Garðabær Ráðhústurninn á Garðatorgi er eitt þekktasta kennileiti bæjarins. Á Garðatorgi hefur verið nokkur uppbygging bæði íbúða og atvinnuhúsnæðis síðustu ár, sem íbúar lýsa yfir ánægju með.
Garðabær Ráðhústurninn á Garðatorgi er eitt þekktasta kennileiti bæjarins. Á Garðatorgi hefur verið nokkur uppbygging bæði íbúða og atvinnuhúsnæðis síðustu ár, sem íbúar lýsa yfir ánægju með. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Þór Ingólfsson athi@mbl.is Fjórir flokkar bjóða fram til bæjarstjórnar í Garðabæ að þessu sinni, Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Garðabæjarlistinn.

Arnar Þór Ingólfsson

athi@mbl.is

Fjórir flokkar bjóða fram til bæjarstjórnar í Garðabæ að þessu sinni, Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Garðabæjarlistinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft tögl og hagldir í Garðabæ um áratuga skeið og lítil breyting virðist ætla að verða á því, en samkvæmt könnun sem birtist á síðum Fréttablaðsins í liðinni viku ætluðu rúmlega sex af hverjum tíu Garðbæingum sem tóku afstöðu að kjósa flokkinn.

Sveitarfélagið stendur sterkt fjárhagslega, skuldahlutfallið er 85% og meðallaun íbúa í Garðabæ eru hærri en íbúa á höfuðborgarsvæðinu í heild sinni. Þá er útsvarsprósentan 13,7% og eru Garðbæingar því ásamt Seltirningum þeir íbúar höfuðborgarsvæðisins sem greiða minnstan hluta tekna sinna til sveitarfélagsins.

Íbúar í Garðabæ sem Morgunblaðið ræddi við lýstu flestir yfir ánægju með það að búa í Garðabæ og hrósuðu þjónustu sveitarfélagsins. Sérstaklega minntust íbúar á að bærinn væri að gera vel í skólamálum, íþrótta- og æskulýðsstarfi og umönnun aldraðra.

En húsnæðismál og þá sérstaklega húsnæðismál ungs fólks í Garðabæ komu einnig upp og er talið barst að þeim málaflokki voru ekki allir jafn ánægðir, því að þrátt fyrir töluvert mikla húsnæðisuppbyggingu í Garðabæ á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka segja íbúar að ungu fólki hafi reynst erfitt að finna íbúðir á viðráðanlegu verði innan bæjarmarkanna, þar sem fáar litlar íbúðir eru í boði í Garðabæ.

Íbúðir á uppsprengdu verði

Hárgreiðslukonan Guðrún Sverrisdóttir rekur sína eigin hárgreiðslustofu á Garðatorgi. Hún hefur búið í Garðabæ í 51 ár og blaðamaður fékk ábendingu um að þar væri á ferðinni „gallharður Garðbæingur“ sem lægi ekki á skoðunum sínum. Það reyndist rétt.

„Þetta er bara svo uppsprengt verð á þessu hjá þessum verktökum sem eru að byggja þetta að það er náttúrlega bara ekki í lagi,“ segir Guðrún um húsnæðismál unga fólksins, sem henni þykir vera aðalmálið sem sveitarfélagið ætti að einbeita sér í að laga.

Hún segir unga fólkið sem alist hafi upp í Garðabæ vilja snúa til baka í bæinn, en það reynist oft illmögulegt. „Það hafa bara verið of dýrar íbúðir fyrir krakka að kaupa hérna. En þau koma nú mörg aftur eftir að hafa byrjað á að koma sér fyrir annars staðar. Þegar þau fara að stækka við sig þá koma þau mörg aftur. En ég vona að þau fari að gera eitthvað í þessum málum. Ég held þau séu að gera það, það er svona á döfinni heyrist mér,“ segir Guðrún, sem hefur rekið hárgreiðslustofu sína á Garðatorgi í 32 ár og var sú fyrsta sem opnaði atvinnurekstur í húsnæðinu.

Garðatorgið á uppleið

„Ég er búin að vera hérna alla tíð síðan,“ segir Guðrún og bætir því við að hún sé ánægð með uppbygginguna í miðbæ Garðabæjar undanfarin ár. „Þetta er allt á uppleið, það eru mjög vinsæl fyrirtæki sem eru komin hérna á torgið og fólk er farið að koma hérna meira, úr bænum og svona.“

ÁTVR lokaði verslun sinni á Garðatorgi árið 2010 en opnaði í fyrra nýja verslun innan bæjarmarkanna, í Kauptúni. Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa lýst yfir vilja sínum til að fá ÁTVR aftur á Garðatorg en Guðrún telur að það sé fullreynt.

„Það hefði verið æskilegt að fá það hérna en ég held að það verði ekki af því,“ segir Guðrún.

Af öðrum málum í bænum hefur Guðrún góða sögu að segja. Hún segir að í Garðabæ sé ávallt vel hugsað um götur og aðrar sameignir bæjarins og að skólamál séu í góðum farvegi. „Alltaf vel hugsað um það,“ segir Guðrún.

Um 9.000 skráðir iðkendur

Í Garðabæ er mikil þátttaka í íþróttastarfi og ýmislegt að gerast varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja. Nýlega var Ásgarðslaug opnuð á ný eftir endurbætur, í Ásgarði er einnig verið er að endurnýja gólfið í körfuboltasalnum, nýlega var skipt um gervigras á aðalfótboltavelli Stjörnunnar og þá er stefnt að byggingu fjölnota íþróttahúss sem rúmar m.a. heilan fótboltavöll í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða, svo eitthvað sé nefnt.

„Nýjustu tölur segja okkur að innan ÍSÍ séu um 9.000 iðkendur í Garðabæ. Það er ansi gott fyrir 15.000 manna samfélag að vera með 9.000 iðkendur,“ segir Kári Jónsson, íþróttafulltrúi Garðabæjar. Hann tekur þó að einhverjir iðkendur séu eflaust tvítaldir í bókum ÍSÍ þar sem þeir stundi fleiri en eina íþrótt.

Kári segir ágætlega hafa gengið að taka við stuðningi við íþróttastarf á Álftanesi eftir sameiningu sveitarfélaganna tveggja. „Þar er í grunninn bara þorp sem er bara sjálfstætt og þó að við höfum tekið yfir reksturinn þá höfum við passað upp á að styðja félagsstarf sem var á Álftanesi áfram og Umf. Álftaness, Golfklúbbur Álftaness og hestamannafélagið eru svona helstu íþróttafélögin,“ segir Kári, en einnig er ungmennum á Álftanesi sem iðka fimleika með Stjörnunni boðið upp á að ferðast til æfinga með frístundarútu, sem keyrir á klukkutíma fresti. Byggðin í Garðabæ hefur dreifst nokkuð og því fylgir uppbygging nauðsynlegra innviða í nærumhverfi íbúa. Í Urriðaholti kemur ekki íþróttaaðstaða fyrr en að loknum þriðja áfanga skólabyggingarinnar sem þar hefur verið tekin í notkun. „Þegar hverfið fer að byggjast almennilega upp þá kemur íþróttaaðstaðan en á meðan eru krakkarnir keyrðir í aðra skóla og nýta sér aðra íþróttaaðstöðu,“ segir Kári.