Sigríður Einarsdóttir fæddist 7. júní 1943. Hún varð bráðkvödd 29. apríl 2018.

Sigríður var jarðsungin 11. maí 2018.

Mig langar að minnast kollega míns, Sigríðar Einarsdóttur, sem fallin er frá. Fregnin um andlát Sigríðar kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, Sigríður geislaði ávallt af lífsþrótti og gleði, það er mikill missir að henni.

Framlag Sigríðar til píanókennslu og menntunar píanókennara landsins og þá einlægur áhugi hennar og stuðningur við tónlistarfólk og störf þess var mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem myndar hið þróttmikla tónlistarlíf sem við státum af á Íslandi. Ég minnist Sigríðar með söknuði og þakklæti og sendi fjölskyldunni hugheilar kveðjur á þessum erfiðu tímum með tilvitnun í bók Árna Kristjánssonar um Chopin: „Ekkert tónverk er ein samfelld opinberun. Tónverkinu vindur fram í tímanum. Hið liðna var, hið ókomna verður, en ekkert er nema í minni þess er við tekur.“

Nína Margrét Grímsdóttir.