Mælifell á Höfðabrekkuafrétti
Mælifell á Höfðabrekkuafrétti — Morgunblaðið/RAX
Ef marka má stefnuskrá nýju stjórnarinnar, sem hefur verið birt, mun algjör viðsnúningur verða í ítölskum stjórnmálum. Í fljótu bragði virðist þó að sitthvað í sáttmálanum kunni að verða snúið í framkvæmd.

Ef marka má stefnuskrá nýju stjórnarinnar, sem hefur verið birt, mun algjör viðsnúningur verða í ítölskum stjórnmálum. Í fljótu bragði virðist þó að sitthvað í sáttmálanum kunni að verða snúið í framkvæmd. Víst er að verði honum fylgt eftir af fullum þunga gagnvart Evrópusambandinu hlýtur að vera mjög stutt í stórárekstur við það.

Þekktur þingmaður forðum tíð þótti sækja jarðarfarir í kjördæmi sínu betur en flest ef ekki öll starfssystkin hans. Sá var eitt sinn spurður um þennan dugnað. Svar hans var efnislega þetta: „Ef þú ferð ekki í jarðarför þessa fólks mun það ekki koma í þína jarðarför.“ Svarið þótti skondið. En meiningin var ljós. Þingmaðurinn vildi sýna ræktarsemi, virðingu og vinsemd. Ekki til að tryggja að þeir sem hann hefði fylgt til grafar myndu síðar mæta og kveðja hann við sama tækifæri. Það voru annmarkar á því. En væntanlega hafði hann, auk ræktarsemi sinnar, sem þarf ekki að draga í efa, annað augað á því, að viðveran í jarðarförum í kjördæminu, þar sem hverjum manni í erfidrykkjunni var heilsað, gæti orðið til þess að einhverjir ættingjar eða vinir „hins látna“ myndu síðar fylgja þingmanninum. Ekki til grafar en að málum í pólitískum átökum og einkum þó kosningum. Og það sýndi sig oftar en einu sinni að þingmaðurinn hafði óneitanlega verulegt persónufylgi, þótt ekki megi af öryggi skrifa það allt á útfarir og erfidrykkjur.

Fast þeir sækja jarðarfarir

Það er stundum haft orð á því að við Íslendingar sækjum jarðarfarir betur en annarra þjóða menn. Ekki er þá verið að vísa í rannsóknir á fyrirbærinu. Frekar að miðað sé við kvikmyndir og sjónvarpsseríur sem virðast sýna að einungis örfáar hræður fylgi mönnum að jafnaði síðasta spölinn og það þótt töluvert af fólki hafi verið í kringum viðkomandi. Varla er hægt að skrifa það allt á það, að framleiðendur séu að spara við sig „statista“ þótt þeir vilji að öðru leyti draga upp sem trúverðugasta mynd. Þannig leggja þeir mikið á sig til að hafa bifreiðar, húsmuni og umhverfi sem taka mið af réttum tíma, sem hlýtur að kosta blóð, svita og tár, en einkum þó mikla fjármuni. Sjálfsagt eru góðar skýringar til á því hvers vegna fleiri fylgja gjarnan náunga sínum síðasta spölinn hér en þar. Sem er gott og notalegt. Ættrækni er ríkulegur þáttur í þjóðareðlinu. Landið er lítið og nálægðin mikil og fólk fylgist lengi að, jafnvel þótt störf breytist og skipt sé um húsnæði og flutt á milli hverfa eða byggðarlaga. Jafnvel menn sem hafa tekist á í hvunndeginum, í viðskiptalífi, stjórnmálum eða í baráttunni á milli Manchester United og Liverpool eða öðrum þáttum daglegs og opinbers lífs, kjósa við leiðarlok að horfa til heildarkynna og þess sem best fór í samskiptunum fremur en til hins.

Sjálfsögð háttvísi

Stundum er hent gaman að því hversu frábærir allir verða þegar kemur að eftirmælum í leiðarlok. En það fer vel á því. Bæði gagnvart þeim sem er farinn, ástvinum hans og vinum og gagnvart þeim sem kveður. Því þótt hann gæti tínt eitt og annað til bætir það ekkert úr, eins og komið er.

Það er vissulega þekkt annars staðar frá að ekkert þykir að því í minningarorðum að leggja til þess sem kvaddur er, en kunna sér hóf á samferðarskeiðinu.

Hér ganga menn stundum hart fram í dómum og oftar en ekki sleggjudómum hver í annars garð. Ekki hefur netið gert tilverunni gagn í þeim efnum. Það þekkir þó hver af sjálfum sér að með tímanum er hollara en hitt að horfa til þess sem bjart er yfir en á það dimma og drungalega. Það bætist við þá tillitssemi sem flestir kjósa að mæta og sýna því öðrum. Það sem forðum varð að ólund og illsku breytist smám saman í smælki, rétt eins og fjarlægð lækkar þverhnípt fjöll um leið og þau blána.

