Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Átta flokkar bjóða fram til bæjarstjórnar í Hafnarfirði að þessu sinni og munu aðeins einu sinni hafa verið jafn margir. Flokkarnir eru Framsókn og óháðir, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn, Bæjarlistinn, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin – grænt framboð.
Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð mynduðu meirihluta eftir síðustu kosningar. Ljóst er að breyting verður þar á því Björt framtíð býður ekki fram nú. Ef marka má nýlega skoðanakönnun Fréttablaðsins í bænum myndu sex flokkar ná inn manni, allir nema Viðreisn og Bæjarlistinn.
Umskipti hafa orðið í fjármálum bæjarins eftir erfiða tíma. Ríflega 1,3 milljarða afgangur varð af rekstrinum í fyrra en skuldahlutfallið er 159%, hið hæsta meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Kominn tími á framkvæmdir
Íbúar sem Morgunblaðið ræddi við telja að bjart sé yfir bænum og tímabil uppbyggingar fari í hönd. Eftir að hafa þurft að herða sultarólina sé tímabært að huga að framkvæmdum og löngu tímabæru viðhaldi í Hafnarfirði.„Mér finnst ánægjulegt að sjá hversu vel hefur gengið að grynnka á skuldunum. Það er gömul saga og ný að ef þú skuldar mikið þá geturðu ekki gert mikið. Bærinn hefur látið á sjá á síðustu árum, sem er svo sem ekkert óeðlilegt, en nú myndi ég vilja sjá gott og öflugt átak til að koma honum aftur á sinn stall. Við viljum fagran og snyrtilegan bæ. Ráðamenn hafa verið að stæra sig af góðum árangri, nú þarf að sýna bæjarbúum þetta í verki,“ segir Guðjón Árnason, iðnrekstrarfræðingur og fyrrverandi handboltakempa í FH, sem hefur búið í bænum alla sína tíð.
Skortur á húsnæði
Íbúar í bænum nefndu margir að mikill skortur væri á húsnæði. Betra útlit væri í hjúkrunarrýmum nú þegar verið væri að byggja við Sólvang en unga fólkið hefði alveg verið skilið eftir. Ógrynni af ungu fólki vantaði húsnæði, bæði leiguhúsnæði og smærri eignir sem það gæti keypt sér. Binda margir vonir við frekari uppbygginu á Völlunum í þessu tilliti.Annað verkefni sem bíður nýrrar bæjarstjórnar, að sögn viðmælenda blaðsins, er að þrýsta á um samgöngubætur á Reykjanesbrautinni. Mikil umferðarteppa myndist gjarnan seinnipartinn þegar flugumferð er hvað mest og bílaröð sé frá álverinu og langt inn í bæinn.
Þarf að sinna viðhaldi
Flestir voru sammála um að tími væri kominn á viðhald, eins og Guðjón nefnir. „Það þarf átak fyrir gatnakerfið og það er uppsöfnuð viðhaldsþörf á ýmsum eignum bæjarins. Það jaðrar til dæmis við að vera orðið pínlegt að fara inn í Suðurbæjarlaugina. Íþróttahúsið í Kaplakrika er sömuleiðis orðið lúið. Það var flottasta hús landsins þegar það var opnað 1990 en ekkert hefur verið gert fyrir það síðan,“ segir Guðjón.
Miðbærinn í blóma
Talsverð uppbygging hefur verið í miðbænum. Veitingastaðir og kaffihús hafa sprottið upp og menningar- og listalíf er í blóma í Hafnarborg og Bæjarbíói.„Svona vil ég sjá miðbæinn og ég vil að hann fái að byggjast áfram út ströndina, frekar en að lögð sé áhersla á þéttingu byggðar. Það má ekki stugga við þessu. Ég held að það hafi verið Einar Bárðarson sem sagði að miðbærinn væri að verða eins konar Notting Hill Íslands og mér finnst það góð samlíking. Þetta andrúmsloft þarf að fá að þróast áfram. Þá njóta bæjarbúar góðs af en ferðamenn og aðrir hafa líka mikið að sækja hingað,“ segi Guðjón Árnason.