Bræðurnir Marcin og Rafal Nabakowski hafa verið dæmdir til fangelsisvistar af Landsrétti; Marcin í þrjú ár en Rafal í tvö ár og sex mánuði. Bræðurnir voru sakfelldir fyrir að skjóta úr haglabyssu fyrir utan verslun í Efra-Breiðholti í ágúst 2016. Brot þeirra varðaði 4. mgr. 220. greinar almennra hegningarlaga og ýmis ákvæði íslenskra vopnalaga.
Marcin hafði upphaflega verið dæmdur í tveggja ára og sjö mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur en dómurinn yfir honum var þyngdur um fimm mánuði þegar málið fór fyrir Landsrétt. Dómurinn yfir Rafal var hins vegar styttur um tvo mánuði af upprunalegum dómi hans.
Rafal var dæmdur fyrir að skjóta af afsagaðri haglabyssu upp í loftið í átt að hópi manna og Marcin fyrir að skjóta af sömu haglabyssu á bifreið með tvo farþega innanborðs. Jafnframt voru bræðurnir sakfelldir fyrir að skvetta ammoníaki í andlit manns og draga hann út úr bifreið sinni.