Í slensk hönnun verður í hávegum höfð í Kaupmannahöfn í næstu viku en þá verða opnaðar tvær sýningar þar sem íslenskri hönnun verða gerð skil. Tilefnið er aldarafmæli fullveldisins og það eru Hönnunarmiðstöð Íslands og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn sem standa að viðburðunum.
Annars vegar er það sýning í samstarfi við Illums Bolighus við Amagertorv og er sú sýning partur af hönnunarviðburðinum 3daysofdesign sem stendur frá 24.-26. maí. Á þeirri sýningu eiga verk 13 íslenskir hönnuðir úr ýmsum áttum verk en sýnendur eru AGUSTAV, Fólk Reykjavík, Erla Sólveig Óskarsdóttir, Ragna Ragnarsdóttir, Marý, Bjarni Sigurðsson, Skata, Dögg Design, Berlinord, Anna Thorunn, Fuzzy, Færið, Bryndís Bolladóttir, Þórunn Árnadóttir og Kjartan Óskarsson. Sýningaropnun hefst klukkan 15 og stendur til 18 en hér til hliðar má sjá nokkur af þeim verkum sem til sýnis verða í Illums Bolighus.
Hins vegar er það sýning í Sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn sem ber yfirskriftina Fáni fyrir nýja þjóð. Á sýningunni getur að líta úrval hugmynda að þjóðfána Íslendinga sem bárust fánanefnd árið 1914 þegar auglýst var eftir tillögum frá almenningi að íslenskum þjóðfána. Nefndinni bárust 28 hugmyndir, flestar í rituðu máli en ein tillagnanna er núverandi þjóðfáni Íslands. Grafíski hönnuðurinn Hörður Lárusson umbreytti þessum tillögum í myndrænt form og voru þær gefnar út á bók af Crymogea árið 2014 en á sýningunni má meðal annars sjá óhefðbundinn fána teiknaðan af Jóhannesi Kjarval. Á sýningunni verður einnig frumsýndur fáni sem var teiknaður og saumaður eftir lýsingu Kristjáns tíunda Danakonungs en þær hugmyndir hans fundust nýlega í dagbókarfærslum hans. Sýningin verður opnuð 23. maí í Sendiráði Íslands Í Kaupmannahöfn kl. 16.30 og stendur til 5. september.