Búlandstindur Unnið við snyrtingu á regnbogasilungi í frystihúsi Búlandstinds á síðasta ári. Nýja kerfið nýtist við laxaslátrun sem nú er í gangi.
Búlandstindur Unnið við snyrtingu á regnbogasilungi í frystihúsi Búlandstinds á síðasta ári. Nýja kerfið nýtist við laxaslátrun sem nú er í gangi. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Þetta gerir okkur kleift að pakka laxinum í kassa við einnar gráðu frost árið um kring.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þetta gerir okkur kleift að pakka laxinum í kassa við einnar gráðu frost árið um kring. Með því tryggjum við mestu mögulegu gæði og fiskurinn fær 3-5 daga auka-geymsluþol,“ segir Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða. Búlandstindur á Djúpavogi sem slátrar og pakkar laxinum fyrir fyrirtækið hefur tekið í notkun nýtt kerfi, svokallað ofurkælikerfi, við slátrun á laxi.

Kerfið er hannað af fyrirtækinu Skaginn 3X. Það afkastar allt að 13 tonnum á sólarhring. Ekki þarf að setja nema lítið af ís í kassana til kælingar við útflutning. Það sparar flutningskostnað og umbúðirnar nýtast betur. Þá er það mikilvægt að ofurkælingin lengir geymsluþol fisksins. Guðmundur segir að það komi sér vel vegna þess að Ísland er lengra frá mörkuðum en helstu samkeppnislönd.

Slátra fyrir bæði fyrirtækin

Laxar fiskeldi sem er að byggja upp laxeldi í Reyðarfirði og víðar á Austfjörðum hefur keypt þriðjungshlut í Búlandstindi á móti Fiskeldi Austfjarða og hlutafélagi heimamanna. Búlandstindur mun slátra fyrir bæði fyrirtækin og mun nýja kerfið auðvelda það.

„Þetta gengur mjög vel. Við erum að slátra um 100 tonnum á viku. Markaðir eru einstaklega góðir, hátt verð og mikil eftirspurn,“ segir Guðmundur.

Fiskeldið hefur mikil áhrif í Djúpavogshreppi. Um 40 starfsmenn eru hjá Búlandstindi og 20 við sjókvíaeldi Fiskeldis Austfjarða þannig að bein störf við eldið eru 60 í um 460 manna sveitarfélagi.

Bæði fiskeldisfyrirtækin eru í stækkunarferli og bíða eftir nýjum leyfum. Fiskeldi Austfjarða hefur leyfi fyrir eldi á 11 þúsund tonnum í Berufirði og Fáskrúðsfirði og hefur sótt um stækkun í báðum fjörðunum og nýtt eldissvæði í Stöðvarfirði.