Fjölskyldan Ásta með börnin sín Tuma og Unu sem eru sex ára. Ásta segir móður sína Þórunni Óskarsdóttur hafa verið ómetanlega hjálp.
Fjölskyldan Ásta með börnin sín Tuma og Unu sem eru sex ára. Ásta segir móður sína Þórunni Óskarsdóttur hafa verið ómetanlega hjálp.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásta Hafþórsdóttir gervahönnuður hlaut norsku Gullruten-verðlaunin í flokki förðunar og búninga fyrir norsku sjónvarpsþættina Stories from Norway. Hún er búsett í Noregi ásamt 6 ára tvíburum.

Ásta Hafþórsdóttir gervahönnuður hlaut norsku Gullruten-verðlaunin í flokki förðunar og búninga fyrir norsku sjónvarpsþættina Stories from Norway. Hún er búsett í Noregi ásamt 6 ára tvíburum. Ásta hefur komið víða við í kvikmyndageiranum ásamt því að taka þátt í hjálparstarfi í Grikklandi þar sem hún kom á fót þvottaverkefni sem er umhverfisvænt og endurnýtir fatnað og teppi flóttafólks.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Verðlaunin sem ég fékk eru sambærileg við Emmy-verðlaunin sem einungis eru veitt fyrir sjónvarp,“ segir Ásta Hafþórsdóttir sem fyrir stuttu hlaut norsku Gullruten-verðlaunin ásamt Ida Astero Welle og Solveig Aksnes fyrir gervahönnun og búninga í sjónvarpsþáttunum Stories from Norway.

„Það eru veitt verðlaun í sama flokki fyrir gervahönnun og búninga. Konur í norskum kvikmyndaiðnaði berjast fyrir því að verðlaun verði veitt fyrir förðun annars vegar og búninga hins vegar,“ segir Ásta sem barðist fyrir því sama með Eddu-verðlaunin á Íslandi sem skilaði þeim árangri að verðlaunin eru nú veitt hvor í sínum flokki. Eddan er ólík Gullruten þar sem á Eddunni eru veitt verðlaun bæði fyrir sjónvarps- og kvikmyndagerð.

Góð leið til að kynna sig

„Ég fékk Edduna þegar hún var veitt í annað sinn ásamt Stefáni Jörgen sem er nýfallinn frá og ég hef einu sinni áður fengið tilnefningu í Gullruten,“ segir Ásta sem er vongóð um að barátta félags norskra kvenna í kvikmyndaiðnaði skili árangri bæði hvað varðar að slíta í sundur sameiginlega verðlaunaveitingu fyrir búninga og gervahönnun og virkt jafnrétti kynjanna í kvikmyndagerð.

„Við finnum fyrir góðum stuðningi leikstjóra og erum bjartsýnar á framhaldið,“ segir Ásta sem hefur enn ekki áttað sig á því hvað verðlaunin þýði fyrir hana. Flestir líta á þetta sem mikla virðingu og viðurkenningu á störfum í kvikmyndaiðnaðinum og góða leið til þess að kynna sig,“ segir Ásta sem starfað hefur í Noregi í átta ár og rekið Makeup design studio ásamt Dimitru Drakopoulou síðastliðin tvö ár.

„Ég var búin að vinna í 15 ár í kvikmyndageiranum á Íslandi þegar efnahagshrunið skall á og það var lítið um verkefni í kjölfarið. Mig hafði lengi dreymt um að búa og starfa erlendis og valdi því á milli Svíþjóðar þar sem ég lærði og Noregs þar sem ég bjó sem barn en ég er fædd í Vestmannaeyjum,“ segir Ásta og bætir við að Noregur hafi orðið fyrir valinu þar sem Ásta taldi að minni samkeppni væri í gervihönnunargeiranum og því meiri starfsmöguleikar fyrir hana.

„Það leið samt rúmt ár þar til ég fékk fyrsta verkefnið mitt og þá ákvað ég að flytja til Noregs,“ segir Ásta sem telur að hún hafi verið fyrsti Íslendingurinn sem útskrifaðist með þriggja ára háskólanám sem gervahönnuður.

