Ásgeir Sumarliðason fæddist í Reykjavík 26.12. 1939. Hann lést á Ísafold (Þórsmörk) 28.4. 2018. Foreldrar Ásgeirs voru Sumarliði Gíslason sjómaður, f. 14.3. 1892, d. 1969, og k.h. Bóthildur Jónsdóttir húsmóðir, f. 18.10. 1897, d. 1989. Ásgeir var yngstur ellefu systkina. Eftirlifandi eru Gíslína, Sigríður, Stella, Inga, Gísli og Birgir.

Ásgeir giftist hinn 5.4. 1969 Valgerði M. Guðmundsdóttur snyrtifræðingi, f. 14.7. 1947. Foreldrar hennar voru Guðmundur Ólafsson, skipstjóri og síðar gjaldheimtustjóri í Hafnarfirði, f. 7.11. 1921, d. 1995, og Arnfríður Kristín Arnórsdóttir húsmóðir, f. 23.12. 1923, d. 2015. Fyrir átti Ásgeir synina Hilmar, f. 26.3. 1962, giftur Anne Frandsen og eiga þau tvö börn, og Þóri, f. 25. 8. 1963, giftur Bettinu Ásgeirsson og eiga þau fjögur börn.

Börn Ásgeirs og Valgerðar eru:

1) Guðmundur, f. 8.11. 1968, giftur Birnu Ívarsdóttur Sandholt og eiga þau fjögur börn. 2) Valur, f. 30.9. 1974, sambýliskona Laufey Guðmundsdóttir og eiga þau fjögur börn. 3) Hildur, f. 14.7. 1977, gift Bjarna Friðriki Jóhannessyni og eiga þau þrjú börn.

Ásgeir ólst upp á Hverfisgötu í Reykjavík. Hann starfaði fyrst sem símsmiður hjá Símanum og svo lengst af sem kranabílstjóri. Einnig var Ásgeir sjálfstætt starfandi vörubílstjóri.

Útför Ásgeirs fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 15. maí 2018, klukkan 13.

Með þessum ljóðlínum langar mig að kveðja minn ástkæra eiginmann Ásgeir (Geira) með þakklæti efst í huga.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Takk fyrir allt og allt. Hvíl í friði.

Þín ávallt,

Vala.

Elsku pabbi minn.

Að setjast niður og skrifa minningargrein um þig er svo óraunverulegt. Margt brölluðum við saman í gegnum tíðina og það eru dýrmætar minningar sem ylja manni um hjartarætur í gegnum þessa óbærilegu sorg. Efst í huga eru samverustundirnar okkar í sumarbústaðnum sem voru ófáar og skemmtilegar og auðvitað má ekki gleyma utanlandsferðunum með þér og mömmu sem voru ýmist á sólarströnd eða í stórborgum. Ofarlega í huga er þegar þú, mamma og amma komuð að sækja mig til USA eftir að hafa dvalið þar sem skiptinemi í eitt ár á mínu 19. ári og náðum við að ferðast þaðan líka til Kanada og enn þann dag í dag eru samskipti við fólkið sem tók mig að sér. Einnig ber að nefna fótboltaleikina með þínu gamla liði Fram, þar sem þú bæði dæmdir fyrir og spilaðir með enda mikill fótboltaáhugamaður.

Í seinni tíð þegar ég og Bjarni minn vorum að eignast okkar fyrsta hús saman varst þú ávallt fyrstur á staðinn til að hjálpa sem lýsti best þínum innri manni og ekki leyndi stoltið sér þegar við eignuðumst demantana okkar þrjá, þau Valgerði Tinnu, Þóru Margréti og Jóhannes Ásgeir. Búa þau að dýrmætum minningum um yndislegan afa sem við munum hjálpa þeim að varðveita. Þrátt fyrir að farið var að halla undan fæti hjá þér í seinni tíð sástu alltaf spaugilegu hliðarnar á öllum málum, enda með eindæmum mikill húmoristi og hafðir gaman af því að stríða fólki, sem þú gerðir óspart þrátt fyrir að vera orðin mjög veikur undir það síðasta. Á Ísafold varstu að sjálfsögðu vel liðinn og meira að segja gastu strítt bæði öðrum vistmönnum sem og starfsfólkinu. Ekki leyndi sér í þínum veikindum hversu starfsfólkinu á Ísafold þótti vænt um þig.

