Líf Magneudóttir
Líf Magneudóttir
Eftir Líf Magneudóttur: "Eitt mikilvægasta skrefið sem við getum stigið ... er að borgin taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni um að endurreisa verkamannabústaðakerfið í nýrri mynd."

Umræðan um lausn á húsnæðisvandanum í Reykjavík hefur mestmegnis snúist um framboð: Það vantar meira af húsnæði. En það er ekki nóg að byggja bara meira. Það þarf að huga að því hverskonar húsnæði við byggjum og á hvaða forsendum.

Ástandið á húsnæðismarkaðnum minnir okkur nefnilega óþyrmilega á að markaðurinn, með sína ósýnilegu hönd og brauðmola, er ekki óskeikull.

Ástæða þess að leigufélög hækka leigu um tugi prósenta, og ástæða þess að allt of mikið er byggt af stórum og dýrum íbúðum er að fjárfestar gera kröfu um hámarksarðsemi. Og þó að það kunni að vera réttmæt krafa á hlutabréfamarkaði er ekki réttmætt að sú krafa sé gerð á grunnþarfir fólks.

Rót núverandi ófremdarástands

Það er ekkert náttúrulögmál að leigjendur standi frammi fyrir því að samþykkja tugprósenta hækkun á leigu eða lenda ella á götunni. Það er ekki heldur neitt náttúrulögmál að ungt barnafólk sjái varla fyrir sér að það geti komið sér upp þaki yfir höfuðið.

Ástandið var ekki heldur þannig lengst af síðustu öld. Ástæðan var sú að í Reykjavík var öflugt húsnæðiskerfi sem starfaði ekki á forsendum fjármagnseigenda. Hér var öflugt félagslegt húsnæðiskerfi, húsnæðissamvinnufélög og sterkt verkamannabústaðakerfi sem tryggðu fólki aðgang að fjölbreyttu húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Félagslegt leiguhúsnæði og leigufélög sem ekki eru rekin með hagnaðarsjónarmiði tryggja leigjendum þak yfir höfuðið á sanngjörnu verði og setja pressu á almenna leigumarkaðinn. Tekjulágt fólk gat keypt sig inn í verkamannabústaðakerfið þar sem fólki bauðst húsnæði til eignar á viðráðanlegum kjörum. Fólki bauðst húsnæði sem var ekki byggt með það að markmiði að hámarka arð af fjárfestingunni.

Þetta kerfi var svo lagt niður á tíunda áratugnum og eftir aldamót.

Endurreisum verkamannabústaðakerfið

Eitt mikilvægasta skrefið sem við getum stigið til þess að skapa húsnæðiskerfi sem þjónar fólki en ekki fjármagni er að borgin taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni um að endurreisa verkamannabústaðakerfið í nýrri mynd.

Samhent átak verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda hefur áður leyst brýnan húsnæðisvanda borgarbúa. Á árunum eftir fyrri heimsstyrjöld voru reistir verkamannabústaðir til að leysa úr gríðarlegum húsnæðisskorti í Reykjavík, og á sjöunda áratugnum tóku ríki, Reykjavíkurborg og verkalýðshreyfingin höndum saman um að útrýma braggahverfum með byggingu Breiðholtsins. Fyrirmyndirnar eru því til staðar.

Við þurfum hvorki að finna upp hjólið né þurfum við að sætta okkur við að venjulegt vinnandi fólk sé kramið undir tannhjólum markaðarins á óbreyttum húsnæðismarkaði. Við eigum að fara þær leiðir sem hafa virkað í gegnum tíðina og vinna með verkalýðshreyfingunni að því að byggja húsnæði fyrir fólk en ekki fjármagn.

Höfundur er oddviti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í borgarstjórnarkosningunum.

Höf.: Líf Magneudóttur