Heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu fór fram í þriðja sinn árið 1938 og að þessu sinni í Frakklandi.
Þjóðir Suður-Ameríku mótmæltu því harðlega að keppnin væri í Evrópu annað skiptið í röð, Úrúgvæ og Argentína neituðu að taka þátt og aðeins Brasilía kom þaðan. Þá komu lið frá Kúbu og Hollensku Austur-Indíum (síðar Indónesía) en aðrar þátttökuþjóðir voru evrópskar. Ítalir þurftu ekki að fara í undankeppni sem ríkjandi meistarar og það fyrirkomulag var í gildi til 2006.
Alls tóku 37 þjóðir þátt í undankeppni. Spánn dró sig úr henni vegna borgarastyrjaldarinnar og Austurríki dró sig úr keppni eftir að hafa komist áfram, þar sem landið hafði verið innlimað í Þýskaland. Þar af leiðandi voru 15 lið á HM. Aftur var leikið með útsláttarfyrirkomulagi og Svíar fóru beint í 8-liða úrslit vegna fjarveru Austurríkismanna.
• Ítalir urðu heimsmeistarar í annað skiptið í röð. Þeir unnu Ungverja 4:2 í úrslitaleik í París, að viðstöddum 45 þúsund áhorfendum, þar sem Luigi Colaussi og Silvio Piola gerðu tvö mörk hvor.
• Brasilía vann Svíþjóð 4:2 í leiknum um bronsverðlaunin sem fram fór í Bordeaux.
• Leonidas frá Brasilíu varð markakóngur HM 1938 með 7 mörk. Hann gerði m.a. þrennu í 6:5 sigri á Pólverjum í 16-liða úrslitum og tvö mörk í leiknum um bronsverðlaunin.