Elsku pabbi, þú getur vart ímyndað þér hversu ævinlega ég er þakklát fyrir það að þú gast fylgt mér upp að altarinu og glaðst með okkur í brúðkaupi okkar í maí í fyrra, hvað þú naust þín og skemmtir þér vel var unaðslegt.

Elsku mamma mín, missir þinn er mikill enda kletturinn í hans lífi og munum við fjölskyldan gera allt í okkar valdi til að gera ókomin ár bærilegri um leið og við vottum þér okkar dýpstu samúð. Minningu um einstakan mann varðveitum við í hjörtum okkar um ókomna tíð. Hafðu þökk fyrir allt og njóttu ferðarinnar í sumarlandið og veit ég að þar verður tekið vel á móti þér.

Söknuður um æðar rennur,

horfi til baka

á liðnar stundir

sem ekki voru.

Aðeins ósk í mínu hjarta,

ég finn til.

Nú okkar tími

liðinn er,

aðeins minningar

eftir standa.

Þína hönd í mína set,

þakka fyrir

það sem var.

Nú ég veit

en kannski of seint

að mér gafstu allt

sem þér var unnt.

Elsku pabbi

nú tími kominn

til að kveðja,

þakka fyrir

þínar gjafir

sem gafstu mér.

(Höfundur ókunnur.)

Elska þig og sakna!

Þín dóttir,

Hildur Dögg

Ásgeirsdóttir.

Elsku pabbi, tengdapabbi og afi okkar hefur nú kvatt okkur eftir erfið veikindi sl. ár. Hans er sárt saknað enda var hann ætíð ljúfur og góður félagi. Það var alltaf stutt í brosið og kímnina hjá honum enda var hann alls staðar vel liðinn þar sem hann vann og var í gegnum tíðina. Hann var alltaf þekktur sem mikill snyrtipinni og lagði mikið á sig til að hafa hlutina í röð og reglu. Það er ljúft að minnast þess að hann hafi upplifað draum sinn að eignast mótorhjólið sitt á sínum síðustu og bestu árum. Hann talaði mikið um hjólið sitt og naut þess að hjóla og pússa tryllitækið.

Þar fyrir utan var golfið honum hugleikið og þar fann hann sig vel og átti góðar stundar í góðra vina hópi.

Það er skrýtið að hugsa aftur í tímann og rifja upp allar góðar minningar sem við áttum saman. Þú varst alltaf greiðvikinn og til í að hjálpa börnunum þínum sem þú varst svo stoltur af. Það hrannast að sjálfsögðu upp góðar minningar um góðan og traustan mann sem nú hefur kvatt okkur. Maður yljar sér við þessar minningar með söknuði en gerir sér um leið grein fyrir að ekkert varir að eilífu og það er þess virði að njóta allra góðra stunda.

Við áttum margar góðar stundir saman í sumarbústaðnum sem var þér mjög kær og það var gaman að sjá brosið þitt þegar við vorum að rifja upp um daginn þegar sundlaugin uppi í bústað var sett niður og við héldum að þú og Guðmundur hefðuð orðið undir lauginni þegar hún féll niður í skurðinn.

Þér leiddist nú aldrei að stríða örlítið og hlóst ávallt dátt þegar það gekk upp, enda stutt í húmorinn og kímnina.

Það var því mjög erfitt að horfa upp á þig svona veikan og missa þar með alla hæfni til að vera þú sjálfur eða eins og við þekktum þig áður. Undir niðri var alltaf stutt í brosið og auðvelt að fá þig til að hlæja og hafa gaman.

Það er klárt í okkar huga að nú sért þú, elsku pabbi, tengdapabbi og afi okkar, kominn á betri stað þar sem þú getur strítt pínulítið og notið þess að vera eins og þér leið best.

Megi góður guð styrkja mömmu í sorg sinni og alla ástvini.

Læt fylgja ljóð sem ég samdi síðustu dagana sem við sátum hjá þér.

