Dómur var felldur í Héraðsdómi Reykjaness í gær í máli Þorsteins Halldórssonar. Hann var þar dæmdur til sjö ára fangelsisvistar fyrir gróf kynferðisbrot gegn ungum dreng.
Tvær ákærur voru lagðar fram gegn Þorsteini: Í þeirri fyrri var hann sakaður um brot gegn hegningar- og barnaverndarlögum og sagður hafa tælt dreng frá því að brotaþolinn var 15 til 17 ára gamall. Þetta hafi Þorsteinn gert með því að bjóða drengnum fíkniefni, peninga, tóbak, farsíma og aðrar gjafir. Einnig er hann sakaður um að hafa brotið ítrekað gegn nálgunarbanni.
Í seinni ákærunni var Þorsteinn sakaður um að nauðga drengnum þegar hann var 18 ára. Þar á meðal er hann sakaður um að hafa haldið honum nauðugum og nauðgað honum ítrekað á fimm daga bili frá 6.-11. janúar á þessu ári. Nauðganirnar fóru fram á heimili Þorsteins og á gistiheimili en brotaþoli kom skilaboðum til foreldra sinna um það hvar hann væri með smáforritinu Snapchat.