Jóhann Gunnar Þorbergsson fæddist 19. maí 1933 í Reykjavík. Hann bjó lengst af á Leifsgötunni og Bollagötunni. „Ég kynntist hermannalífinu í borginni, en hermannabraggar voru fjölmargir á Skólavörðuholti, og voru hermennirnir duglegir að gefa okkur krökkunum súkkulaði.
Ég byrjaði að vinna sem sendisveinn hjá Skipaútgerð ríkisins og þar kynntist maður lífinu við höfnina þar sem menn biðu eftir að fá vinnu. Sextán ára fór ég að vinna í tívólíinu í Vatnsmýrinni og þar var mikið fjör. Ég stjórnaði hringekju og parísarhjólinu og vann á kvöldin og um helgar.
Þegar ég varð tvítugur fékk ég vinnu hjá Steypustöðinni, keyrði GMC-trukkana, gamla herbíla, og sand- og malarflutningabíla sem voru stórir og þungir bílar með strompi. Ég vann einnig hjá BM Vallá meðan ég var í læknanáminu og keyrði stóra trukka þar. Maður kynntist því alls konar störfum og mér finnst það hafa mikið að segja að þekkja til fleiri starfa.“
Jóhann Gunnar varð stúdent frá MR 1953, cand.med. frá HÍ 1961, fékk íslenskt lækningaleyfi 1963 og sænskt lækningaleyfi 1966. Hann varð viðurkenndur sérfræðingur í lyflækningum í Svíþjóð 1969, og á Íslandi 1970 og hlaut sérfræðiréttindi í gigtarsjúkdómum 1971.
Jóhann Gunnar var aðstoðarlæknir, sérfræðingur og settur aðstoðaryfirlæknir á sjúkrahúsum í Eskilstuna, Karlskrona og Lundi í Svíþjóð 1963-1971, sérfræðingur á stofu í Reykjavík og Hafnarfirði 1971-1972. Hann var sérfræðingur og síðan yfirlæknir við Endurhæfingardeild/Grensásdeild frá 1973 og fram til 2003. Jafnframt stundaði hann sérfræðistörf á lækningastofu í Domus Medica.
Jóhann Gunnar sat í stjórn Gigtsjúkdómafélags íslenskra lækna í 25 ár, var formaður Heilbrigðisnefndar Garðabæjar 1975-1982, sat í Læknaráði Borgarspítalans 1981-1985, var félagi í Rotaryklúbbnum Görðum og sat í stjórn klúbbsins 1982-1983 og var í stjórn Læknaráðs LSH 2001-2003.
Jóhann Gunnar er félagi í Rotary Club of Westminster West í London, sat í stjórn klúbbsins og tilnefndur forseti klúbbsins 2006 (President Elect). Hann var gerður að heiðursfélaga í klúbbnum 2007. Í nóvember 2013 var hann útnefndur heiðursfélagi í Félagi íslenskra gigtarlækna.
„Núna fer ég mikið í ferðalög innanlands og erlendis og tek mikið af myndum þegar ég ferðast. Ég á ennþá marga vini í Svíþjóð frá námsárunum sem mér finnst gaman að heimsækja. Svo hefur einn sonur minn verið að bjóða mér í laxveiði. Ég er ekki mikill veiðimaður en mér finnst gott að fara út í náttúruna. Ég fylgist með barnabörnunum tíu eins mikið og ég get en tíminn líður alltof fljótt og mér finnst svo margt vera ógert.“
Fjölskylda
Jóhann Gunnar er kvæntur Ágústu Óskarsdóttur, f. 13.2. 1940, fyrrverandi stjórnarráðsfulltrúa í utanríkisþjónustunni. Foreldrar hennar voru hjónin Ásta Einarsdóttir, f. 7.2. 1919, d. 23.9. 2002, húsmóðir og Óskar Ólason, f. 7.11. 1916, d. 14.4. 1994, yfirlögregluþjónn í Reykjavík.Synir Jóhanns Gunnars og Ágústu eru: 1) Óskar Þór, f. 27.8. 1960, læknir PhD, sérfræðingur og klínískur prófessor í krabbameinslækningum við LSH, kvæntur Helgu Gunnlaugsdóttur, f. 24.9. 1963, PhD. matvælaverkfræðingi hjá Matís. Eiga þau börnin Kristínu, f. 2.10. 1992, iðnaðarverkfræðing, starfar hjá Isavia, og Daníel, f. 25.5. 1999, menntaskólanema í MR; 2) Kristinn, f. 3.5. 1964, rafeindavirki hjá Inter ehf., kvæntur Hallfríði Bjarnadóttur, f. 30.8. 1967, fulltrúa á fjármálasviði N1. Eiga þau börnin Bjarna Heimi, f. 29.6. 1994, háskólanema, Birnu Ósk, f. 5.7. 2000, nemanda í VÍ, og Ágústu Helgu, f. 17.4. 2003, nemanda í Hagaskóla, Reykjavík; 3) Ólafur Einar, f. 7.6. 1967, cand.oecon. HÍ, MBA BI Osló, viðskiptafræðingur, stjórnandi viðskiptaþróunar hjá Union Marine Management Services (UMMS) í Osló, kvæntur Helgu Guðmundsdóttur, f. 22.4. 1966, lækni og PhD, nýrnasérfræðingi við Háskólasjúkrahúsið Ullevål í Osló. Eiga þau börnin Ástu Sól, f. 10.8. 1992, læknanema og Óskar, f. 9.4. 1994, BS í viðskiptafræði, starfar við eignaumsýslu hjá Union Gruppen í Osló og er hann atvinnumaður í handbolta; 4) Jóhann Gunnar f. 6.3. 1973, löggiltur endurskoðandi og starfar sem fjármálastjóri, kona hans er Anna Vigdís Kristinsdóttir, f. 3.5. 1972, viðskiptafræðingur og lauk meistaranámi í endurskoðun frá HÍ. Eiga þau börnin Kristin Ólaf, f. 15.12. 2003, nemanda í Garðaskóla, Vigdísi Rut, f. 15.10. 2007 og Jóhann Gunnar, f. 10.8. 2009, bæði nemendur í Hofstaðaskóla í Garðabæ.
Bróðir Jóhanns Gunnars er Kjartan Oddur, f. 2.7. 1936, tannlæknir.
Foreldrar Jóhanns Gunnars voru hjónin Guðríður Þórdís Sigurjónsdóttir, f. 13.4. 1911, d. 4.4. 2001, húsmóðir og Þorbergur Kjartansson, f. 26.8. 1891, d. 20.4. 1979, kaupmaður í Reykjavík.