Útsýnið og ferskt ilmandi loftið er á meðal þess sem heillar við ítölsku Dólómítana. Þarna er hægt að fara í margar skipulagðar gönguferðir þar sem hægt er að njóta einstaks útsýnis í ítölsku ölpunum með viðkomu í litlum, huggulegum þorpum. Þarna talar fólk víðast hvar ítölsku, þýsku og ensku en í fjallaþorpunum lifir enn tungumálið ladin, sem er gamalt tungumál skylt latínu og lifir enn í afskekktum dölum í norðurhluta Ítalíu og suðurhluta Austurríkis.
Dólómítarnir ná yfir þrjú héruð; Belluno, Trentino og Suður-Týról. Í síðastnefnda héraðinu er borgin Bolzano, skemmtileg borg sem kjörið er að heimsækja í leiðinni. Þar búa um hundrað þúsund manns og borgin hefur verið valin sú borg sem býður upp á mest lífsgæði á Ítalíu.