„Gervahönnuður gerir meira en sminka eða förðunarfræðingur. Gervahönnun nær allt frá hálsi og upp úr, með skeggi, hárkollum og öllu.“

Ásta segir hark að sjá fyrir sér sem gervahönnuður og ekki verði fólk ríkt í þeim geira. En að fá að skapa í vinnunni séu forréttindi sem ekki öllum bjóðist og hún upplifi það á hverjum degi í vinnunni.

Fjarvera frá fjölskyldunni

„Ég sem einstæð móðir tvíbura á 7. aldursári væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag nema vegna ómetanlegrar hjálpar móður minnar, Þórunnar Óskarsdóttur,“ segir Ásta og bætir við að starfinu fylgi mikil fjarvera. Algengt sé að myndir og þættir séu teknir upp í Austur-Evrópu þar sem allur kostnaður við gerð leikmynda og launakostnaður sé lægri, auk þess sem vinnuafl á því svæði sé tilbúið að vinna lengri vinnudag en Norðmenn.

Ásta hrósar norska velferðarkerfinu sem hún segir styðja vel við bakið á einstæðum foreldrum og hún lifi betra lífi í Noregi sem einstætt foreldri heldur en á Íslandi.

„Ég hugsa samt um það á hverjum degi að flytja heim aftur og kannski kemur að því einhvern daginn að ég fái verkefni í hendurnar sem ég get unnið á Íslandi,“ segir Ásta sem tekur það fram að í Noregi líði fjölskyldunni vel, börnin séu í góðum skóla og sumarið og sólin komin. Hún segir það mikilsvert að í Noregi geti hún óskað eftir því að starfa sem launþegi við verkefni með tilheyrandi öryggi og réttindum þrátt fyrir að reka sitt eigið fyrirtæki.

Framundan hjá Ástu er gervahönnun í sænskri kvikmynd og mynd um hina þekktu sögupersónu í Noregi, Askeladen, auk syrpu sem sýnd verður á HBO sem er sambærilegt við Netflix. Í seríunni leika íslenskir, norskir, finnskir og sænskir leikarar.

„Í Askeladen sé ég um gervahönnunina en tek ekki þátt í að setja upp gervin á tökustað.“

Flóttamannaaðstoð

Árið 2015 var lítið að gera hjá Ástu og mikil umræða um flóttamannastrauminn til Evrópu.

„Það varð algjör sprenging í fjölda flóttamanna og ástandið heltók mig. Í stað þess að sitja á rassinum og fylgjast með fréttum langaði mig að leggja mitt af mörkum,“ segir Ásta sem hafði samband við Díönu Karlsdóttur sem bjó í Noregi og þær ákváðu að fara saman í fyrstu ferðina.

„Í þeirri ferð áttaði ég mig á því að það var ofboðslega mikið af sjálboðaliðum og margir sem völdu hvaða aðstoð þeir vildu veita. Ég hugsaði um það sem þurfti að bæta í innviðunum og enginn var að gera og setti af stað þvottaverkefnið,“ segir Ásta en það hafði verið venja að henda blautum fötum flóttamannanna og ullarteppum í þúsundatali sem UNICEF hafði útvegað og notuð höfðu verið í einn til tvo daga.

„Í stað þess að halda áfram að henda, söfnuðum við saman fötum og teppum og sömdum við efnalaug á staðnum. Við gátum þannig nýtt teppin aftur og látið nýja flóttamenn fá föt sem þeir þekktu og komið í veg fyrir umhverfisspjöll. Verkefnið er enn í gangi en ég kem ekki að því lengur,“ segir Ásta og bætir við að fólk þurfi ekki að fara í ferð til fjarlægra landa til að hjálpa til.

„Það er hægt að aðstoða fjölskyldur sem setjast að í ókunnum löndum. Í Noregi er mjög góður stuðningur. Ég hef fylgst með því hvernig almenningur á Íslandi styður við flóttamenn og það er gert á mjög góðan hátt.“

Ásta sem býr sig undir komandi verkefni segir að margra ára basl sé að skila sér í aukinni virðingu fyrir greininni.

„Það var mjög þekktur leikmyndahönnuður sem ég vann með á síðasta ári sem svaraði þegar hann var spurður hver áætlun hans væri með útlit myndar sem hann vann við. Hann sagði að fyrst tæki fólk eftir andliti fólks, svo sæi það hverju fólk klæddist og loksins tekur það eftir umhverfinu. Þetta sýnir mikilvægi gervahönnunar,“ segir Ásta sem lítur björtum augum til framtíðar.