Nú Drottinn leiðir þina hönd

og drúpir höfði í blíðri bæn.

Þú ferð nú brátt um draumalönd

svífandi á englavæng.

Við kveðjum þig með þökk í hjarta

fyrir allt hið góða og blíða.

Von í brjósti og minningin bjarta

vakir milli stunda og stríða.

Guð þig geymir með sorg í hjarta

gætir þinna gæfuspora.

Þú þráir hvíld og sól svo bjarta

þú lífið kveður, þá fer að vora.

Guðmundur Ásgeirsson,

Birna Ívarsdóttir Sandholt

og börn.

Mig langar til þess að kveðja þig með nokkrum orðum, elsku tengdapabbi. Áttum við ófáar stundir saman og er ég afar þakklát fyrir þær. Mín fyrstu kynni af Geira voru í Túnhvamminum, Geiri stóð í anddyrinu og heilsaði mér, ég hugsaði: Rosalega lítur hann vel út, enda einkenndi snyrtimennskan hann um alla tíð. Sumarbústaðurinn var staður þar sem fjölskyldan varði mörgum stundum saman. Geiri kenndi mér að þrífa sundlaugina og vörðum við mörgum stundum út við sundlaugarpall og áttum góðar samræður. Geiri gat verið mjög hlýr og miðlað góðum ráðum ef eitthvað bjátaði á. Geiri var mikill húmoristi og gat nú hlegið mikið að stærðinni minni og banvæna heyrnarleysinu mínu. Brosið þitt mun lifa ávallt með mér. Barnabörnin voru mjög hrifin af afa sínum enda var hann afar góður við þau. Þegar sjúkdómurinn herjaði á Geira, þá óttaðist ég oft að hann myndi gleyma mér, en raunin varð ekki sú og það gladdi mig mikið. Geiri sýndi mér og mínu námi mikinn áhuga. Elsku Geiri, þú kenndir mér margt. Snyrtimennskuna og þitt einstaka jafnaðargeð tek ég alveg til fyrirmyndar. Ég vil þakka þér fyrir allar yndislegu samverustundirnar, minning um þig mun ávallt lifa í hjarta mínu.

Laufey Guðmundsdóttir

og fjölskylda.

Kæri tengdafaðir.

Mér er mjög minnisstætt þegar við hittumst fyrst í Túnhvamminum haustið 2006. Þú tókst á móti mér opnum örmum, handtak þitt hraustlegt og vinalegt. Léttur, skemmtilegur, með húmorinn í lagi. Hélst með réttu liði í ensku knattspyrnunni. Verra með Fram. Áttir mótorhjól, leðurvesti í mótorhjólaklúbbi. Einstakur maður.

Samverustundirnar urðu fjölmargar og samræðurnar fjörlegar. Þú varst sögumaður góður, áttir margar sögur af prakkarasögum þínum enda stríðnispúki mikill. Hlátur þinn smitandi, sást alltaf spaugilegu hliðarnar á málunum. Varst vel inni í öllum málum, misstir ekki af fréttatíma og fylgdist vel með okkur öllum.

Þú varst okkur ávallt hjálplegur þegar við þurftum að útrétta eitthvað. Alltaf bauðstu fram aðstoð og varst vinnusamur, til dæmis þegar við byggðum okkar hús á Hafravöllum. Það voru eftirminnilegar stundir og mikið hlegið. Þú varst hafsjór þekkingar og veittir góð ráð.Við getum seint þakkað alla þá aðstoð sem þú veittir okkur.

Þú varst börnum okkar Hildar góður afi. Fylgdist vel með hvað þau væru að gera og varst duglegur að spyrja þau spjörunum úr. Þau voru dugleg að heimsækja þig, bæði í Túnhvamminn og á Ísafold. Þau eiga dýrmætar miningar um þig sem við munum varðveita í sameiningu.

Elsku Vala, þú stóðst eins og klettur við hlið Ásgeirs í hans veikindum. Megi góður guð veita þér og fjölskyldunni allri styrk.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Þinn tengdasonur,

Bjarni Friðrik Jóhannesson.

