Margrét Ingibjörg Lindquist greindist með sáraristilbólgu fyrir níu árum. Hún segir alþjóðlegan baráttudag IBD afar mikilvægan til að auka þekkingu fólks á sjúkdómnum. Margrét telur lækna á Íslandi vera til fyrirmyndar en segir heilbrigðiskerfið þó illa í stakk búið til að takast á við IBD-sjúkdóma. „Orsakir sjúkdómsins eru enn óþekktar og ástand sjúklinga afar misjafnt. Sumir geta unnið fullt starf þrátt fyrir að greinast með sjúkdóminn en aðrir, eins og ég, lenda í erfiðari útgáfu af honum og hafa kannski aðra sjúkdóma undirliggjandi. Í mínu tilviki rauk upp blóðþrýstingurinn og sykursýki samhliða sáraristilbólgunni og þá flæktist málið. Sykursýkin og hái blóðþrýstingurinn eru í raun afleiðing af öllum þeim lyfjum sem ég þarf að taka vegna sáraristilbólgunnar og því álagi sem sjúkdómurinn hefur í för með sér.“
Margrét segir erfitt að skýra ástand sitt fyrir öðrum. „Ég held að það sé enginn í kringum mig, þótt allir séu af vilja gerðir, sem skilur fyllilega hvað ég er að ganga í gegnum. Þetta er allt frekar flókið og þú segir ekkert hverjum sem er frá veikindunum. Ég fer oft ekki út fyrir hádegi því ég þarf gjarnan að fara fimm til tíu sinnum á salernið eftir að ég vakna. Það fær enginn vinnu á þeim forsendum. Ég er öryrki en líka grafískur hönnuður svo ég get unnið þau verkefni sem ég treysti mér í þegar ég er hress.“
Margrét hefur áður tjáð sig opinberlega um sjúkdóminn og heldur úti opna snapchatreikningnum „lifididag“. Hún segist finna tilgang í að segja frá sinni reynslu. „Ég er þannig persóna að ef ég þarf að ganga í gegnum eitthvað vil ég finna einhvern tilgang með því. Ef minn tilgangur í lífinu er að vekja athygli á þessu þá geri ég það með glöðu geði.“
Eins og áður kom fram er Margrét öryrki og hún segir kerfið ekki hannað með sjúklinga í huga. „Þetta er allt mjög flókið og kerfið hjálpar ekki til, það er í raun einn af orsakaþáttunum. Það er alveg nóg að þurfa að hugsa um sjúkdóminn, þú átt ekki að þurfa að hugsa um hverja einustu krónu líka og velja lyf út frá fjárhagsstöðu. Það verður til mikillar streitu en streita er einn af orsakaþáttum sjúkdómsins.“