Hulda

Í vikunni sem var að líða kvaddi bréfritari góðan vin frá yngri árum og úr þeim þætti lífsins sem alllengi var hliðargrein í tilveru hans og gælt var við á unglingsárum að gera að aðalbraut hennar. Um Ketil hefur þegar verið skrifað í blaðið.

Góð vinkona, Hulda Valtýsdóttir, var kvödd tveimur dögum síðar. Hún tengdist Morgunblaðinu ríkulegri böndum en flestir og nánast frá fyrstu stundum sínum. Dóttir þess manns sem sameinaði eignarhald á blaðinu og ritstjórn þess um langt skeið og mótaði það í öndverðu og byggði upp. Hulda hafði sams konar aðkomu að blaðinu og faðirinn, en ekki sömu fyrirferð. Hún var bæði einn aðaleigenda og blaðamaður um langa hríð. Bæði hlutverkin tók hún mjög alvarlega. Bréfritari kynntist þeim þáttum vel. En þess utan voru þau Hulda samstarfsmenn í borgarstjórn Reykjavíkur á borgarstjóraárum hans, þegar Hulda var borgarfulltrúi meirihlutans „sem vann borgina aftur“ og síðar varaborgarfulltrúi og öflugur forystumaður, ekki síst í hennar helstu hugðarefnum, umhverfis- og menningarmálum, þótt önnur svið væru einnig undir. Hulda var mjög vel heima í þeim málum sem hún lét til sín taka. Þrátt fyrir að ögun og kurteisi væru henni í blóð borin, og kannski vegna þess, hlustuðu félagar hennar í borgarstjórninni mjög eftir hennar sjónarmiðum og tóku oft mið af þeim.

Gunnar Hansson, maður hennar, starfaði í byggingarnefnd borgarinnar og reyndist mjög öflugur og útsjónarsamur. Hann var skemmtilegur og bætandi á góðum stundum, eins og þau hjón bæði, og er því ekki að undra þótt margir sakni þeirra. Þótt Hulda væri kurteis og stillt var hún fylgin sér og ekki fór fram hjá neinum væri henni misboðið. Hún bar með sér góðvild og trúði því að með samstilltu átaki og heilindum mætti þoka réttum hlutum fram.

Jón E.

Með árunum fjölgar „þeim sem farnir eru“ úr hópi samferðamanna. Atvik, mynd eða stikkorð verða einatt til þess að til þeirra er hugsað. Þá koma svipur, augnatillit, göngulag eða eftirminnileg tilsvör upp í huga. Sumt af þessu er maður einn um að muna og það hverfur með honum. En tilsvörin, eða „sögurnar“ til að mynda, mætti geyma og gefa öðrum hlutdeild í. Margir muna enn mann eins og Jón E. Ragnarsson lögmann. Fyrir áratugum kunni fjöldi manna sögur tengdar honum. Sjálfsagt hafa margar þeirra þegar týnst eftir því sem kvarnast úr hópnum. Og lífsklukkan hvað Jón varðar og sögur af honum er nú orðin ágeng. Það er skaði. Margir kunna þó enn sögurnar af því þegar Jón árið 1960 sendi John F. Kennedy heillaskeyti við embættistöku og undirritaði það með fullu heimilisfangi og götunúmeri við Grettisgötu, en bætti við til öryggis að gengið væri inn Frakkastígsmegin. Jón vildi tryggja að forsetinn villtist ekki kæmi hann við til að þakka skeytið.

Og eins þegar Jón leigði bíl og bílstjóra frá Þrótti til að fara eldsnemma heim á Fjölnisveg 15 daginn sem Birgir Ísleifur borgarstjóri varð fertugur, lét vekja hann til að standa úti á tröppum þegar pallinum var lyft 40 sinnum honum til heiðurs.

Jónas stýrimaður

Bréfritari fór ungur á miðvikudagsmorgnum í kaffi með vini sínum Jónasi stýrimanni, rithöfundi og listmálara. Jónas hefur þá verið nærri fimmtugu. Eitt sinn sátu þeir yfir kaffinu í Kökuhúsinu við Austurvöll þegar Eysteinn Jónsson leit þar inn. Eysteinn varð bráðungur framámaður í íslensku þjóðlífi. Skattstjóri 24 ára og svo fjármálaráðherra 28 ára. Ekki er líklegt að slík met verði slegin. Hann hefði fengið -5000 stig ef svokallaðar „fagnefndir“ hefðu ráðið ferðinni. Eysteinn gegndi ráðherrastörfum í rúm 19 ár og þingmennsku í 40 ár.

