspurður að dæmið sé að snúast við. Þessi áhrif bætist við hátt verðlag á Íslandi mælt í erlendri mynt.

Jón Bjarki segir afleiðinguna þá að verð flugmiða muni væntanlega hækka. Það geti aftur dregið úr eftirspurn eftir stuttum ferðum ferðamanna sem millilenda á Íslandi á leiðinni yfir hafið. Samandregið telur Jón Bjarki horfur á minni vexti ferðaþjónustunnar. Það muni aftur hægja á hagvexti og vexti kaupmáttar. Áhrifin skýrist næstu mánuði.

Stór hlutinn kominn fram

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, segir verð á Norðursjávarolíu hafa farið lægst í 46 dali í fyrra.

„Síðan hefur það hækkað nokkuð jafnt og þétt og var komið upp í 73 dollara í apríl sl. Verðhækkunin nemur 58%. Á þessu tímabili hefur útsöluverð á bensíni og díselolíu hér á landi hækkað um 11,4%. Ástæðan fyrir þessum mismun í hækkun liggur að hluta til í því að á þessu tímabili hefur gengi krónu styrkst aðeins gagnvart dollar. Meginástæðan er þó sú að hið opinbera leggur töluverð föst krónutölugjöld ofan á hvern lítra. Þess vegna verða verðbreytingar á útsöluverði eldsneytis ávallt mun minni en sem nemur verðbreytingum á heimsmarkaðsverði olíu.

Í apríl hækkaði heimsmarkaðsverð á olíu um 10% og má gera ráð fyrir að stór hluti þeirrar hækkunar sé þegar kominn fram í útsöluverði hér á landi en breytingar á heimsmarkaðsverði skila sér jafnan nokkuð hratt í bensínverð hér á landi. Á síðustu árum hafa verðbreytingar á hráolíu skilað sér inn í bensínverð í sama mánuði eða mánuð á eftir. Í dag vega eldsneytiskaup íslenskra heimila um 0,32% af neyslukörfu þeirra. Þessar hækkanir á eldsneyti á undanförnum mánuðum hafa því ekki haft mikil áhrif á kaupmátt íslenskra heimila.“