Góður Almarr var öflugur í liði Fjölnis og skoraði eitt af mörkum sumarsins.
Góður Almarr var öflugur í liði Fjölnis og skoraði eitt af mörkum sumarsins. — Ljósmynd/Víkurfréttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Keflavík Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Keflavík tók á móti Fjölni í 4. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í gær en leiknum lauk með 2:1-sigri gestanna. Eftir góðan leik Keflvíkinga gegn Breiðablik í 3.

Í Keflavík

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Keflavík tók á móti Fjölni í 4. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í gær en leiknum lauk með 2:1-sigri gestanna.

Eftir góðan leik Keflvíkinga gegn Breiðablik í 3. umferð Íslandsmótsins gerði maður sér vonir um að Fjölnismenn myndu þurfa að bíða eitthvað eftir fyrsta sigri sínum í deildinni. Undirritaður var duglegur að mæta á völlinn sumarið 2015 þegar Keflavík spilaði síðast í efstu deild. Frammistaða heimamanna í leiknum minnti um margt á sumarið 2015, svo slakir voru þeir.

Fjölnismenn voru hins vegar afar öflugir í sínum leik og voru mættir í Reykjanesbæ til þess að sækja þrjá punkta, það sást frá fyrstu mínútu. Það er hins vegar ekki hægt að segja að þeir hafi vaðið í marktækifærum. Almarr Ormarsson skoraði eitt af mörkum sumarsins í síðari hálfleik og reyndist það sigurmark leiksins. Keflvíkingar þurfa að gyrða sig í brók ef þeir vilja sleppa við að spila í B-deildinni á næsta ári. Að sama skapi er það ákveðið áhyggjuefni fyrir Fjölnismenn að þeir skuli ekki hafa klárað leikinn miklu fyrr, og stærra.