Eysteinn Jónsson gekk að borði þeirra Jónasar og spurði hvort hinn væri ekki Davíð Oddsson. Sá kannaðist við það. „Við munum vera frændur,“ sagði Eysteinn. Áður en frændinn næði að staðfesta stoltur að þetta hefði hann vitað greip Jónas inn í og sagði: „Ég tek hundraðkall af hvorum ykkar fyrir að segja ekki nokkrum manni frá þessu.“

Eysteinn virtist ekki hafa smekk fyrir þessu, snerist á hæli og fór út. Bréfritari hafði reyndar allmörgum árum áður tekið viðtöl við Eystein bæði sem þáttagerðarmaður hjá Ríkisútvarpi og þingfréttaritari, en stjórnskörungurinn hefur ekki sett það í samhengi við uppivöðslusama borgarfulltrúann í stjórnarandstöðu í Reykjavík.

Jónas Guðmundsson var með öðru blaðamaður á Tímanum og eitt sinn var honum falið að sitja Búnaðarþing. Hann sagði í blaðið daginn eftir á þessa leið: „Ég er ekki viss um að Búnaðarþing sé gagnslaust, en ég vona það.“ Þetta vakti hvorki gleði hjá ritstjórn né flokksleiðtogum.

Lengi hafði verið um það deilt hvort arkitektar skyldu öðlast inngöngu í Bandalag íslenskra listamanna. Í hnotskurn stóð deilan um það, hvort arkitektar væru fremur tæknimenn en listamenn. Eftir að deilurnar höfðu staðið í allmög ár var mikilvægur fundur hjá bandalaginu og mikill hiti í mönnum. Sagan segir að Jónas stýrimaður hafi höggvið á hnútinn með þessum orðum: „Hér er deilt um það hvort íslenskir arkitektar séu listamenn eða ekki. Ég held að íslenskir arkitektar séu listamenn. Þeir eru að minnsta kosti ekki arkitektar.“ Þetta var á þeim árum þegar mikið var fjallað um flöt þök og lek hús.

Silvio

Og á þessum nótum skal skotist suður til Ítalíu þar sem þýðingarmiklir atburðir kunna að vera að gerast. Þar kemur Silvio Berlusconi við sögu. Ýmsir töldu að fyrir löngu væri búið að jarða hann pólitískt. Slík jarðarför þýðir þó ekki að skylt sé að tala vel um „hinn látna“ enda hafa „hlutlausir“ fréttaskýrendur á meginlandinu haldið áfram að hella sér yfir hann. En tengingin við listina er sú, að bréfritari og þau hjón stöldruðu um stund við í sumarhúsi hans á Sardiníu og fengu þennan líka ljúffenga fiskrétt. Hann var borinn fram á skrautlegum diskum sem ekki var annað hægt en taka eftir. Við lok máltíðar hafði konan orð á því hvað þetta væru fallegir diskar. Já, sagði gestgjafinn, þeir eru hannaðir af snjallasta postulínsmálara Ítalíu. Þegar betur var að gáð kom í ljós að listamaðurinn hæverski var auðvitað gestgjafinn sjálfur.

Þegar þau hjón héldu úr húsi var þeim færður pakki með fjórum fallegum og skrautlegum diskum og engum tveimur eins. Þeir voru brúkaðir í fyrsta sinn fyrir góða gesti eftir að ljóst virtist að tekið væri að rofa til hjá okkar gamla gestgjafa og vini. Dómstóll hefur nú fellt úr gildi bann við því að Berlusconi gegni opinberum embættum og flokkur hans sýnist nú líklegur til að verða þátttakandi í meirihluta að baki nýrri ríkisstjórn.

Þurrt púður og virk kveikja

Ef marka má stefnuskrá nýju stjórnarinnar, sem hefur verið birt, mun algjör viðsnúningur verða í ítölskum stjórnmálum. Í fljótu bragði virðist þó að sitthvað í sáttmálanum kunni að verða snúið í framkvæmd. Víst er að verði honum fylgt eftir af fullum þunga gagnvart Evrópusambandinu hlýtur að vera mjög stutt í stórárekstur við það. Ekki er endilega rétt að súta það. ESB er einn af örfáum þáttum tilverunnar sem aðeins geta lagast við stórárekstur.

Á hinn bóginn er líklegt að þeir sem telja sig kunnáttumenn um hefðbundinn ríkisrekstur eigi eftir að klóra sér í skallanum þar til úr blæðir, ef ekki fossar.

En þá er að minnast þess að illa var spáð fyrir hugmyndum Ronalds Reagans á sínum tíma, sem reyndust þó duga til að koma Bandaríkjunum á lappirnar aftur og auka sjálfstraust þeirra og virðingu og ljúka kalda stríðinu, sem var kirsuberið á þessa köku Reagans.

Óneitanlega virðist í ítölsku útgáfunni teflt á tæpt vað, en sjálfsagt er að óska þeim þar alls hins besta.

Og ef svo fer að ESB hrekkur upp af vegna þessara atburða er ekki nema sjálfsagt að snúa við blaðinu og fara að tala vel um hið látna.

Þó nú væri.