Elsku afi okkar, takk fyrir allar góðu stundirnar saman og allt sem þú gafst okkur. Þú varst góður, hjálpsamur og skemmtilegur. Við söknum þín og elskum. Guð geymi þig og varðveiti.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku amma, við munum passa þig vel og umvefja þig ást og hlýju um ókomin ár.

Þín afabörn,

Valgerður Tinna,

Þóra Margrét og

Jóhannes Ásgeir.

Elsku fallegi brosmildi frændi minn, Ásgeir. Sorgarfregn barst okkur nýlega, um andlát Geira. Þó svo að hann hafi átt við erfið veikindi að stríða um allnokkurt skeið kemur slík fregn einhvernveginn manni að óvörum. Þó ekki hvað síst finnst mér Geiri hafa horfið í svefninn langa allt of ungur. Svo ég tali nú ekki um óréttlætið sem mér finnst fólgið í því að honum hrakaði stöðugt og veiktist svo illa sem raun bar vitni.

Það sem ræður líklega hvað mestu um hamingju hvers manns er samferðafólkið. Hvort sem um er að ræða nánustu fjölskyldu, vini eða samferðafólk. Góð samskipti, glaðværð, væntumþykja og áhugi fyrir viðfangsefnum hvers og eins eru dæmi um ákjósanlega eiginleika sem prýddu Geira. Ekki má gleyma brosinu sem var svo einlægt og sjarmerandi. Í þessu brosi var einhver ógleymanleg hlýja og væntumþykja sem virtust engin takmörk sett. Geiri var ávallt hress og kátur með einstakt jafnaðargeð sem hafði mótandi áhrif á alla sem hann umgekkst.

Vala mín, börnum ykkar, barnabörnum og fjölskyldum ykkar sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Já þannig endar lífsins sólskinssaga!

Vort sumar stendur aðeins fáa daga.

En kannski á upprisunar mikla morgni

við mætumst öll á nýju götuhorni.

(Tómas Guðmundsson)

Takk fyrir fallega góða brosið þitt og glettnina, Geiri minn.

Selma Katrín

Albertsdóttir

Ljúfur og brosmildur. Hlýr og góður. Hvers manns hugljúfi. Heill og sannur.

Þetta og svo margt annað prýddi hann Ásgeir Sumarliðason, sem ávallt var nefndur Geiri, sem nú hefur kvatt þessa jarðvist eftir erfið veikindi umliðin ár.

Eðliskostir hans Geira birtust í öllum hans orðum og gerðum. Hann var einfaldlega gegnheill sómamaður. Það er gott að vera í samskiptum við slíkt fólk. Það gerir umhverfi sitt, fólkið í kring, svo miklu betra. Þess vegna sóttist fólk eftir því að eiga hann að vini og geta glaðst og grátið með honum í samfélagi daganna. Börnin sem allt sjá og skilja, þau áttuðu sig líka á þessum sannleika og sóttu í félagsskap Geira og hann í þeirra. Barnvænn var hann svo eftir var tekið.

Ég átti þess kost að eiga góð og regluleg samskipti við Geira í gegnum elskulega eiginkonu hans, Valgerði Guðmundsdóttur, Völu. Við Vala erum kærir vinir og gamlir samstarfsmenn úr Alþýðuflokknum forðum daga.

Það var oft stormasamt í hafnfirskri pólitík á árum áður og forystufólk þurfti að hafa sterk bein til að standast álag og storma. Það gerði Vala svo eftir var tekið; ávallt föst fyrir og ákveðin. En á sama hátt var svo gott fyrir hana að eiga athvarf í mjúkum og góðum Geira heima fyrir, sem allt vildi fyrir hana gera.

Enda var þeirra hjónaband á kletti byggt og gagnkvæm virðing og væntumþykja til staðar. Hugur minn er ekki síst hjá Völu, minni góðu vinkonu, sem syrgir og saknar sárlega ástvinar í stað.

Við hjónin verðum því miður erlendis, þegar Geiri verður kvaddur hinstu kveðju, en hugur okkar verður hjá eftirlifandi; Völu, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum nákomnum.

Ásgeir Sumarliðason var drengur góður.

Góður guð blessi minningu hans um ókomna tíð og líkni eftirlifendum.

Guðmundur Árni

Stefánsson.