Séra Friðrik segir í endurminningum sínum, Starfsárin III, að hann hafi kviðið fyrir 50. afmælisdeginum, 25. maí árið 1918, og hefði helst langað að fara eitthvað úr bænum, en vinur hans hafi hreint og bannað honum það.
„Ég vissi að þeir ætluðu að gera eitthvað mér til sæmdar. Það komu til mín tveir menn og sögðu mér að það væru sumir bæjarmenn að hugsa um að halda mér samsæti niður á Hótel Ísland. Ég sagði þeim að fyrir mér mættu þeir halda sér veislu og éta og drekka, en þeir mættu ekki ætlast til að ég kæmi þangað. Svo féll það úr sögunni.“
Séra Friðrik segir á sama stað:
„Ég var spurður að því í trúnaði, hvernig mér litist á að verða heiðursborgari. Það leist mér illa á, því að ég þóttist sjá í anda, hve óviðeigandi það væri að sjá „heiðursborgara“ höfuðstaðarins vera snöggklæddan að hamast með strákum suður á fótboltavelli eins og unglingsstrákur. Mér fannst að með því að fá slíka sæmd væri ég dæmdur til að haga mér „settlega“ og framganga virðulega og vel búinn á strætum úti. En ég sagði: „Það besta, sem bæjarstjórnin gæti gert fyrir mig, væri það að gefa mér til eignar eða þá til fullrar erfðafestu Valsvöllinn á melunum. Því bæjarstjórnin hafði veitt okkur völlinn til fullra umráða og afnota svo lengi sem bærinn þyrfti ekki að halda á honum til sinna þarfa“.