Sveinn Rúnar Hauksson
Sveinn Rúnar Hauksson
Eftir Svein Rúnar Hauksson: "Viðbrögð Ísraelsstjórnar voru að gefa 100 leyniskyttum Ísraelshers frjálst skotleyfi á óvopnaða mótmælendur."

Þann 30. mars hófust í Palestínu mótmæli sem verið hafa mest áberandi á Gazasvæðinu, friðsamleg mótmæli undir heitinu Gangan mikla fyrir heimkomu flóttafólks. 70 ár eru liðin frá upphafi hörmunganna (Nakba) þegar helmingur palestínsku þjóðarinnar var hrakinn frá heimkynnum sínum og hefur fólkið og afkomendur þess ekki fengið að snúa heim aftur. Þeir sem eftir urðu búa við hernám, innilokun, skert ferðafrelsi, kúgun í stóru og smáu, fangelsanir, meiðingar og manndráp.

Á hverjum föstudegi hafa þúsundir manna safnast saman og reist tjöld í nokkur hundruð metra fjarlægð frá landamærunum við Ísrael. Sex föstudaga í röð hafa tjöldin færst nær. Viðbrögð Ísraelsstjórnar voru að gefa 100 leyniskyttum Ísraelshers frjálst skotleyfi á óvopnaða mótmælendur og hafa 50 manns verið drepnir þar á meðal fimm börn. Þá hafa nærri níu þúsund manns verið særð skotsárum og eru hundruð þeirra alvarlega særð. Margir hafa verið skotnir í fótleggi og misst fætur. Borist hefur beiðni til Íslands um að senda nú meira efni í gervifætur.

Mótmælin gegn hernámi Palestínu og fyrir heimkomu flóttfólks munu ná hámarki á þriðjudaginn 15. maí og þann dag munu Palesstínumenn á Íslandi og þeir sem styðja rétt palestínsku þjóðarinnar til að lifa við mannréttindi og frið í sínu landi koma saman á Austurvelli kl. 17.

Höf. er læknir og heiðursborgari í Palestínu srhauks@gmail.com

Höf.: Svein Rúnar Hauksson